01.04.1937
Sameinað þing: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (2539)

23. mál, uppbót á bræðslusíldarverði

*Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti! Við, sem flytjum till. til þál. á þskj. 23, um uppbót á bræðslusíldarverði, lítum svo á, að afkoma síldarverksmiðjanna sumarið 1936 hljóti að vera þannig, að þessi uppbót sé fyrir hendi, og teljum, að útvegsmenn eigi kröfu til, að hún sé greidd. Þegar um það var rætt síðastl. sumar, hvaða verð yrði á síld til bræðslu, voru ýmsar skoðanir uppi til að byrja með, og var í almæli, að til stæði, að greiddar yrðu 4–4,50 kr. fyrir málið. Um það bil var það vitað, að verksmiðjustjórnin, sú sem áður var, hefði selt talsvert mikið af síldarlýsi á £ 17–10–0 tonnið, og þótti líklegt, að hagur verksmiðjanna myndi leyfa hærra verð. Voru því framsettar f. h. útvegsmanna kröfur um það, að síldarbræðslur ríkisins borguðu síldina með 6 kr. málið.

Síðastl. sumar urðu um þetta allmikil blaðaskrif, sem málsvarar útvegsmanna og aftur á móti stjórnar síldarverksmiðjanna tóku þátt í, en þessu máli lyktaði svo, að stjórn verksmiðjanna gerði till. um það til ríkisstj., að greiddar yrðu 5,30 kr. út á málið; þó var stj. verksmiðjanna ekki algerlega sammála um þetta atriði, því að einn stjórnandinn, Þórarinn Egilson í Hafnarfirði, gerði aðra till., sem sé þá, að greiddar yrðu 6 kr. á mál fyrir fyrstu 180 þús. málin, sem verksmiðjurnar tækju á móti, en eftir það lægra verð hlutfallslega, ef söluverð verksmiðjanna á síldarlýsi færi niður úr £ 17–10–0 pr. tonn og á síldarmjöli niður úr £ 8–5–0 pr. tonn. Þessi maður, sem er þriðji maðurinn í stjórn síldarverksmiðjanna, virðist hafa litið svo á, að ef verðið yrði ekki lægra á því, sem óselt var, en á því, sem fyrirfram var selt, þá myndu verksmiðjurnar geta greitt þessar 6 kr. fyrir málið. Meiri hl. lagði aftur á móti til, eins og ég áður tók fram, að greiddar yrðu 5,30 kr., og það var verðið, sem ákveðið var. — Grg. hv. meiri hl. síldarverksmiðjustjórnarinnar er prentuð í Alþýðublaðinu 4. júní síðastl., og sest á þeirri grg., hvaða ástæður meiri hl. stjórnarinnar færir fyrir þessum till. sínum.

Meiri hl. stj. lítur í stuttu máli svo á, að óvíst sé, að salan á því, sem óselt var, yrði eins há eins og á því, sem selt hafði verið fyrirfram, og gerði sína áætlun þess vegna út frá tiltölulega lágu verði. Fyrirfram var búið að selja 2900 tonn af lýsi, skv. frásögn meiri hl. stj., fyrir £ 17–10–0 tonnið; en það verð, sem meiri hl. stj. lagði til grundvallar með 5,30 kr. pr. mál, var £ 15–0–0 tonnið; hærra vildu þeir ekki áætla, að lýsið seldist. Nú hefir það komið fram, að verðið hefir orðið miklu hærra á lýsinu, og a. m. k. ekki lægra á mjölinu, en meiri hl. stj. áætlaði. Ennfremur hefir það komið fram, að fitumagn síldarinnar hefir reynzt mun meira en meiri hl. verksmiðjustj. gerði ráð fyrir, og er þess vegna eðlilegt, að reist sé krafa um uppbót á hinu ákveðna verði (5,30 kr.). — Eins og kunnugt og eðlilegt er, liggja ekki fyrir reikningar yfir afkomu síldarverksmiðjanna síðastl. sumar, en þó er hægt að gera sér nokkuð glögga hugmynd um það, hvernig afkoman hafi orðið, miðað við áætlun meiri hl. verksmiðjustj., þegar litið er á það verð, sem almennt fékkst fyrir þessar afurðir, og þegar það er vitað, hvað framleitt hefir verið. Ég skal þá fyrst snúa mér að því magni, sem hér er um að ræða.

