16.02.1937
Efri deild: 2. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

Kosning fastanefnda

*Jón Baldvinsson:

Það er aðeins fyrirspurn til hv. 1. þm. Skagf. um það, hvaða þrír flokkar það eru, sem eru í samfylkingu. Það er rétt, að hann leysi frá skjóðunni næst þegar hann stendur upp, svo að það sé alveg bert, við hvaða flokka hann á.

En viðvíkjandi eftirgrennslan hv. 10. landsk. um að fjölga í n., þá mun ég sýna mínar undirtektir við atkvgr., ef hæstv. forseti ber það undir atkv. En ég verð að taka undir það með hv. þm. S.-Þ., að mér finnst þetta mál líta dálítið öðruvísi út að því er snertir flokk hv. 10. landsk., eftir að búið er að játa, að hann hefir verið kosinn fyrir tilstilli Sjálfstfl.

Ég hefði haft samúð með hv. 10. landsk., ef hann hefði komizt inn á eigin spýtur og væri lítill flokkur, því ég hefi átt við slíkt að búa. En eftir upplýsingum hv. form. Sjálfstfl. er það ekki, þó að það hafi kannske ekki átt að upplýsast. En það varð nú sennilega af því, að honum rann í skap.

Ég vil svo vænta þess, að hv. þm. Skagf. upplýsi það, við hvaða flokka hann átti, þegar hann minntist á samfylkinguna.