15.04.1937
Neðri deild: 39. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Gísli Guðmundsson:

Ég skal vera stuttorður. Það er dálítið erfitt að skilja afstöðu hv. þm. G.-K., að hann skuli ekki vera fylgjandi þessari brtt. minni, því að ef hann er mjög á móti því, að þessi bráðabirgðalög nái staðfestingu, þá ætti hann að vera fylgjandi, að þau giltu sem stytzt.

Annars kann ég vel að meta þá löngun, sem fram kom hjá hv. þm. G.-K., til þess að mega samþ. mál með Framsfl., og er það mjög leiðinlegt, að hann skuli verða af því að fá að fylgja Framsfl. að málum. En ég býst við, að hann geti tengið tækifæri til þess seinna, því að við framsóknarmenn berum fram mjög góð mál bæði á þessu þingi og eigum eftir að gera, svo að sá möguleiki er opinn fyrir þennan hv. þm., að fylgja okkur að málum, ef hann hefir sterka löngun til.

Annars er vitanlega ekkert undarlegt við þessa till., hvorki frá sjónarmiði Framsfl. né annara. Hún er miðuð við það eitt, að þessi bráðabirgðalög skuli ekki gilda nema til ákveðins tíma, og það er gert með það fyrir augum, að þá komi til ný löggjöf. Hinsvegar er með þessari till. ekkert sagt um meðferð neinna annara mála, sem liggja fyrir á þessu þingi, heldur aðeins um þetta eina mál.