06.04.1937
Sameinað þing: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í D-deild Alþingistíðinda. (2448)

85. mál, milliþinganefnd í bankalöggjöf o. fl.

*Emil Jónsson:

Þar sem ég hefi borið fram 2 frv., annað um seðlabanka og hitt um breyt. á lögum Landsbankans, sem snerta mjög það mál, sem hér er rætt, vil ég víkja að því nokkrum orðum.

Ég hefi ekki á móti því, að n. sú, sem hér er lagt til, að verði skipuð, taki bankalöggjöf landsins til athugunar. En mér finnst óþarft, að hún taki einnig sparisjóðina til meðferðar, þar sem um þá var sett ýtarleg löggjöf í fyrra, en hitt verkefnið út af fyrir sig sannarlega nógu viðtækt. Það virðist því engin nauðsyn að fara þegar að hrófla við þeim lögum með þessari þáltill. Hinsvegar lít ég svo á, að full ástæða sé til þess, að þau 2 frv. mín, sem ég nefndi áðan, fái sem skjótasta afgreiðslu. Frv. mitt um seðlabanka er samið af sænska hagfræðingnum Lundberg og hefir áður sætt ýtarlegri rannsókn bankafróðra manna. Það er því svo vel undirbúið, að ekkert ætti að vera í vegi fyrir því, að það næði fram að ganga þegar á þessu þingi. Breyt. þær á lögum Landsbankans, sem felast í hinu frv., eru mjög aðkallandi og eiga alveg eins að geta gengið fram nú, þótt þessi n. verði skipuð. Ég tel þessa nefndarskipun eiga fullan rétt á sér, þar sem bankamálunum hér á landi er öðruvísi háttað en annarsstaðar og þurfa því ýtarlega rannsókn. Hinsvegar tel ég rétt, að sparisjóðirnir verði felldir niður úr þáltill., þar sem n. mun alls ekki veita af einu ári til þess að athuga bankamálin ein.

Brtt. hv. þm. A.-Húnv., sem felur það í sér, að í rauninni sé þegar búið að fella krónuna, tel ég alveg ótímabæra og óviðeigandi. Ég heyri nú, að hv. þm. v.- Húnv. hafi tekið þessa brtt. upp aftur. (ÓTh: Hvað sagði sérfræðingur Rauðku um skráningu krónunnar?). Hv. þm. V.-Húnv. rangfærði nú, eins og stjórnarandstæðingar hafa oft gert áður, gersamlega umsögn sænska hagfræðingsins Lundbergs um skráningu íslenzku krónunnar. Hann sagði að vísu, að ef íslenzka krónan væri seld á opinberum markaði, væri núverandi gengi of hátt, en hann hefir hinsvegar fært veigamikil rök gegn því að lækka gengið frá því, sem nú er.

Ég get því samkv. framansögðu fylgt því, að n. þessi verði skipuð, en legg jafnframt áherzlu á það, að annað frv. mitt a. m. k., frv. um breytingar á lögum Landsbankans, verði samþ. á þessu þingi.