24.02.1937
Neðri deild: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Ólafur Thors:

Ég vildi þakka hæstv. forsrh. fyrir svar hans. Sé það vilji Framsfl., að aðalflokkar þingsins fari með stjórn verksmiðjanna, þá vænti ég þess, að hæstv. forsrh. sé svo mikill manndómsmaður, að hann þegar til kastanna kemur fari eftir vilja sjálfs sín og flokks síns. en ekki eftir duttlungum annara. Mun ég því beita mér fyrir því, að sjálfstæðismenn í sjútvn. leiti samvinnu við meðnm. sína úr Framsfl. um að fella frv. þetta, eða endurbæta það svo, að við það verði unandi. Geri ég þetta í trausti þess, að hæstv. ráðh. hafi í svari sínu ekki aðeins átt við vilja flokksþingsins í þessu máli, heldur og einnig vilja þingflokksins.

Ræðu hæstv. atvmrh. læt ég liggja á milli hluta að öðru leyti en því, að ég vil minna hann á, að það, sem lá fyrir 12. maí og hann telur tilefni bráðabirgðalaganna, var honum kunnugt um, áður en þingi sleit. Bar honum því að leita til þingsins með málið, og hefði hann gert það, hefði hann enga vanvirðu af því hlotið.