01.04.1937
Sameinað þing: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í D-deild Alþingistíðinda. (2542)

23. mál, uppbót á bræðslusíldarverði

*Finnur Jónsson:

Hv. þm. Vestm. hefir farið með allmikið af tölum um þetta mál, sem hann að nokkru leyti hefir fengið hjá mér í bréfi, dags. 4. marz, en þáltill., sem hér er til umræðu, mun hafa verið lögð fram í byrjun þingsins, eða um 15. febr., þannig að sá rökstuðningur, sem till. byggir á, er kominn í hendur hv. flm. nærri þrem vikum eftir að þeir báru till. fram. Það virðist því svo sem þeir hafi í rauninni ekki þurft þennan rökstuðning hv. þm. vestm. til þess að komast að þeirri niðurstöðu, að nóg fé væri fyrir hendi hjá síldarverksmiðjum ríkisins til þess að greiða þessa uppbót. Hv. þm. vestm. hefir unnið allmikið úr þessum tölum, sem hann fékk hjá mér, og raunar í gegnum annan hv. þm., sem sé hv. þm. V.-Húnv., og þær niðurstöður, sem hann hefir komizt að, eru það margbrotnar, að ég sé ekki ástæðu eða tækifæri til að fara út í þær að svo komnu, en mér skildist, að hans aðalályktun væri sú, að nettótekjuafgangur ríkisverksmiðjanna mundi vera sem næst um 260 þús. kr. Nú eru reikningar verksmiðjanna ekki fyrir hendi, eins og hæstv. útvmrh. tók fram, en eftir þeim bráðabirgðatölum, sem ríkisverksmiðjustjórnin hefir fengið, lítur út fyrir, að nettótekjuafgangur verksmiðjanna muni verða um 200 þús. kr., ef gert er ráð fyrir, að það karfalýsi, sem verksmiðjurnar eiga að fá og talað er um, að muni kosta 130000 kr., selst fyrir það verð.

Út af því, sem talað hefir verið um, að miklu meira hafi fengizt af lýsi og örlítið meira af mjöli heldur en verksmiðjustjórnin hafði áætlað, vil ég geta þess, að það er ákaflega miklum erfiðleikum bundið að gera rétta áætlun í því efni, sérstaklega hvað snertir lýsismagnið. Frá því fyrst, er verksmiðjurnar tóku til starfa, hefir lýsismagnið verið mjög mismunandi. Árin 1930 og 1931 var lýsismagnið 14,5% og 14,9% úr máli. En árin 1932 og 1933 var síldin aftur á móti miklu magrari, þannig, að ekki fengust úr hverju máli nema 13,2%, 13,3% og 13,5%. Árin 1934–'36 fer þetta svo aftur hækkandi, þannig að árið 1934 fást 14,6%, 1935 15,55% og 1936 13,73 % á Siglufirði, eins og hv. þm. Vestm. hefir tekið fram, og 15,56% á Raufarhöfn. En það, hvað misjafnt fæst af lýsi úr síldinni á hinum einstöku árum, getur stafað af tvennu; fyrst og fremst því, hvað síldin er misfeit, og í öðru lagi því, hvort vinnslan gengur vel eða illa. Nú má segja það, að með bættri aðstöðu verksmiðjanna til vinnslu sé tryggt meira lýsismagn úr hverju máli heldur en áður. En ekki gerir þetta nærri því að jafna upp þann mikla mismun, sem er á fitumagni síldarinnar sjálfrar á hinum einstöku árum. Ennfremur má geta þess, að síldin er misfeit eftir því, hvar hún veiðist. T. d. munar venjulega um 2% á fitumagni þeirrar síldar, sem veiðist við Langanes, og þeirrar síldar, sem veiðist á Húnaflóa eða fyrir vestan Eyjafjörð yfirleitt. Frá því eru vitanlega undantekningar, þótt hitt sé nær algild regla. Þær verksmiðjur, sem fá meginafla sinnar síldar af vestursíld, standa því allmiklu betur að vígi heldur en þær, sem fá austursíld til vinnslu. Þessi munur á fitumagni síldarinnar nemur svo mikilli upphæð, að ég geri ekki ráð fyrir, að hv. þm. hafi almennt gert sér það ljóst. Munurinn á lýsismagni síldarinnar á árunum 1932–'33 og 1935–'36 nam a. m. k. kr. 1,10 á hverju síldarmáli, miðað við verð það, sem var á síldarlýsinu árið sem leið. Þegar þess vegna verksmiðjustjórnin er að gera áætlanir sínar, verður hún að taka meðaltal þeirra ára, sem verksmiðjurnar hafa starfað, eða sem næst því. Ef verksmiðjustj. ekki gerir það, þá eru hennar áætlanir óvarlegar, og hvað miklu getur munað að fjárhæðum fyrir verksmiðjurnar eftir því, hvaða tölur eru teknar til áætlunar, má sjá af því, að ef áætlað hefði verið árið sem leið með minnsta lýsismagni, og við skulum segja, að lýsismagnið úr síldinni hefði ekki orðið meira en það var 1932, þá hefði það munað verksmiðjurnar um 350 þús. kr., eða rúmri krónu á hvert mál. Með því hinsvegar að taka meðaltal á lýsismagni verksmiðjanna á árunum 1930–1935, sem er 14,29 % úr hverju máli, og taka það lægsta, sem komið hefir, hefði munað 183 þús. kr. á þeirri síld, sem verksmiðjurnar fengu nú í sumar. Þar sem hér er um mikið fjárhagsatriði að ræða, verður verksmiðjustjórnin að gæta mestu varhygðar í sínum áætlunum. Við samningu áætlana sinna í vor tók verksmiðjustjórnin það meðaltal, sem hún áleit sennilegast af lýsinu, og þó að það hafi komið nokkuð betra út heldur en verksmiðjustjórnin gerði ráð fyrir, þá gat það alveg eins komið fyrir, að útkoman hefði orðið verri. Og í svona stórum rekstri, sem síldarverksmiðjurnar eru, er ekki annað fyrir hendi við samningu áætlananna heldur en að taka þær tölur, sem stjórnin álítur líklegastar. Það má hvorki taka hæstu né lægstu tölurnar, heldur meðaltal af reynslu allmargra ára í senn.

