16.02.1937
Efri deild: 2. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

Kosning fastanefnda

*Jón Baldvinsson:

Mér finnst töluverður munur á því, hvernig við hv. 1. þm. Skagf. ætlum að svara fyrirspurnum. Ég bauðst til að svara fyrirspurn hv. 10. landsk. við opinbera atkvgr. í d., en hv. þm. ætlar að svara minni fyrirspurn einhverntíma síðar, líklega að hvísla því að mér vottalaust, hverjir þessir þrír flokkar eru. Það má því geta nærri, hvað mikla trú hann hefir á þessum dylgjum sínum, úr því að hann vill ekki standa við þær hér á þingi.

Annað held ég, að þó að hv. þm. hafi einhverntíma hjálpað mér til þess að komast í n., þá megi líka finna hans atkv., þar sem hann leggur á móti því, að ég komist í n. Hann þarf því ekki að hæla sér mikið.

En ég vænti þess, að hv. þm. fari að mínu dæmi og svari minni fyrirspurn opinberlega hér í d., eins og ég býðst til að gera.