20.04.1937
Sameinað þing: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í D-deild Alþingistíðinda. (2595)

133. mál, berklavarnagjöld

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég ætla aðeins að lýsa yfir þeirri skoðun minni, að ég er á móti þessari till. Ég ætla ekki að fara langt út í þetta mál vegna tímaskorts. Það er rétt hjá hv. flm., að flest sýslufélög eiga enn ógoldið berklavarnagjald fyrir 1936, en í raun og veru er það ekkert einkennilegt, því að sú venja er komin á, að þessi gjöld eru víðast hvar ekki greidd fyrr en árið eftir. Sum sýslufélög skulda frá fyrri árum, eins og hv. þm. gat um, og ég held, að þau, sem skulda, séu þau, sem verst hafa átt með að greiða, þannig að yfirleitt sé ekki viljaleysi um að kenna, heldur mismunandi getu, þó að frá því kunni að vera undantekning. En hvað það snertir, að það sé ranglátt að ætla þeim héruðum að greiða þetta gjald, sem betur geta greitt eða hafa betri fjármálastjórn, þó að hin greiði ekki, þá get ég ekki fallizt á það, því að eftir sömu reglu mætti segja, að eðlilegt væri að sleppa öllum við greiðslu á lánum, þó að sumir lentu í vanskilum. við höfum reynt allt, sem við hofum getað í fjmrn. til þess að ná þessum gjöldum inn, og okkur hefir orðið nokkuð ágengt, svo að síðustu ár hafa skuldir sýslufélaganna þó nokkuð lækkað frá því, sem var fyrstu 3–4 árin. Ég ætla ekki að fara lengra út í að mæla gegn því, að till. verði samþ. Ég vil taka það fram, að þetta er stórt fjárhagsatriði fyrir ríkissjóð; gjöldin öll nema um 200000 kr., og þó að ekki nema 4 sýslu- og bæjarfélög hafi greitt sín gjöld, þá er búið að greiða 100000 kr., því að Reykjavík er þar á meðal. Það væri að sleppa voninni um aðrar 100000 kr., ef þessu gjaldi fyrir 1936 væri sleppt.