06.04.1937
Sameinað þing: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í D-deild Alþingistíðinda. (2452)

85. mál, milliþinganefnd í bankalöggjöf o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. þm. V.- Húnv. fannst það óviðeigandi, að ekki væri í till. látin í ljós skoðun á því, hvort krónan sé rétt skráð eða ekki. En ég álít slíka yfirlýsingu ekki eiga erindi í till. eins og þessa, þar sem rannsókn á að vera aðalatriðið. Hv. þm. þykist hafa bent á leið til að bæta úr öllu böli ranglátrar gengisskráningar, og þessa leið telur hann í því fólgna að skrá krónuna réttlátlega. Maður er nú reyndar ekki farinn að sjá, að frv. hans leysi málið réttlátlega. Samkvæmt því á að tryggja þetta með mati, en mat er nú ekki alltaf, fremur en önnur mannaverk, óyggjandi hlutur. Hann talar um, að gengið skuli miða við framleiðslukostnaðinn. En ætli það geti ekki orðið skiptar skoðanir um það, hve hátt kaup beri að reikna þeim, er við framleiðsluna vinna, t. d. í landbúnaðinum? Þessi ákvæði í frv. hv. þm. eru bara óákveðnar bendingar, svo að gengisskráningin gæti orðið réttlát eða ranglát, eftir því, hvernig þeim mönnum tækist, sem að þessu störfuðu. Ætli þetta sé ekki æðimikið komið undir þeim aðiljum, sem með málin fara á hverjum tíma?

Í till. er lagt til, að n. komist að niðurstöðu um það, hvort ekki sé hægt að setja ákveðin l. um það, við hvað miða skuli gengisskráninguna. Ég lít nú svo á, að deilur um það, hvort gengið sé of hátt eða of lágt, eigi ekki við í sambandi við þessa till. Þó að menn hefðu þá skoðun, að gengið væri nú of hátt, gætu þeir ekki sem alþm. tekið ákveðna afstöðu í því máli að svo stöddu. Í till. segir, að n. skuli athuga, hvaða ráðstafanir beri að gera út af gengisskráningunni. Þetta er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo, að krónan sé fallin, þó að hv. þm. V.-Húnv. neiti, að því sé slegið föstu. Og hann segir, að þó að hún væri ekki fallin nú, myndi hún eflaust falla á næstunni, og þess vegna sé sjálfsagt að samþ. þessa till. Það er auðvitað ekki gott að spá neinu fram í tímann, en við vitum þó, að á síðustu mánuðum hefir verðlag farið hækkandi, og ef því heldur áfram, hlýtur raunverulegt verð krónunnar að breytast. Verð krónunnar, miðað við vöruverð, er annað nú en fyrir 4 árum. Krónan hefir því raunverulega lækkað í verði. Ég álít því ekki viðeigandi að samþ. þessa till. Slíkt gæti orðið til skaða, því að það er ekki sama fyrir viðskiptalönd vor, hvað Alþingi lætur frá sér fara í þessum efnum. Það er tekið mikið eftir því, og það getur valdið óróa, ef Alþingi færi að samþ. till. um þetta mál. Mér finnst, að um það megi deila endalaust, hvort krónan sé rétt skráð, en það nýtur sín alls ekki í þessu sambandi. Það, sem við eigum að ræða um, er, hvort rétt sé, að þessi n. taki málið til meðferðar. Hér er enginn tími til að taka þá hlið málsins til athugunar, en það mun gefast tækifæri til þess seinna, þegar útvarpsumræður fara fram um gengismálið.