20.04.1937
Sameinað þing: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í D-deild Alþingistíðinda. (2518)

162. mál, dánarbætur o. fl.

*Gísli Sveinsson:

Ég þarf ekki að bæta neinu við þau orð, sem látin hafa verið falla um þetta mál. Viðvíkjandi þeirri brtt., sem hv. 8. landsk. ber hér fram — og ég óska eftir að fá skýringu á —, sé ég ekki annað en sú till. og aðrar, sem hér hafa komið fram, fari alveg fram á það sama og till. hv. 1. landsk. Ég vil geta þess, að till. hv. 8. landsk. fer út yfir það svið, sem tryggingarlöggjöfin ætlast til. Og tryggingin er framkvæmd á þeim grundvelli, að foreldri fái dánarbætur fyrirvinna, hvort þeir hafa beinlínis verið á framfæri þeirra eða ekki, en um systkini hefir slíkt ekki gilt, nema þau hafi beinlínis verið á framfæri hins látna. Ég hefi skoðað þetta sem algilda reglu. En það væri fulllangt gengið, ef öll skyldmenni ættu að fá dánarbætur fyrir hvern mann, sem deyr. Ég get því ekki séð, að þessi till. hv. 8. landsk. hafi þá sanngirni til að bera, að foreldri fái neinar verulegar dánarbætur fyrir sonu sína, og vil fastlega mælast til þess, að hann taki þessa till. sína aftur.

Þessi lagabálkur mun verða endurskoðaður á næsta þingi, og þá væri annað mál, þótt teknar yrðu ýmsar smábreytingar með. Og það, sem ég legg mestu áherzluna á, er það, að þeim foreldrum verði bætt upp, sem hafa verið beittir órétti með framkvæmd laganna. Það hefir komið fram viðaukatill. frá hv. þm. N.-Þ., sem er eftir mínum vilja og byggð á réttum forsendum. Og ég efast um, að hægt sé með þáltill. að koma því í það horf að láta þessa vexti fylgja hreppatillögunum, því þeir verða ekki leystir fyrr en seint á árinu, en æskilegt væri, að þeir kæmu sem fyrst fram til úthlutunar. Hreppasjóðirnir eiga heimtingu á þessu, og þeir krefjast þess.

Þessi þáltill., sem hér er til umr., er ekki til nokkurra bóta á tryggingarlöggjöfinni, og tel ég það æskilegt, að leitað yrði álits tryggingarstj. um, hvaða breytingar væri nauðsynlegast að gera, því tryggingarstj. veit bezt um þá ágalla, sem komið hafa í ljós við framkvæmd laganna, og það álit yrði notað sem uppistaða í frv. til laga um breyt. á lögum um alþýðutryggingar, og yrði þá lagt fyrir næsta Alþingi.