Meiri hl. verksmiðjustj. hafði áætlað, að verksmiðjurnar fengju til vinnslu 355 þús. mál af síld, og hann hafði ennfremur áætlað, að úr síldinni fengjust 14,75% af lýsi, eða sem svarar 19,91 kg. úr málinu, og 15,33% af mjöli, eða 20,70 kg. úr málinu. Verksmiðjurnar fengu ekki fyllilega þá síld til vinnslu, sem meiri hl. stj. hafði gert ráð fyrir, því að þær munu hafa fengið alls rúml. 328 þús. mál. Á Siglufirði mun hafa verið unnið úr 272330 málum og á Raufarhöfn úr 55690 málum eða þar um. Verksmiðjustj. sjálf hefir gefið upp, að framleitt lýsismagn væri rúml. 6948,2 smálestir. Hvað þá áætlun snertir, sem meiri hl. stj. lagði fram, að úr síldinni fengjust 14,73% af lýsi, hefir reynslan sýnt, að úr henni hafa fengizt 15,93%, eða 21,30 kg. pr. mál, á Siglufirði. Raufarhafnarverksmiðjan hefir gefið verri niðurstöðu, eða 14,56%, 19,66 kg. af lýsi pr. mál. Meðaltalið á báðum þessum stöðum virðist því vera 21,18 kg. á mál, en áætlað var 19,91 kg. Niðurstaðan er því sú, að úr hverju máli síldar hefir fengizt um 1,27 kg. meira af lýsi en verksmiðjustjórnin áætlaði. Verksmiðjurnar fá því rúml. 400 smálestum enskum meira af lýsi úr síldinni en verksmiðjustj. hafði gert ráð fyrir. Þetta lýsi, sem virðist vera 410 smálestir, má áætla eftir því söluverði, sem var á lýsi yfir höfuð, a. m. k. 133 þús. kr. virði. Hvað mjölframleiðsluna snertir, þá varð hún 6819,6 smálestir. Meiri hl. verksmiðjustj. hafði áætlað, að 13,33% af mjöli fengjust úr hverju máli, eða 20,70 kg., en meðalútkoman mun hafa numið sem næst 20,79 kg. úr málinu. Það er að vísu litlu meira en verksmiðjustj. hafði áætlað, en þó er ekki óvarlegt að áætla, að þessi aukning nemi um 5 þús. kr.

Ég vil taka það fram í þessu sambandi, að þessar tölur, sem sýna, að síldarlýsismagnið hefir orðið töluvert meira en verksmiðjustj. áætlaði, eru þó miklu lægri, jafnvel á Siglufirði, þar sem náðust 15,93%, heldur en hjá verksmiðjum einstakra manna. Mér er kunnugt um það, að sumar af þeim verksmiðjum, sem reknar voru af einstaklingum, hafa skilað 17,5% af síldarlýsi, og það gerir náttúrlega geysimun á útkomunni, hvað vélarnar ná miklu lýsi úr síldinni.

