16.02.1937
Efri deild: 2. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

Kosning fastanefnda

*Jónas Jónsson:

Út af því, sem hv. 1. þm. Skagf. talaði um samfylkingu, sem Framsfl. væri í við tvo aðra flokka, þá vil ég taka það fram, að ég veit ekki, hverjir það eru. Mér er kunnugt um, að við erum í pólitísku samstarfi við þann flokk, sem stendur að ríkisstj. með okkur, en ég hygg, að það sé af ókunnugleika hjá hv. þm., ef hann heldur, að það sé samband á milli Framsfl. og nasista eða kommúnista, eða þeirra flokka, sem standa að hv. þm. Skagf. Aftur á móti er ég hræddur um það, og það kemur ljóslega fram í verkunum, að flokkur hv. 1. þm. Skagf. er í ákaflega nánu sambandi á tvær hliðar, bæði við þá menn, sem nú biðja um liðsauka hér á þingi, og svo við nasista, og vil ég í því efni minna á, að hans látni samherji, Jón heitinn Þorláksson, þakkaði þeim hér á árunum fyrir bandalag og lýsti þeim sem göfugum persónum með hreinar hugsanir.

Út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði um það, að hann væri ekki í neinum venzlum við Sjálfstfl., þá liggur í því — og eins hjá hv. 1. þm. Skagf. —, að það hafi verið ósatt, sem form. Sjálfstfl. sagði í fyrra, þegar hann játaði það á sig í hv. Nd., að það væri fyrir sinn stuðning og með sínum vilja og vitund, að atkvæði fluttust yfir á þann mann úr Bændafl., sem náði kosningu í héraði, og þannig gaf þessum mönnum tilverurétt á þingi. Þetta er því beinlínis yfirlýsing um það, að hv. form. Sjálfstfl. hafi sagt ósatt í fyrra. En ef formaðurinn (ÓTh) hefir sagt satt, þá er hv. síðasti ræðumaður sprottinn af sömu rót, kominn á þing fyrir þeirra tilverknað, og verður því að skoðast þeirra heimilismaður.

Ennfremur vil ég benda hv. 10. landsk, á það, að hv. fyrrv. sýslum. Árnesinga, sem komst inn á þing fyrir sömu greiðasemi hv. form. Sjálfstfl. og hann, kemst ekki í n. og gerir enga tilraun til þess. Ég sé því ekki, að þessi maður (10. landsk.) hafi nokkra frekari ástæðu til að fara fram á sérstakt þingleyfi heldur en hv. 2. landsk. Það er eðlilegt, að þeir sitji við sama borð í lífinu eins og þeir komust inn í þennan pólitíska heim, fyrir allar sömu aðstæður.