19.04.1937
Sameinað þing: 12. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (2482)

85. mál, milliþinganefnd í bankalöggjöf o. fl.

*Bergur Jónsson:

Ég verð að taka undir það hjá öðrum ræðumönnum heldur en hv. 9. landsk., að hér sé um alvarlegt mál að ræða, því að ég get ekki séð, að hann álíti það, hvað sem hann kann um það að segja, þar sem hann byrjaði á því að fara út fyrir þetta alvarlega mál og hóf árásir á einstaka menn og var með skoplegar lýsingar af allskonar ljótum leikfimisæfingum, sem ég efast um, að hv. þm. kunni sjálfur, þó að hann kunni margt ljótt. Hann byrjaði á því að tala um það, að n. þyrfti að geta lokið störfum sem allra fyrst. Og þetta átti að sýna áhuga hans og alvöru í málinu. En ég vil nú spyrja þennan hv. þm., hvort það muni ekki vera einhver önnur ástæða fyrir því, að hann vill láta leysa málið svona fljótt. Ætli það sé ekki vegna þess, að hann vilji hafa aðstöðu til að ná sér í bitling í sambandi við það? Ég geri ráð fyrir, að honum hafi verið lofað einhverju slíku og þess vegna sé áhuginn svona mikill fyrir þessu máli, því að af þeim toga er áhugi þessa hv. þm. oftast spunninn.