Eins og ég lýsti áður, hafði meiri hl. verksmiðjustj. haldið því fram, að ekki væri varlegt að áætla sölu á því lýsi, sem ekki var selt fyrirfram, á meira en £ 15–0–0 tonnið, en sem betur fór, varð verðið á lýsinu mun hærra en verksmiðjustj. hafði áætlað. Gamla verksmiðjustj. hafði selt fyrirfram 2900 tonn á £ 17–10–0, eins og áður segir. Það, sem framleitt var umfram þetta lýsismagn, hefir verið kringum 4000 tonn. Verksmiðjustj. hefir upplýst það eftir beiðni, að meðalverð á tanklýsi, miðað við 3% feitisýru, hafi verið £ 16–18–3. Að undanskildri þeirri fyrirframsölu, sem áður getur um, mun tanklýsið hafa selzt á £ 16–16–15 pr. tonn; það mun því vera óhætt að áætla, að þetta lýsi hafi selzt að meðaltali fyrir £ 16–17–0 tonnið. Eftir því, sem verksmiðjustj. hefir upplýst, seldist lýsi á fótum, miðað við 3% feitisýru, þannig að nokkuð af því, en örlítið þó, seldist á £ 17–15–0, en mestur hlutinn á £ 18–0–0, eða jafnvel £ 18–15–0 tonnið. Það mun ekki of í lagt, að telja meðalverðið á þessu lýsi £ 17–10–0 tonnið, og er þá fullt tillit tekið til frádráttar vegna feitsíldarákvæðanna. Það virðist því ekki óvarlega reiknað, þó að verðmæti þess hluta lýsisins, sem ekki var seldur fyrirfram, 4 þús. tonn, hafi orðið um 117 þús. kr. meira en verksmiðjustj. áætlaði. — Um verð á mjöli er það að segja, að verksmiðjustj. áætlaði það á þeim hlutanum, sem ekki var seldur fyrirfram, £ 8–0–0 tonnið cif. á erlendri höfn og 160 kr. á innlendum markaði. verð á síldarmjöli fór hækkandi, eftir að síldarverksmiðjustj. gerði þessa áætlun, einkanlega þegar leið á sumarið, og sökum sérstakrar eftirspurnar frá Ameríku á mjölinu, hefir það orðið verulegum mun betra en ella. Verð síldarmjöls hækkaði upp í rúml. £ 9–0–0 tonnið miðað við cif. Um eitt skeið vissi ég til þess, að Englendingar voru kaupendur á mjöli fyrir verð, sem var nokkuð yfir £ 9–0–0. Af þessu hlýtur verðið á því síldarmjöli, sem ríkisverksmiðjurnar fluttu út, að hafa verið a. m. k. £ 8–10–0 tonnið á þá hluta, sem óseldir voru fyrirfram, og meðalverð innanlands ekki lægra en 185 kr. tonnið, eða 13,50 kr. sekkurinn. Hér er þó tekið tillit til þess, hvað snertir það mjöl, sem selt var innanlands, að eitthvað hafi orðið nr. 2 eða lakari vara, sem kallað er, því að það er vitað a. m. k. um tilfelli, að bændum hafi verið selt mjölið fyrir 19 kr., eða jafnvel 19,50 sekkurinn (100 kg.). Fyrirframsalan var £ 8–5–0 fyrir tonnið, og voru það þús. tonn, sem seld voru fyrirfram. Af því mjöli, sem verksmiðjurnar framleiddu, voru 5819 smálestir óseldar fyrirfram, og af því seldust þús. tonn innanlands. Það virðist þess vegna vera óhætt að gera ráð fyrir, að verðmæti þess hluta síldarmjölsins, sem seldur var á erlendum markaði, hafi farið 74 þús. kr. fram úr áætlun verksmiðjustjórnarinnar, og a. m. k. 25 þús. kr. á því, sem selt var innanlands, eða samtals hafa hafzt 99 þús. kr. upp úr mjölinu umfram það, sem gert var ráð fyrir.

Ég tók það fram í upphafi, að þessar tölur eru ekki byggðar á framlögðum reikningum verksmiðjustj., og það getur munað einhverju á þeim til eða frá, en þó ekki neinu, sem nemur, ef gert er ráð fyrir, að verksmiðjustj. sæti svipuðu verði og aðrir við sölu á sínum afurðum. Niðurstaðan verður því sú, að umfram áætlun meiri hl. verksmiðjustj. hefir fengizt aukið lýsismagn að verðmæti um 153 þús. kr., aukið mjölmagn um 5 þús. kr., hærra verð á lýsi 117 þús kr og hærra verð á mjöli 99 þús. kr., en þetta til samans gerir 374 þús. kr.

