01.03.1937
Sameinað þing: 4. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í D-deild Alþingistíðinda. (2554)

33. mál, raforkuveita fyrir Vestmannaeyjar

*Flm. (Páll Þorbjörnsson):

Það mun nú standa yfir rannsókn á raforkuveitu fyrir Suðurlandsundirlendið. Það þykir því ekki ósanngjarnt að fara fram á, að svipuð rannsókn verði látin fara fram á því, hvort Vestmannaeyjar geti ekki einnig orðið aðnjótandi þess að fá rafmagn frá Sogsvirkjuninni. Af þeirri ástæðu hefi ég leyft mér að bera fram þá till. til þál., sem nú liggur hér fyrir til fyrri umr. Til viðbótar er farið fram á það í till. þessari, að það séu athugaðir möguleikar fyrir því að reisa vindaflstöð í Vestmannaeyjum til framleiðslu rafmagns. Hugmynd um slíku stöð hefir áður komið fram, og þykir ástæða til, að það sé athugað nokkuð nánar. Eftir því, sem ég hefi fengið upplýsingar um hjá Rafmagnseftirliti ríkisins, þá mun með nokkurri nákvæmni vera hægt að gera sér hugmynd um kostnaðinn við að leggja línu til Vestmannaeyja. Mér er sagt, að vegalengdin frá Ölfusárbrú, þaðan sem línan mundi verða tekin, og austur að sundinu muni vera 64 km., en að línan yfir sundið út í eyjar muni vera 16 km. Kostnaðurinn við að leggja þessa línu er lauslega áætlaður þannig, að loftlínan muni kosta um 330000 kr., sælínan um 260000 kr. og innanbæjarkerfið um l30000 kr. Eftir upplýsingum frá sömu aðiljum virðist svo, að ef það sé á annað borð framkvæmanlegt að veita rafstraum frá Soginu t. d. til þorpanna Eyrarbakka og Stokkseyrar, þá sé mjög framkvæmanlegt að koma því til Vestmannaeyja. Og það gefur að skilja, að þar muni vera talsvert mikill áhugi fyrir að fá ódýrari orku heldur en nú er hægt að fá. Rafmagnið er þar nú framleitt með mótorum, og hefir reynslan orðið þar eins og alstaðar annarsstaðar, að þessa orku verður að selja svo dýru verði, að hún þykir tæpast notfær nema út úr neyð. Breyttir atvinnuhættir þjóðarinnar gera það hinsvegar nauðsynlegt, að hægt sé að fá ódýrara rafmagn til ýmiskonar iðju. Það er þess vegna, að ég tel nauðsyn, að rannsakað verði, hverjir möguleikar eru á því að veita orku frá Soginu til Vestmannaeyja.