Hv. þm. vestm. sagði, að það hefði verið almæli, að ætlun verksmiðjustjórnar og ríkisstjórnar hefði verið að greiða fyrir hvert mál síldar 4,50 kr., en svo hefði hann og hv. þm. G.-R., ásamt fleirum, sem kalla sig málsvara útgerðarmanna, komið til skjalanna og fengið þessa upphæð hækkaða allmikið með verkfallshótunum hv. þm. G.-K. Ég verð í þessu sambandi að árétta það, sem hæstv. atvmrh. sagði um þetta efni, að það er alveg tilhæfulaus uppspuni, að nokkurntíma hafi komið til mála innan verksmiðjustjórnarinnar að greiða 4–1,50 kr. fyrir málið. verksmiðjustjórnin settist á rökstólana með þau gögn, sem hún hafði fyrir sér, og hún komst að þeirri endanlegu niðurstöðu, að gagnvart ríkissjóði, útgerðarmönnum og sjómönnum væri það verð, sem upp var kveðið af henni, það rétta eftir öllum líkum að dæma, sem þá lágu fyrir. Allar sögusagnir um, að annað verð hefði komið til mála innan verksmiðjustjórnarinnar, eru alveg tilhæfulausar.

Hv. þm. Vestm. sagði, að síldarlýsisútkoman hefði verið lægri hjá síldarverksmiðjum ríkisins heldur en verksmiðjum einstakra manna. Um þetta atriði hygg ég, að hann geti í raun og veru ekki sagt neitt með fullri vissu, vegna þess að ég geri ekki ráð fyrir, að hann hafi með höndum neinar tölur, nema ef til vill frá verksmiðjunni við Húnaflóa, en síldin til þeirrar verksmiðju er ekki vigtuð, þannig að þau síldarmál, sem fara í þá verksmiðju, eru ekki sambærileg við þau, sem fara í verksmiðjurnar á Siglufirði. Mæling síldarinnar í verksmiðjunni við Húnaflóa er þannig, að þótt ekki séu notuð Hesteyrarmál, þá hygg ég þó, að mál þeirrar verksmiðju séu sambærilegri þeim góðu gömlu Hesteyrarmálum heldur en þeim, sem útgerðarmenn og sjómenn fá á Siglufirði. Ennfremur má ætla, vegna þess, sem ég tók fram áðan, að vestursíldin er yfirleitt feitari, og verksmiðjan við Húnaflóa fær hlutfallslega meira af vestursíld heldur en verksmiðjurnar á Siglufirði, að lýsisútkoman sé eðlilega betri þar en á Siglufirði.