Nú hefir verksmiðjustj. áætlað og birt þá áætlun sína, að með því magni, sem hún gerir ráð fyrir, að sé unnið, og með þeirri sölu, sem hún gerir ráð fyrir, að yrði á afurðum, og miðað við það, að hún borgi 5,30 kr. á mál, og ennfremur það tekið til greina, að öll lögboðin gjöld séu greidd, myndi hagnaðurinn verða 60782 kr. Ég hefi nú leitt nokkur rök að því, að umfram þessa áætlun verksmiðjustj. hefir fengizt verðmæti, sem ég tel, að muni nema 374 þús. kr. Og sé þar við bætt þeim hagnaði, sem verksmiðjustj. sjálf gerði ráð fyrir, að yrði, þá er hér um að ræða upphæð, sem er 4.35 þús. kr., eða sem svarar 1,33 kr. á hvert síldarmál. Hér verður þó að sjálfsögðu að taka tillit til aukins kostnaðar, sem hefir orðið hjá ríkisverksmiðjunum vegna aukins afurðamagns, aukins útflutningsgjalds, vátryggingargjalds o. fl. Og sennilega hefir komið fram aukinn kostnaður, bæði af því, að vörumagn lýsisins og mjölsins var meira en áætlað var, og svo af öðrum ástæðum, auk kostnaðar fram yfir það, sem verksmiðjustj. hafði áætlað, þannig að það er alls ekki mín skoðun, að þessar 435 þús. kr. hefðu átt að geta verið afgangs. En hinu held ég fram og við, sem stöndum að þessari þál., að eftir því, sem hér hefir verið upplýst um aukið magn lýsis og mjöls, og eftir þeirri verðhækkun, sem hefir orðið, sérstaklega á lýsi, eftir að verksmiðjustj. hafði gert sínar ákvarðanir, þá sé eflaust mögulegt fyrir verksmiðjustj. að greiða til uppbótar þessa 70 au. á mál, sem farið er fram á samkv. þál., þannig að endanlegt verð á síldarmáli verði 6 kr. Til þess að greiða 6 kr. fyrir mál, þarf ekki nema um 230 þús., en hér hefir verið sýnt fram á, að sala afurðanna og aukið magn nemur a. m. k. um 370 þús., þótt ekki væri tekið tillit til þess hagnaðar, sem verksmiðjustj. sjálf gerði ráð fyrir. En þegar tillit er tekið til hans, verður upphæðin, eins og ég sagði áðan, 435 þús. eða þar um bil. Það virðist því hafa gengið það vel reksturinn, hvað söluna snertir og hagnaðurinn hafa farið það mikið fram yfir vonir meiri hl. verksmiðjustj., að það lítur svo út, að sá maðurinn í stj. (Þór Egilson), sem lagði til í upphafi, að greiða skyldi 6 kr. á mál fyrir fyrstu 180 þús. málin, og ætlaðist til, að sama verð yrði greitt, ef verðið lækkaði ekki frá því, sem það var við fyrirframsöluna, hafi haft rétt fyrir sér og reynzt sannspár.

Ég skal nú ekki segja, hvað mikið þyrfti að lækka þessa upphæð nákvæmlega, sem ég talaði um, ef frá henni væri dreginn allur kostnaður, bæði hinn aukni kostnaður vegna aukins magns, og svo afborganir og sjóðagjöld, en ég tel óhikað mega fullyrða, að þegar tillit er tekið til alls þessa, sé hagnaðurinn ekki minni en 260 þús. kr. Verksmiðjustj. hefði því getað greitt þessar 6 kr. fyrir síldarmálið, og vona ég, að flestir af hv. alþm. séu ásáttir um að bæta útvegsmönnum upp verðið, svo að það nái 6 kr., því að það er öllum almenningi kunnugt, að verðið varð miklu hærra en verksmiðjustj. gerði ráð fyrir.

Ég hefi leitazt við að sýna fram á, hvaða afleiðingar það hefir haft fyrir verksmiðjurnar, að þessar 5,30 kr. á mál voru byggðar á lægra síldarmagni en fékkst og líka á lægra verði á afurðunum en þær seldust fyrir. Og þegar það kom í ljós, að það hafði rætzt betur úr þessu en á horfðist, þá virðist mér, að útgerðarmenn og sjómenn eigi heimtingu á að fá þetta verð leiðrétt, því að það hefir víst upphaflega verið tilgangurinn með stofnun síldarverksmiðja ríkisins, að leitast við að greiða eins mikið og unnt væri út á síldina til sjómanna og bátaeigenda.

Hér er ekki um það að ræða, að þessi till. geti komið til athugunar í sjútvn., vegna þess að hún er borin fram í Sþ. Er því ekki um aðra n. að ræða en fjvn., og vil ég biðja hæstv. forseta að leita vilja þingsins um það, að vísa þessari till. til fjvn. að lokinni umr.

Ég læt svo hér staðar numið í bili, þar til ég heyri undirtektir þeirra manna, sem standa fyrir rekstri ríkisverksmiðjanna, undir þessa sanngjörnu kröfu fyrir hönd sjómanna og útvegsmanna.