15.04.1937
Efri deild: 41. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

*Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Ég er ekki sá lögfræðingur, að ég geti lagt dóm á, hvort það er löglegt eða ekki löglegt að leggja bráðabirgðalög fram breytt, en hitt hefi ég kynnt mér, að fyrir þessu er fordæmi. Það vildi ég aðeins undirstrika, að þó að þetta mál sé samþ., þá er þingið ekki að ganga inn á neina þá braut, sem ekki hefir verið farin áður. Hitt getur verið, að ástæða sé til þess, að þingið láti á einhvern hátt í ljós skoðun sína á því, hvaða reglu á að fylgja í þessu efni. Það er alveg rétt hjá hv. 1. þm. Revkv., að þótt stj. við nánari athugun telji, að bráðabirgðalög eigi að samþ. í annari mynd heldur en þau voru gefin út í í fyrstu, þá hefir hún nóg ráð til að koma fram breyt. þar að lútandi, þótt hún leggi bráðabirgðalögin óbreytt fyrir þingið. En ég geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh. hafi litið svo á, að þar sem þetta hefir verið gert áður, þá væri það einfaldast að setja þar breyt., sem hann vildi gera á bráðabirgðalögunum, inn í frv. eins og það var lagt fram.

Ég vildi aðeins undirstrika þetta, að fordæmi er fyrir þeirri aðferð, sem hér er viðhöfð, eins og líka hv. 1. þm. Reykv. gat um.