06.04.1937
Sameinað þing: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í D-deild Alþingistíðinda. (2457)

85. mál, milliþinganefnd í bankalöggjöf o. fl.

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Þegar ég kvaddi mér hljóðs, ætlaði ég að gera aths. við miðræðu hv. þm. V.-Húnv., en hæstv. fjmrh. hefir tekið af mér ómakið með það að gera þessar aths.; þó get ég ekki látið hjá líða að mótmæla því algerlega, að framkoma þessarar till. standi í nokkru sambandi við þann ágreining, sem nú er kominn upp milli Framsfl. og Alþfl., eins og hv. þm. hélt fram, og er hægt að sanna það, því að þessi till. er borin fram í beinu framhaldi og fullu samræmi við þá samþykkt, sem gerð var á flokksþingi framsóknarmanna, en það var haldið áður en þessi ágreiningur kom fram. Það er algerlega rangt, sem þessi sami hv. þm. hélt fram, að till. sé í ósamræmi við samþykkt flokksþingsins í þessu efni, því að hún er, eins og ég sagði áðan, í fullu samræmi við það, sem þar var samþ., þó að það séu, eins og gefur að skilja og eins og hæstv. ráðh. tók fram, ekki eins mörg orð í þessari till., sem hér liggur fyrir, og í till. flokksþingsins. Þessi hv. þm. var, eins og hann er vanur, með ýms gífuryrði um þjónkun Framsfl. við Alþfl., því að það er svo um hinn svokallaða Bændafl., að ef Framsfl. er sammála Alþfl., þá er það eftir skoðun Bændafl. af þjónkun við Alþfl., og þegar Framsfl. er honum ósammála, þá er það líka af þjónkun við Alþfl. Þessi hv. þm. var einu sinni framsóknarmaður, og þá var þetta sama sagt af ýmsum þáv. íhaldsmönnum, þeim grunnhyggnustu, og þessi málflutningur er ekkert annað en endurtekning á því, sem þá var sagt af ýmsum miður vönduðum og miður gefnum mönnum, og hv. þm. V.-Húnv. hrakti það oft mjög rækilega. Hann getur því rifjað upp sín eigin rök, sem hann færði fram á móti þessum sleggjudómum. Hitt er vitanlegt og kom greinilega fram í ræðu hv. þm. G.-K., hve mikil undirlægja hv. þm. V.-Húnv. og hans flokkur er annars flokks hér í þinginu. Það getur verið, að hann sjái sér ekki fært að hlýða að þessu sinni, vegna þess að hv. þm. G.-K., sem stundum er dálítið ógætinn, bar fram þessa skipun svo að allir heyrðu, en ef hann hefði gengið til hv. þm. V.-Húnv. og sagt honum í hljóði að hlýða, þá hefði hann gert það, því að það vita allir, hvernig sambandið er milli þessara 2 flokka. Annars var það undarlegt, og ég geri ráð fyrir, að hv. þm. A.-Húnv. bendi á það sjálfur, að langur kafli í ræðu hv. þm. V.-Húnv. var ádeila á þennan nágranna hans fyrir orð, sem hann hafði aldrei talað. Ég býst við, að hv. þm. hafi tekið eftir því, hann lagði honum orð í munn, sem hv. þm. Hafnf. hafði sagt, og fleira var af því tægi. (HannJ: Eins og hvað?). Þingtíðindin munu sýna það, ef hv. þm. falsar þau ekki. En ég vil algerlega mótmæla því, að atkvgr. um þessa brtt., ef hún verður knúin fram nú, sé prófsteinn á það, hvernig menn líta á þetta mál, því að það er aðeins fljótfærni að greiða nú atkv. um svo þýðingarmikið mál, sem er útbýtt fyrst á þessum fundi; það er fljótfærni og gapaskapur, og þó að ég vilji greiða fyrir því, að þessu máli gæti lokið með tveim umr., eða þannig að það sé tekið tvisvar til umræðu, þá sé ég ekki annað fært, vegna þessa þráa hv. þm. V.-Húnv., en að óska eftir því, að umr. verði frestað og málinu í millitíðinni vísað til n. (HannJ: Er Framsfl. reiðubúinn til þess að taka afstöðu?). Það hefir engin ósk komið frá Framsfl. um, að þessi till. kæmi ekki undir atkv. núna; hún hefir komið fram frá mér sem flm. málsins og sem nefndarmanni í þeirri nefnd, sem málið á að fara til, en alls ekki fyrir hönd Framsfl. Þessi hv. þm. getur ekki hugsað sér, að neinn þm. beri neitt fram, án þess það sé skipun frá einhverjum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta. Enda þótt einhverjir kynnu að vera á mælendaskrá, tel ég rétt að fresta nú umr. og vísa málinu til n. á þessu stígi, þar sem komið er að því að fresta fundi hvort sem er, og ég vænti þess, að hæstv. forseti taki þá till. til greina og beri hana undir atkv., ef hv. þm. V.-Húnv. vill ekki taka það til greina, sem húsbóndinn skipaði honum að gera, að falla frá því að taka till. upp. (HannJ: Ég skal leyfa, að hún gangi til n.).