19.04.1937
Sameinað þing: 12. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í D-deild Alþingistíðinda. (2433)

139. mál, lagasafn

*Flm. (Jónas Jónsson):

Ég hefi flutt þessa till. með einum hv. þm. Alþfl. Um hana þarf ekki langa grg. Þegar lögbókin var gefin út af menningarsjóði, var ákveðið að geyma blýið vegna væntanlegrar endurútgáfu. Nú eru liðin mörg ár síðan og miklar breyt. hafa orðið á íslenzkum lögum, þó ekki meiri en svo, að mikið af þeim er óbreytt enn. Ef hallazt verður að því að gefa lögbókina út aftur, verður mikið gagn að því verki, sem búið er að vinna. Það er bezt og að öllu leyti eðlilegast, að landið gefi út bókina, því að menningarsjóður getur varla gert það, og mundi alls ekki geta það eins og sakir standa nú.

Reynslan hefir orðið sú, að menn hafa yfirleitt verið mjög ánægðir með lögbókina eins og hún var, en nú er hún orðin of gömul, og hún hefir verið afarmikið notuð, bæði af hv. alþm. og öðrum, sem yfirlit þurfa að hafa yfir íslenzk lög. Munu þeir óska þess, að fá bókina endurbætta, enda var upphaflega gert ráð fyrir, að Lögbók Íslands yrði gefin út á 3 ára fresti. Ég tel óþarft, að málinu verði vísað til n. en legg til, að till. verði vísað til siðari umr. að þessari lokinni.