19.04.1937
Sameinað þing: 12. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í D-deild Alþingistíðinda. (2415)

138. mál, brunaslys í Keflavík

*Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Það fer fjarri því, að þessi till. sé borin fram sem kosningabeita, og mér var ókunnugt um, að hv. þm. G.-K. hefði komið fram með till. til fjárveitingar í þessu efni. En þó svo væri, er ekki síður ástæða til að koma fram með þessa till., ef víst ætti að vera um, að þeir, sem urðu fyrir slysinu. fengju bæturnar nú, en það drægist ekki til næsta hausts, þegar fjárlög verða samþ. Það var ekki heldur úr vegi, að Alþfl. bæri þessa till. fram, þar sem þessi till. var borin fram á fundi, sem Alþfl. og Framsfl. stofnuðu til í Keflavík. Annars tel ég ekki, að einn flokkur frekar en annar eigi þessa till. En það, sem hv. þm. Barð. fór að reyna að skeyta skapi sínu á mér með, er í engu sambandi við þetta mál, og í því sérstaka ástandi, sem hann hefir verið og er í stundum hér á þingi, er ekki ástæða til að segja mikið við hann eða eiga við hann deilur. En þar sem hann talaði um, að ég hefði ekki viljað ganga í ábyrgð fyrir sig, þá sé ég ekki neina ástæðu til þess að ég fari að ganga í ábyrgð fyrir þm., sem tvisvar hefir ætlað að berja mig á allshn.fundi.