Hv. þm. Vestm. sagði, að áætlun sú, sem verksmiðjustjórnin hefði gert, hefði verið byggð á lægra verði afurðanna heldur en fékkst. Þetta er rétt. En áætlunin var byggð á þeim tölum, sem verksmiðjustjórnin gat talið sennilegastar á þeim tíma, sem áætlunin var gerð, bæði með hag útgerðarmanna og sjómanna fyrir augum og eins ríkisverksmiðjanna sjálfra. En ég verð að telja það skyldu verksmiðjustjórnarinnar, hver svo sem hún er, að reyna að gæta þess, að áætla verðið sem líkast því, sem verksmiðjurnar geta borgað á hverjum tíma. Það tel ég skyldu verksmiðjustjórnarinnar bæði gagnvart ríkinu, sem hefir lagt í þessi stóru fyrirtæki, og eins gagnvart útgerðarmönnum og sjómönnum. Því að það er ekki svo, að útgerðarmenn og sjómenn hafi til lengdar gagn af verði, sem ár eftir ár yrði ákveðið svo beitt, að tap yrði á rekstri verksmiðjanna. Þá myndi fara eins og fyrstu árin, sem ríkisverksmiðjurnar störfuðu, að sjálfstæðismenn kæmu og segðu: Sjáið þetta ríkisfyrirtæki, hvað það gengur bölvanlega; það tapar á hverju einasta ári og er baggi á ríkissjóði. — Mér er fyrir minni í fyrsta skipti, sem ég var í kjöri, á móti einum sjálfstæðismanni, sem ennþá á sæti hér á Alþ., að þegar um var að ræða skipulagning atvinnumála, þá kom þessi frambjóðandi með síldarverksmiðjurnar og benti á, að þær hefðu tapað allmiklu fé fyrstu árin, sem þær störfuðu. Og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að afstaða Sjálfstfl. er ekki ennþá það breytt til ríkisfyrirtækjanna, að ef ríkisverksmiðjurnar töpuðu stórfé ár eftir ár. Þá myndi sá flokkur rísa upp og benda á þær til varnaðar gegn hverskonar ríkisrekstri hér á landi.

