17.04.1937
Sameinað þing: 11. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í D-deild Alþingistíðinda. (2637)

153. mál, virkjun Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

*Finnur Jónsson:

Það er ekki nema von, að höfuðstaður Norðurlands geri tilraun til þess að leysa þetta mál á viðunandi hátt. Hitt er sjálfsagt ekki líklegt, að Akureyrarkaupstaður komist af án ríkisábyrgðar, fyrst sjálfur höfuðstaður landsins, Reykjavík, sem hefir miklu meiri tekjumöguleika en allir aðrir kaupstaðir landsins samanlagt, komst ekki af án ríkisábyrgðar fyrir rafveitu handa sér. Nú hefir verið leyst úr þörf Reykjavíkur fyrir raforku með ábyrgð á láni til Sogsvirkjunarinnar, og sömuleiðis Ísafjarðar með ríkisábyrgð fyrir láni til virkjunarinnar þar, en hún hefir orðið allmiklu dýrari en gert var ráð fyrir, og stafar það meðal annars af því, að stöðin var byggð nokkru stærri en upphaflega var áætlað, eða 840 hö. í stað 600 hö., sem áætlað hafði verið. Ég hefi góða von um, að stöðin komi til með að bera sig, en hinu er ekki að leyna, að komizt hefir í nokkur vandræði með stöðina vegna þess, hvað hún hefir farið langt fram úr áætlun. — Þegar Ísfirðingar byggðu þessa stöð, var tekin upp sú regla, að taka ekki ríkisábyrgð á nema 85% af kostnaðarverðinu, og tel ég rétt, að það sama gildi um þær ríkisábyrgðir, sem veittar verða öðrum kaupstöðum. Ég vil leyfa mér að leggja fram brtt., sem fer þess á leit í fyrsta lagi, að ríkisábyrgð verði 85% af kostnaðinum, og í öðru lagi, að stj. sé heimilað að taka viðbótarábyrgð fyrir Ísfirðinga, þó ekki yfir 85% af kostnaði.