15.04.1937
Efri deild: 41. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

*Magnús Jónsson:

Ég veit ekki, hvort maður getur orðað það svo, að bráðabirgðalög séu lögð fyrir Alþingi breytt; til þess er víst engin heimild. Það stendur í stjskr., að bráðabirgðalög skuli lögð fyrir næsta þing, en ef þeim er breytt, eru það ekki lengur sömu lögin, upphaflegu lögin eru þá sem sagt ekki lögð fyrir Alþingi. Það sem Alþingi verður að ganga inn á, ef þessa reglu á að taka upp, er þess vegna að það, að prenta bráðabirgðalögin sem fskj. með frv. sé að leggja þau fyrir Alþingi. Það frv., sem hér liggur fyrir, er ekki bráðabirgðalögin, sem út voru gefin, heldur frv. um sama efni, mikið breytt frá því, sem bráðabirgðalögin voru. En hæstv. ráðh. getur sagt, að hann hafi lagt bráðabirgðalögin fyrir þingið sem fskj.; þar með sé þingið búið að fá þau til athugunar og umsagnar og krafa stjskr. uppfyllt. Ég tel þetta vafasama aðferð og held, að hin aðferðin sé miklu betri, að ráðh. fái þeim breyt., sem hann óskar eftir, komið inn í frv. í meðferð þingsins. Það getur auðvitað oft komið fyrir, að ráðh. óski breyt. á bráðabirgðalögum, ekki fyrir að hann hafi skipt um skoðun, heldur af því að kringumstæður séu breyttar. Það getur meira að segja komið fyrir, að hann óski alls ekki eftir, að þau séu samþ. Tilefni þeirra getur verið úr sögunni, þegar næsta þing kemur saman, og því ekki þörf á, að þau hafi lagagildi áfram. Þá er það aðeins til þess að hlýðnast fyrirmælum stjskr., að slík bráðabirgðalög eru lögð fyrir Alþingi, sem svo getur látið vera að samþ. þau. — Ég veit ekki, hvort ástæða er til að gera ályktun út af þessu frekar. Ég vildi aðeins láta þessa aths. fylgja málinu í Alþingistíðindunum.