01.03.1937
Sameinað þing: 4. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í D-deild Alþingistíðinda. (2563)

40. mál, síldarverksmiðjan á Norðfirði

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af því, sem hv. 6. landsk. sagði, að þörf væri á að styrkja fyrirtæki eins og þetta, vil ég segja það, að ég vil náttúrlega ekki neita því. En ég vil beina því til hv. fjvn., að ef lagt er út á þá braut, að styrkja með verulegu stofnkostnaðarframlagi eitt fyrirtæki af þessu tægi, hvort þá sé hægt að standa við að hafa slíkt fyrir almenna reglu í framtíðinni, því að það hefir verið almenn regla, að mjólkurbú og frystihús hafa verið styrkt á þann hátt. Ef á að byrja á því, að styrkja eitt fyrirtæki á þennan hátt, slíkt sem þetta, þá verður að búa sig undir að styrkja önnur fyrirtæki á sama hátt, sem eru hliðstæð þessu. Því að mér finnst varla hægt að taka út úr eitt fyrirtæki af þessu tægi til þess að styrkja það, en ekki önnur alveg hliðstæð. Það er aðalatriði málsins, hvort hægt er að veita þennan stuðning af þessari ástæðu.

Í annan stað hefi ég bent á, að þó að ekki sé um fleiri veðskuldir að ræða, sem hvíla á þessu fyrirtæki, en þær, sem hv. 6. landsk. taldi, þá hygg ég, að fyrirtækið skuldi aðrar skuldir, sem ekki eru tryggðar með veði í fyrirtækinu. Og ef það er meining hv. 6. landsk., að þetta fyrirtæki verði að fá þennan stuðning, af því að það geti ekki staðið við allar skuldbindingar, þá verður þessi hjálp til þess að gera verðmætari þær kröfur, sem aðrir eiga á hendur fyrirtækinu. þetta er líka sjónarmið, sem verður að taka til greina. Það verður að athugast vel, hvort rétt skuli teljast, að ríkið styrki fyrirtæki með því að ábyrgjast fyrst lán fyrir það, leggi svo út fyrir það stóra upphæð og sé síðan svipt öllum kröfurétti, samanborið við aðra kröfuhafa. Þetta er að minni hyggju hættuleg braut að fara út á, sem gæti auðveldlega leitt til þess, að slík fyrirtæki sem þetta eða stj. þeirra geri sig sekar í nokkru ábyrgðarleysi um rekstur og reikningsskil, ef þau geta svo bara látið allt eiga sig og fengið stuðning hjá ríkinu til bjargar sér.