20.04.1937
Sameinað þing: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í D-deild Alþingistíðinda. (2510)

162. mál, dánarbætur o. fl.

*Garðar Þorsteinsson:

Ég hafði borið þarna fram brtt. við till. á þskj. 361, eins og hæstv. forseti gat um, en þegar sú till. kemur ekki til atkv., heldur brtt. frá hv. 1. landsk., sem að efni til er eins, þá leyfi ég mér hér með að biðja hæstv. forseta að bera þá till. upp sem brtt. við till. hv. 1. landsk. Og þessi till., sem að efni til á við báðar till., fer fram á, að þessi vinsamlegi skilningur, sem ætlazt er til, að lagður sé í 11. gr., nái auk þess, sem hann á að ná til greiðslu á dánarbótum til foreldra, til systkina einhleyps manns, jafnt þó að systkinin hafi ekki verið beinlínis á frumfæri hins látna. Ég skal taka það fram, að ég hefi eitt sérstakt tilfelli í huga í sambandi við þetta. Þetta tilfelli er á þá leið, að það var maður, sem fórst í sumar leið á mótorskipinu Brún frá Siglufirði, sem raunverulega hafði systkini á framfæri sínu, þó að eftir ströngustu fyrirmælum laganna væri ekki hægt að segja það. Nú veit ég, að tryggingarstofnunin hefir ekki séð sér fært, vegna ákvæðanna í 6. lið 11. gr. þessara laga, að greiða bætur til þessara systkina, sem hann þó raunverulega hafði á framfæri sínu.

Með þetta sérstaka tilfelli í huga vildi ég mega vænta þess, að Alþ. vildi sýna sama skilninginn gagnvart þessum lið 11. gr. eins og 5. liðnum.