06.04.1937
Sameinað þing: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (2463)

85. mál, milliþinganefnd í bankalöggjöf o. fl.

*Pétur Ottesen:

Það kann að vera, að hv. 1. þm. Árn. muni það betur en ég, að einhver fordæmi séu fyrir því, að till. hafi verið vísað til n. á þessu stigi málsins; en ég ætla, að það séu frekar undantekningaratriði, ef slíkt hefir átt sér stað. Hv. 1. þm. Árn. færði þau rök fyrir þessu, að þetta gæti verið heppilegt, því að það gætu verið ýms ákvæði í till., sem yrðu þess valdandi, að þær annars féllu.

Við vitum, að það er algengt um fjölda mála hér á Alþ., að menn greiða atkv. með því, að málið fari til 2. umr. og fái athugun í n., þó að þeir séu mótfallnir ýmsum atriðum þess, og jafnvel mótfallnir málinu í heild, og þetta gildir einnig um þá tegund mála, sem hér er um að ræða, þingsályktunartill.

Mér skilst, að það sé ekki sá ágreiningur um þá þingsályktunartill., sem hér liggur fyrir, að það sé hætta á því, að hún fengi ekki að fara til n., þó að þessari umr. væri lokið. — Mér skilst þvert á móti, eftir því, sem fram hefir komið í málinu, að menn séu nokkurnveginn einhuga um að láta þetta mál ganga fram í einhverri mynd, þó að ágreiningur kunni að vera um einstök atriði þess, einkum formið. Ég get ekki komið auga á það, að þetta mál sé þannig vaxið, að knýjandi nauðsyn sé til þess að brjóta venjulegar reglur um gang mála hér á hv. Alþ.