06.04.1937
Sameinað þing: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í D-deild Alþingistíðinda. (2453)

85. mál, milliþinganefnd í bankalöggjöf o. fl.

*Hannes Jónsson:

Ég finn ekki ástæðu til að tala um annað en 2. málsgr. þessarar tillögu. –Mönnum er það nú vel ljóst, að þessi till. er fram komin vegna þess ósamkomulags, sem komið er milli stjórnarfl., og þá sérstaklega vegna framkomu sósíalista í „Kveldúlfsmálinu“, því að strax eftir að þessa ósamkomulags varð vart, báru framsóknarmenn þessa till. hér fram. Ég skal nú gefa mönnum kost á að bera saman till. hv. 1. um. Eyf. og 2. þm. Skagf. í þessu máli og ályktun, sem flokksþing framsóknarmanna gerði í vetur. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa upp þessa ályktun framsóknarmannanna á þinginu í vetur:

„Flokksþingið ályktar, að Framsfl. beiti sér fyrir því, að skipuð verði n. til að athuga, á hvern hátt því verði bezt fyrir komið, að gildi peninganna verði framvegis miðað við framleiðsluvörur í stað þess að fylgja peningagengi annara þjóða. Sé lögð áherzla á, að n. skili áliti sínu sem fyrst.“

Ég veit ekki, hvernig þeir ætla að samrýma þetta. Manni virðist þessi till. vera dulbúið bónorð til kjósenda frá þeim mönnum, sem vita ekki, í hvora löppina þeir eiga að stíga.

Þá er annað, sem manni kemur undarlega fyrir sjónir, en það er framkoma hv. þm. A.-Húnv. í þessu máli. Samkv. ræðu, sem hann flutti í útvarpið hér fyrir skömmu, þá þótti honum líklegt, að krónan myndi falla innan skamms, og gengi hennar væri nú raunverulega of hátt. En svo fellur allur þróttur hjá þessum hv. þm. í málinu, þegar hann kemur inn í þingsalinn, og hann segir, að hann þurfi ekki að taka afstöðu til þessa máls, fyrr en við seinni umr. Hvaða ástæða er fyrir hann að vera að draga það? Vilja þeir draga það, að taka afstöðu til málsins, þangað til útvarpsumræður hafa farið fram um gengismálið. Ég held, að þeir ættu að gera till. í málinu við þessa umr., svo að þeir geti svo staðið við þær í útvarpinu.

Hv. þm. V.-Ísf. hefir komið einkennilega fram í þessu máli. Ég hefði viljað taka tillit til hans frekar öðrum við þessar umræður, en þar sem afstaða hans er nú þannig, að hann ætlar að koma fram sem fulltrúi sósíalista við næstu kosningar, en var fulltrúi andstæðinga þeirra við síðustu kosningar, þá get ég ekki tekið það alvarlega, sem hann segir, af honum var sú ákvörðun tekin að lækka ísl. krónuna með sterlingspundinu, en fylgja ekki mynt norðurlandaþjóðanna. Þeir sáu þá, að ekki var hægt að hafa samræmi í fjárhag þjóðarinnar, nema að fylgja enska pundinu eftir. Það var hin kalda bending staðreyndanna, sem skipuðu þessari stjórn að gera þetta. Hefðum við fylgt norðurlandamyntinni, þegar enska pundið fell, þá hefði farið fyrir okkur eins og fór fyrir Dönum og Svíum. Sænska og danska krónan fellu svo mikið, að ómögulegt reyndist að halda uppi heilbrigðu atvinnulífi, og þetta fall krónunnar varð miklu meira hjá þeim en varð hjá okkur. Menn verða að muna það, að ef við höldum uppi ranglátu gengi, þá hlýtur að leiða til þess fyrr eða seinna, að gengið verður fellt svo neðarlega, að við fáum ekkert við ráðið. Hæstv. fjmrh. vildi halda því fram, að það mætti lengi deila um, hvað sé raunverulega rétt skráning. En ég hygg, að engum manni geti dulizt það, að ísl. krónan er rannverulega fallin, og það er ekki nema blekking, að halda öðru fram. Það er fróðlegt að líta yfir framkomu framsóknarmanna í þessu máli. Samkv. ályktun flokksþingsins er það gefið í skyn, að krónan sé skráð allt of hátt, og þeir ætla nú að reyna að komast hjá því að framfylgja þessari ákvörðun flokksþingsins. En þeir geta það ekki, því að ef till. hv. þm. A.-Húnv. kemur til greina, þá eru þeir neyddir til að láta álit sitt í ljós.

Þeir, sem búa við sjóinn, hafa getað skapað sér nokkurnveginn eðlilega skráningu, en nú er það vitað, að Framsfl. hefir ekki beitt sér fyrir þessu máli og hefir um leið skapað sér andstöðu þeirra flokka, sem eiga fylgi sitt við sjávarsíðuna, og það má segja, að þar sé mikill stefnumunur milli sósíalista og framsóknarmanna. Og sú hagsmunastreita mun koma til með að verða hörð, ef til kosninga kemur. Um ósamkomulag þessara flokka má segja, að það er ekkert annað en uppgerð, því að það er alveg víst, að samkomulagið er alveg hið sama eftir sem áður.

Þetta ósamræmi í skráningu íslenzku krónunnar verður aldrei lagað, ef menn sveigja frá sínum skoðunum um þetta mál með hagsmuni einhvers flokks fyrir augum og þora ekki að láta skoðun sína í ljós á hvaða stigi málsins sem er, eins og hér hefir sýnt sig með hv. þm. A.- Húnv.

Hv. þm. V.-Ísf. vill láta það liggja á milli hluta, hvað rétt skráning ísl. krónunnar er; hann hugsar sem svo, að þjóðinni komi það ekkert við, þótt gengisskráningin sé órétt. Það er engu líkara, eftir því sem fram hefir komið við þessar umr., en að þjóðinni komi þetta ekkert við, það sé aðeins einkamál bankanna. En það er óhætt að fullyrða, að út frá óheilbrigðum fjármálum kemur allt, sem leiðir til glötunar og sjálfstæðismissis þjóðarinnar. Með farsællegri lausn á þessu máli má treysta þá þræði, sem þarf til að halda góðu fjármálaástandi meðal þjóðarinnar.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta að sinni. Mér mun gefast tækifæri til þess síðar, er útvarpsumræður fara fram um gengismálið, að fara nánar út í þetta mál. Ég vil að lokum segja það viðvíkjandi till. hv. þm. A.-Húnv., sem hann hefir dregið til baka, að það er ekki hægt að taka hana aftur, áður en atkvgr. fer fram. Hún er tekin aftur af hv. þm. A.-Húnv., en tekin upp af mér.