19.04.1937
Sameinað þing: 12. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í D-deild Alþingistíðinda. (2417)

138. mál, brunaslys í Keflavík

*Bergur Jónsson:

Ég ætla að biðja þá, sem hér eru viðstaddir, að taka til greina, að hv. 2. þm. Reykv. var að reyna að bera mér drykkjuskap á brýn, en það tekst bara ekki, því það eru nógu margir, sem rita, hve tilhæfulaust það er. Þessi hv. þm. sagði ennfremur, að ég hefði ætlað að berja sig á allshn.fundi. Það er bezt að segja sannleikann í því máli, og hann er sá, að það var þessi hv. þm., sem tvisvar hefir ráðizt á mig.

Hvað því viðvíkur, hvort þetta er kosningabeita eða ekki, vil ég benda á það, að það er venja, ef mönnum er alvara um að koma fram málum hér á Alþ., sem þeir vita, að menn úr öllum flokkum munu líka vilja fylgja, að þá leita þeir til þeirra manna líka, en það eru þessir menn, sem hafa ekki þá venju, og þar á meðal hv. 2. þm. Reykv., sem er nú nýbúinn að koma sínum flokki í þá úlfakreppu, að ekki er búizt við, að hann rísi upp aftur á ný, nema ef hæstv. forseti, sem er miklu meiri vitmaður, gæti fengið völdin aftur í flokknum.