Fyrst farið er að tala um kröfur, sem gerðar voru til ríkisverksmiðjanna árið sem leið, þá er vert að geta þess, að hv. þm. G.-K. lét ekki staðar numið við það, að segja, að verksmiðjurnar gætu borgað 6 kr. fyrir málið, heldur var hann farinn að tala um 8 kr. Hann óð úr einni tölunni í aðra í sínum skrifum um þetta mál og virtist ekki geta komið sér niður á neitt ákveðið. Ég hefi ekki Morgunblaðið við höndina, en ég veit, að hv. þm. G.-K. leyfir sér ekki að neita því, að hann taldi, að jafnvel væri hægt að greiða allt að 8 kr. fyrir síldarmálið árið sem leið. En það, hvort greitt hefði verið 6 eða 8 kr. árið sem leið fyrir síldarmálið, hefði munað ríkisverksmiðjurnar 650 þús. kr. Og þótt ef til vill sé ekki hægt að krefjast mikillar ábyrgðar af þessum hv. þm., þá hefði þó mátt krefjast þess, að hann léti þær tölur, sem hann fór með, veita á einhverju minna heldur en 650 þús. kr. — Ég gat þess áðan, að það hlyti að vera skylda verksmiðjustjórnarinnar í hvert skipti að reyna að sjá hag verksmiðjanna borgið. Árið 1935 hafði síldarverksmiðjunum vegnað illa. Á því ári höfðu verksmiðjurnar tapað um 200 þús. kr. Þegar núverandi verksmiðjustjórn tók við, hafði verið afskrifaður allur varasjóður verksmiðjanna og yfirfært tap til næsta árs, án þess að varasjóðsgjald hefði verið reiknað af síldinni, sem tekin hafði verið til vinnslu á árinu 1933, og í stað þess að eiga peninga í sjóði, eins og á undanförnum árum, þá var í ársbyrjun 1936 óskilavíxill hjá Landsbanka Íslands, sem ekki hafði verið greiddur af rekstrarfé ársins 1935, upp á 300 þús. kr. Ef haldið hefði verið áfram á sömu braut, eða ef síldveiðarnar hefðu brugðizt, þá hefði þessi óskilavíxill getað tvöfaldazt hjá Landsbankanum, og þó það kunni að haldast uppi einstökum prívatfyrirtækjum, eins og h/f Kveldúlfi, að eiga óskilavíxla hjá Landsbankanum ár ettir ár. án þess að borga vexti, þá helzt síldarverksmiðjum ríkisins það ekki uppi. (SK: Hvernig var það með síldareinkasöluna?). Hún var tekin til gjaldþrotaskipta á óheppilegum tíma, og má þar enn nefna þann mismun, sem gerður er á ríkisfyrirtækjum og fyrirtækjum einstakra manna, og ef legið hefðu fyrir hendi líkar ástæður, þegar síldareinkasalan var gerð upp, eins og nú á dögunum með Kveldúlf, þá skyldum við hafa séð, hve lengi hún hefði lifað. — Þó að sjálfstæðismenn telji, að það sé að gæta hagsmuna útgerðarmanna, að ákveða síldarverðið ógætilega hátt, þá álít ég það þveröfuga, þannig að það sé að tefla hagsmunum þeirra í voða. Og segi ég þetta sem framkvæmdastjóri fyrir því fyrirtæki, sem hefir verið stærsti viðskiptamaður ríkisverksmiðjanna í mörg ár, og ég vil segja það um leið, að einmitt það, að ríkisverksmiðjurnar störfuðu, hefir gert því fyrirtæki, ásamt mörgum öðrum fyrirtækjum, mögulegt að starfa lengur en það hefði annars gert. Það er ekki á hverjum degi, sem sjálfstæðismenn sýna Samvinnufélagi Ísfirðinga þá velvild, að vilja rétta því um 20 þús. kr., og ég verð að segja það, að ef ég liti aðeins á stundarhagnað félagsins, þá hefði ég ekki ráð á að neita slíkum höfðingsskap. En þegar ég lít á það, að með þessari till. er verið að kippa fótunum undan þeim stærsta og merkasta ríkisrekstri hér á landi, þá verð ég að neita þessu höfðinglega boði sjálfstæðismanna. — Það er vitanlega hægt um vik að segja, um leið og verið er að gera þessa till., að Sjálfstfl. sé reiðubúinn til að auka síldarverksmiðjurnar í landinu, hvort heldur eru verksmiðjur einstakra manna eða ríkisins. En það er a. m. k. áreiðanlegt, að síldarverksmiðjur ríkisins verða ekki auknar á þann hátt, að þeim verksmiðjum, sem fyrir eru, verði ekki séð sæmilega fjárhagslega farborða. Núverandi verksmiðjustjórn hefir gert mjög ýtarlegar till. til hæstv. ríkisstj. um umbætur á síldarverksmiðjum ríkisins, sem eiga að miða að því, að meira lýsis og mjölmagn fáist úr hverju máli og ennfremur að auka afköst verksmiðjanna, en á það veit ég, að útgerðarmenn og sjómenn leggja mesta áherzlu. Þá hafa að vonum verið kröfur uppi um það, að bætt yrði aðstaða til löndunar og að þróarpláss yrði aukið á Siglufirði. Núverandi verksmiðjustjórn hafði lagt til, að byggð yrði þró á Siglufirði, sem tæki allt að 30–35 þús. mál, en því miður hefir hún ekki getað fengið fé til þessara framkæmda. En hinsvegar er verksmiðjustjórnin nú búin að gera ráðstafanir til, að byggð verði í sumar 15–16 þús. mála þró við verksmiðjurnar á Siglufirði, þró, sem jafnframt myndi bæta löndunaraðstöðu sjómanna með vissum uppskipunartækjum, sem yrðu sett í samband við hana. Ef till. sjálfstæðismanna næðu fram að ganga, þá myndi sá rekstrarafgangur, sem verksmiðjurnar höfðu á síðastl. ári, allur fara til uppbótar, en þær framkvæmdir, sem stjórnin hafði hugsað sér að gera, mundu stöðvast. Fyrir mitt leyti get ég því sagt það sem framkvæmdastjóri stærsta viðskiptaaðilja verksmiðjanna, að ég tel heppilegra að verja tekjuafganginum til þess að bæta aðstöðu við löndunina heldur en greiða hann út eins og hv. tillögumenn vilja.

