24.02.1937
Neðri deild: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Það er ánægjulegt að heyra, hvað hv. þm. ber lýðræðið og þingræðið mjög fyrir brjósti. Vona ég, að það sýni sig í framtíðinni, að þetta hafi verið af heilindum mælt. Skal ég hjálpa honum eftir minni litlu getu til að vinna að því, að lýðræðið verði í heiðri haft.

Hvað snertir annað, er hann hélt fram í ræðu sinni, þá er það alveg rangt hjá honum, að það sé aðalatriðið í þessu máli, hvað bráðabirgðalögin voru sett skömmu eftir þingslit. Aðalatriðið er hitt, að 12. maí var stjórn verksmiðjanna ekki fullskipuð, og það var ekki hægt að fá hana fullskipaða samkv. gildandi lögum. Eins og sakir stóðu, var því ekki hægt að leysa málið á annan hátt heldur en með bráðabirgðalögum. Það var skylda þess ráðh., sem þetta heyrði undir, að finna lausn á málinu, og það var tryggt, að þingvilji var fyrir þeirri lausn, sem gerð var. Annað hefi ég ekki um þetta að segja.