20.04.1937
Sameinað þing: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í D-deild Alþingistíðinda. (2521)

162. mál, dánarbætur o. fl.

*Guðbrandur Ísberg:

Út af hinni skriflegu brtt. hv. þm. N.-Þ. vildi ég taka það fram, að sá skilningur, sem hann hefir haldið fram á breytingum og þeim till., sem komið hafa fram við ýmsar greinar tryggingarlaganna, er alveg réttur. Það kom mér alveg á óvart, þegar ég heyrði, að tryggingarstj. hefði fundið allt annan skilning á þessu máli. Ég vil því benda á nokkur atriði, sem ég hygg, að taki af allan efa. — Ég vil þá benda á 47. gr., sem fjallar um það, á hvern hátt lífeyrissjóður myndast. Sjóðurinn myndast á þann hátt, sem hér segir:

1. Af iðgjöldum tryggingarskyldra manna.

2. Af sjóðum þeim, er ræðir um í 62. gr. hér á eftir, þegar hlutverki þeirra skv. þeirri grein er lokið, svo af ellistyrktarsjóðum, þegar hlutverki þeirra er lokið skv. VI. kafla þessara laga“.

Þá má nefna 77. gr.: „Til örorkubóta og ellilauna skal árlega varið:

1. Árlegum vöxtum af ellistyrktarsjóðum.

2. Tillagi frá Lífeyrissjóði Íslands eftir því sem ákveðið er í 79. gr.

3. Framlögum úr bæjar- og sveitarsjóðum eftir ákvörðun bæjar- og sveitarstjórna.“

Í 79. gr. og þeim öðrum greinum, sem á undan fara, er talað um, á hvern hátt fundin er sú upphæð, sem er ákveðin sem árstillag Lífeyrissjóðs, og hve miklu hún nemi. „Upphæðin er fundin á þann hátt, sem hér segir: Tryggingarstofnunin leggur til grundvallar síðustu skýrslu yfir tölu gamalmenna, yfir 67 ára, á öllu landinu. Árstillag lífeyrissjóðs fæst þá með því að margfalda tölu gamalmennanna með kr. 52,50, að frádreginni þeirri upphæð, sem úthlutað hefir verið á því ári af vöxtum ellistyrktarsjóðanna. Gildir regla þessi þangað til Lífeyrissjóður Íslands byrjar að greiða elli- og örorkulífeyri, sbr. 89. gr. Eftir þann tíma dregst auk þess, sem að framan getur, frá árstillagi lífeyrissjóðs helmingur af öllum lífeyrisgreiðslum á árinu.“ — Hér ber alveg að sama brunni og þegar talað er um, að hlutverki ellistyrktarsjóða sé lokið, þegar lífeyrissjóður embættismanna tekur við, og ekki fyrr. Það er einnig augljóst, að það hlýtur að vera átt við 89. gr., þegar talað er um úthlutun lífeyris, því að í 47. gr. er það svo óákveðið, að eftir þeirri gr. verður ekki farið.

Þá vil ég benda á 82. gr., þá gr., sem hv. þm. N.-Þ. kom að og tekur af allan efa í þessu efni. Þar er talað um það, þegar úthlutun er lokið í hreppum. Þar segir svo:

„Þegar úthlutun ellilauna er lokið, skal senda tryggingarstofnun ríkisins nákvæma skýrslu um úthlutunina, og í því formi, sem hún ákveður.

Í skýrslunni skal tekið fram, hve mikill hluti af hinni úthlutuðu upphæð hafi verið vextir af ellistyrktarsjóði, og tiltekin upphæð sú, sem úthlutað hefir verið hverju gamalmenni.“ M. ö. o., þar skýrslur, sem hreppstjórarnir eiga að gefa, eiga að bera það með sér, hvað mikið búið er að úthluta af ellistyrk. Ég hefi átt tal um þetta við tryggingarstjórann. Hann sagði, að þetta gæti ekki gengið eins og það væri nú. og það sé orðað á annan veg heldur en það hefði átt að vera. Hann vildi halda fram, að það fé, sem ætti að vera í vörzlum sýslumanna, ætti að komast í þeirra hendur eftir að login gengu í gildi, og það er því fráleitt að setja þetta inn í lögin eins og það liggur fyrir. Það er viðurkennt af forstjóra trygginganna, að þessi gr., eins og hún er orðuð, heimili vel þann skilning, sem við höfum lagt í hana, og hann vill einnig halda sér við þann skilning, að þar sé átt við eitthvert fé, sem sé eftir hjá þeim, sem hafa með ellistyrktarsjóðina að gera. Ég álít því, að ekki sé nema vitleysa að láta þetta í lögin. Ég vil því ákveðið styðja till. hv. þm. N.-Þ., því ég veit, að hún er í fullu Samræmi við skoðun meiri hl. þm., og treysti því þess vegna, að hún verði samþ.