Um starf verksmiðjanna vil ég segja það, að ég tel ekki hægt að gera kröfu til, að þær starfi á annan hátt en annað tveggja, að taka síldina til sölu og bæta hana upp, ef hið útborgaða verð reynist of lágt, og innheimta þá jafnframt halla, ef hann verður, eða kaupa síldina föstu verði, og það verður jafnan hið heppilegasta. Það kann að vera, að slá megi ryki upp í augu einstakra manna og telja þeim trú um eitt og annað í þessu máli, en hitt er vist, að allur meginþorri sjómanna skilur, að það er höfuðnauðsyn fyrir þá og síldarútveginn í heild, að verksmiðjurnar verði haldnar svo, að þær geti verið áfram sá hyrningarsteinn undir síldarútveginum, sem þær hafa verið undanfarin ár.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég benda á, að útgerðarmenn eru að öllu leyti búnir að gera upp við sjómenn fyrir síðustu síldarvertíð, og jafnframt hitt, að till. sú, sem hér liggur fyrir, fer aðeins fram á það, að útgerðarmenn fái uppbót, en skyldar þá ekkert til þess að greiða sjómönnunum neitt. Hér er því aðeins um það eitt að ræða, að greiða útgerðarmönnum 70 aura á hvert mál síldar, sem þeir seldu verksmiðjunum, en sjómönnunum ekkert. Ég mun að sjálfsögðu greiða atkv. á móti till. þessari, en fari svo, að hún komi til 2. umr., þá mun ég bera fram brtt. við hana um það, að skylda útgerðarmennina til þess að greiða sjómönnunum sinn hluta. Mun ég gera þetta til öryggis, ef Alþingi skyldi fallast á þær ógætilegu kröfur, sem í till. felast. Það má vel vera, að hv. þm. G.-K. hafi álitið bræðslusíldina eins mikils virði og hann vildi vera láta í skrifum sínum í Morgunblaðinu síðastl. vor, svo að hægt væri að borga allt að 8 kr. fyrir málið. En í því sambandi væri gaman að fá upplýst, með hvaða verði hann hafi greitt þá síld, er þeir sjómenn hans áttu, sem tóku kaup sitt eftir afla. Ég gæti trúað, að það hefði verið undir 8 kr., og jafnvel undir 6 kr. — Hvað snertir afstöðu þeirra flokksmanna þessa hv. þm., sem áttu síldarverksmiðjur við Eyjafjörð, til kröfu hans um bræðslusíldarverðið síðastl. vor, þá er það víst, að þeir voru ekki sammála honum um kröfurnar. Þeir sögðu þvert á móti, að ef ríkisverksmiðjurnar keyptu síldina með því verði, sem hann krafðist, þá treystu þeir sér ekki til þess að starfrækja verksmiðjurnar. Afleiðingin hefði því orðið sú, ef hinar ábyrgðarlausu kröfur hans hefðu náð fram að ganga, að fjölmargir sjómenn og verkamenn hefðu verið sviptir atvinnu. Það vildi nú svo til síðastl. sumar, að ég hafði tækifæri til að athuga, hvor þessara tveggja aðilja, hv. þm. G.-K. eða flokksmenn hans við Eyjafjörð, hefði á réttara að standa eða færi með réttara mál þessu efni, en ég verð að hryggja hv. þm. G.-K. með því að segja honum það, að þar höfðu flokksmenn hans að miklum mun á réttara að standa. Krafa hans í vor hefði því ekki aðeins getað stofnað fjárhag síldarverksmiðjanna í voða, heldur hefði hún líka skaðað fjölda einstaklinga.