20.04.1937
Sameinað þing: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í D-deild Alþingistíðinda. (2420)

138. mál, brunaslys í Keflavík

*Ólafur Thors:

Snemma á þessu þingi barst mér ósk frá oddvita Keflavíkurhrepps um að bera fram á Alþingi till. um, að úr ríkissjóði yrðu greiddar 5 þús. kr. á þessu ári, eins og hann orðaði það „í styrk til greiðslu á eftirstöðvum af áföllnum kostnaði út af þessum atburði“, — þ e. a. s., sem þessi þáltill., sem hér er til umr., ræðir um. Ég skrifaði svo fjvn. um þetta nokkru síðar, og skömmu eftir að ég skrifaði það bréf var þessi þáltill. borin fram, sem hér er á þskj. 236. Ég er flm. till. þakklátur fyrir að hafa borið fram till. um, að ríkissjóður greiði 5 þús. kr. vegna tjóns af brunaslysinu í Keflavík, en ég hygg þó, að réttara væri að hafa þessa till. í öðru formi heldur en hún er, og skal ég út af því, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp bréf frá oddvita Keflavíkurhrepps, dagsett 12. apríl 1937:

„Herra alþingismaður Ólafur Thors.

Alþýðublaðið frá 9. jan. getur þess, að 3 af þm. Alþfl. hafi borið fram þáltill., er heimili ríkisstjórninni að greiða á þessu ári allt að 5000 kr. til þeirra, sem urðu fyrir tjóni vegna brunaslysa í Keflavík á jólunum 1935. — þriggja manna nefnd, sem skipuð sé hreppstjóra, héraðslækni og fulltrúa frá verkalýðs- og sjómannafélaginu í Keflavík úthluti fénu.

Vegna þess að till. ber með sér ókunnugleika flutningsmanna á málefninu, vil ég upplýsa þetta:

Hreppsnefndin varð, fyrir hönd hreppsins, að taka á sig ábyrgð á öllum kostnaði, er af slysi þessu leiddi, og efndi hún til samskotanna og ráðstafaði fénu á þann hátt, er um getur í bréfi mínu til yðar, dags. 25/2 þ. á.

Það, sem ógreitt er og áfallandi af þessum kostnaði, hefi ég búizt við, að gæti orðið allt að kr. 5000,00, og er hreppurinn ábyrgur fyrir greiðslu á því. Og er það þessi upphæð, er við förum fram á að fá styrk til að greiða, en tillagan eins og hún er orðuð ber það ekki með sér, þó að ráða megi af skrifum blaðsins, að við hana sé átt.

Það virðist því óþarft ákvæði í tillögunni, að útnefna þriggja manna nefnd til þess að greiða þessar skuldir. Ég hafði gert ráð fyrir, að hreppsnefndin annaðist þetta, ef styrkurinn fengist. Tortryggi fjármálaráðuneytið nefndina, þá hefi ég gert ráð fyrir, að afgreiðslan færi fram samkvæmt framlögðum reikningum. Ég vil því biðja yður, hr. alþingismaður, að bera fram breytingartillögu við nefnda tillögu:

Upphaf aðaltillögunnar: Alþingi heimilar ríkisstjórninni að greiða á yfirstandandi ári allt að 5000 kr. Framh. og breyting: til Keflavíkurhrepps til greiðslu á eftirstöðvum þess kostnaðar, er leiddi af brunaslysunum í Keflavík hinn 30. desember 1933.

Virðingarfyllst,

F. h. hreppsnefndar,

Guðmundur Guðmundsson.“

Ég mun nú leyfa mér að bera fram slíka brtt., sem hreppsnefndin óskar eftir, að borin verði fram, og vænti þess, að Alþingi telji rétt að fara í þessu efni þá leið, er hreppsnefndin sjálf óskar eftir. Það er því bert, að það hlýtur að vera á misskilningi byggt, að úthluta þurfi einhverjum peningum og það annist þriggja manna nefnd, sem til þess sé skipuð. Það, sem liggur fyrir, er að hjálpa Keflavíkurhreppi til að standa við þær ábyrgðir, sem hann tók á sig vegna brunaslysanna. Ef ég man rétt, er þegar búið að greiða út vegna slysanna kr. 16868,38, en sem sagt, hreppsnefndin býst við að þurfa að greiða allt að 5000 kr., og fer fram á að fá þær greiddar úr ríkissjóði og býst til að verja peningunum undir eftirliti fjármálaráðuneytisins.

Ég skal svo að öðru leyti ekki gera að umtalsefni og ræða um það slys, sem liggur til grundvallar fyrir þessum tillöguflutningi. Ég þykist mega vænta þess, að úr því jafnaðarmenn flytja þessa till., þá muni a. m. k. nægilega margir styðja að till. í því formi, er ég mun færa hana í með minni brtt., og vænti þess, að allir hv. þm. geti gengið inn á þessa greiðslu í því formi, er ég leyfi mér að fara fram á.