20.04.1937
Sameinað þing: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í D-deild Alþingistíðinda. (2427)

138. mál, brunaslys í Keflavík

*Ólafur Thors:

Það fór eins og mig grunaði, að hv. 2. þm. Reykv. þurfti ekki annað en ganga þvert yfir gólfið, þá fékk hv. 9. landsk. allt aðra skoðun á þessu máli. Ég verð ekki fyrir neinum vonbrigðum með það. Ég vil ekki gera þetta mál að neinu deilumáli, en mér finnst satt að segja óviðeigandi að taka ekkert tillit til óska hreppsnefndarinnar, þar sem hún hefir haft alla forgönguna í þessu máli. Hún hefir safnað og úthlutað 16 þús. og 800 kr. og gengið í ábyrgð fyrir 5000 kr. Við úthlutun fjárins hefir hreppsnefndin tekið fyllsta tillit til efnahags og ástæðna manna, og finnst mér það engin ástæða til að taka mann sunnan úr Grindavík til þess að úthluta þessum 5000 kr. (HV: Það er héraðslæknirinn). Ég hygg, að hann hafi aldrei séð neinn af þessum sjúklingum, því að það er annar læknir á staðnum. En úr því á að láta nefnd úthluta þessu fé, því þá ekki að taka sýslumanninn? Hann er sá rétti aðili. Ég ætla því að bera fram enn eina brtt. til vara, með leyfi hæstv. forseta. Það er, ef mín till. verður ekki samþ., að í stað „héraðslækni“ komi: sýslumanni. Leyfi ég mér að bera þessa till. fram skriflega.