24.02.1937
Neðri deild: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Sigurður Kristjánsson:

Ég kvaddi mér ekki hljóðs vegna þess, að ég byggist ekki við, að það gæfist ekki tækifæri síðar til að ræða þetta mál, því að það fer sjálfsagt til n. og sennilega þeirrar n., sem ég á sæti í. Ekki kvaddi ég mér heldur hljóðs vegna þess, að við sjálfstæðismenn ráðum svo miklu um það, hver úrslit mála verða hér á Alþingi, né heldur kvaddi ég mér hljóðs sökum þeirrar drýldni, sem mér fannst koma fram hjá hæstv. atvmrh. í sambandi við útgáfu þessara bráðabirgðalaga, sem mér virðist hann vilja telja í alla staði réttmæta, nauðsynlega og fyllilega lögmæta. En það, sem kom mér til að kveðja mér hljóðs, var það, að ég vildi ekki láta það nær því umræðulaust, þegar hæstv. atvmrh. er að halda því fram, að þessi útgáfa bráðabirgðalaga sé yfirhöfuð í góðu samræmi við tilgang stjórnarskipunarlaga landsins og alveg nauðsynleg. Það er náttúrlega í þessu sambandi aukaatriði, að hæstv. atvmrh. er að reyna að finna allskonar smugur, sem auðvitað allar eru of þröngar fyrir þá miklu fyrirferð, sem hlýtur að vera á misfellunum í meðferð hans á þessu máli. Það er t. d. alveg vonlaust fyrir hann að komast í gegnum þá smugu, að það ástand hafi verið eftir þing í vor, sem gerði óhjákvæmilegt að setja bráðabirgðalög eins og þau, sem hér er leitað samþ. fyrir. Hafi vantað í gildandi löggjöf ákvæði um, að varamenn tækju sæti fyrir þá menn, er sögðu sig úr verksmiðjustjórninni, gat stj. vitanlega bætt úr því á þann hátt að bæta við mönnum aftur í þeirra stað með bráðabirgðalögum, í stað þess að skipa alla stj. af nýju og fækka stjórnarnefndarmönnunum. Það þýðir ekki að vera að reyna að breiða yfir það, að tilgangurinn með þessum bráðabirgðalögum var allt annar en sá, að fá stjórn verksmiðjanna fullskipaða. Tilgangurinn var sá, að koma burtu þeim mönnum, sem ekki sögðu sig úr stjórninni; það var höfuðatriðið. En þrátt fyrir það, að við sjálfstæðismenn ráðum litlu um löggjöfina hér á þingi, og að það er tiltölulega fámennur hópur innan stjórnarflokkanna, sem getur ráðið og í flestum tilfellum ræður, hvað verður að lögum, þá finnst mér, að hæstv. ríkisstj. ætti að fara dálítið hægar í að traðka fyrir allra augum þeim formum, sem sett hafa verið og í heiðri höfð, eins og t. d., að það er þingið, sem gefur út lög fyrst og fremst. Það er í flestra minni, með þvílíkum hávaða hæstv. stj. kom til valda. Hún átti að koma með fullt fangið af hugsjónum og baráttumálum til þess að koma í framkvæmd. En svo datt golan úr henni heldur snögglega. Fyrir síðasta þing lagði stj. aðeins 8 frv., þar af fjárlög, fjáraukalög, 4 skattalög og 1 einokunarlög. Þetta stafaði af því, að sá þáttur, sem ríkisstj. á að eiga í löggjöfinni, var kominn úr höndum þessarar stj. og í hendur n., sem allir kannast við og nefnd er Rauðka. Hún er nú að vísu dáin, að því er sagt er, þótt ekki sé uppi endinn á kostnaðinum, því að ég ætla, að það kosti eitthvað, að halda við leiðinu, og aðstandendur hinnar látnu munu yfirleitt komnir á framfæri. En nú er kominn fram nýr þáttur í löggjafarstarfsemi hæstv. stj. Hér liggur fyrir framan mig bunki af frv., þar á meðal 21 stjfrv., en þar af eru 9 bráðabirgðalög, sem lögð eru fram til samþykktar. Þannig hefir þeirri stj., sem fyrir síðasta þing lagði aðeins 8 stjfrv., tekizt að unga út 9 bráðabirgðalögum á þeim stutta tíma, sem liðinn er frá síðasta þingi. Ég ætla ekki að efast um, að nauðsyn hafi borið til að gefa sum þeirra út. En ef hæstv. stj. er þeirrar skoðunar, að þetta sé sómasamlegt framferði í löggjafarstarfseminni, þá er ekkert við því að gera. Menn verða að þola það eins og aðrar afleiðingar þess, að sú tegund manna er komin í stjórnarsessinn, sem lítt er viðunandi.