16.04.1937
Efri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Bernharð Stefánsson:

Þegar frv. það, sem við þm. Eyf. bárum fram, um breyt. á l. um síldarverksmiðjur ríkisins, var til umr. hér í d., lýsti ég yfir því, að ég teldi nauðsyn hafa verið á að gefa út bráðabirgðal. þau, sem hér liggja fyrir, að vísu nokkuð breytt. Ég tók það fram oftar en einu sinni, að við værum fúsir til að styðja staðfestingu Alþingis á þessari ráðstöfun, að því er til fortíðarinnar kæmi. Hv. 4. þm. Reykv. bar það á okkur, að í frv. okkar fælist vantraust á hæstv. atvmrh., en því var mótmælt af mér með þeim forsendum, er ég hefi tekið fram. Hinsvegar hefir það komið skýrt fram við umr., að við töldum það ástand, sem ákveðið er með bráðabirgðal., óviðunandi til frambúðar. Við skoðuðum bráðabirgðal. aðeins sem bráðabirgðalausn, sem ekki gat verið öðruvísi þá. Því bárum við fram frv. það um síldarverksmiðjurnar, er samþ. hefir verið hér í deild og nú liggur fyrir hv. Nd.

Nú hafa bráðabirgðal. um stj. síldarverksmiðjanna, sem gefin voru út í byrjun maí síðastl., tekið þeirri meginbreyt. í Nd., að ákveðið er í frv., að l. falli úr gildi í árslok 1937, eða á sama tíma og umboð núverandi stjórnarnefndarmanna síldarverksmiðjunnar falla niður samkv. hinum upprunalegu bráðabirgðalögum. Þau hafa í Nd. tekið þeim breyt. að í stað þess að ákveða skipulag til frambúðar, eru þau nú aðeins orðin bráðabirgðaráðstöfun. Hér er því aðeins um að ræða staðfestingu þingsins á ákvörðun hæstv. ráðh., að gefa út bráðabirgðalög, en ekki ákvörðun um frambúðarskipulag. Við þm. Eyf. höfum aldrei haft á móti að samþ. slíka staðfestingu á gerðum hæstv. ráðh., ef tryggt væri, að upp yrði tekið heppilegt fyrirkomulag og l. þessi aðeins skoðuð sem bráðabirgðaráðstöfun. Ég gat þess við umr. um frv. okkar, að ég teldi heppilegast að steypa frv. og bráðabirgðal. saman í ein l., og að við bárum ekki frv. okkar fram sem brtt. við bráðabirgðal., stafaði aðeins af því, að við náðum ekki til bráðabirgðal., því að þau voru þá í Nd., og okkur þótti sem afgreiðsla málsins myndi dragast of lengi, ef við biðum þangað til málið kæmi hingað. Það væri auðvelt að koma þessu máli svo fyrir, að skipulag okkar tæki gildi um leið og bráðabirgðal. féllu úr gildi. En hv. Nd. hefir þó ekki tekið þessa stefnu, heldur afgr. bráðabirgðal. hingað með þeirri breyt., er ég gat um. Hinsvegar hefir hún ekki tekið ákvörðun um okkar frv. Ég vænti þess nú enn, að þó að bráðabirgðal. verði samþ., afgr. Nd. einnig okkar frv., en með þeirri breyt., að l. taki gildi um leið og bráðabirgðal. falla úr gildi. Ég sé ekkert á móti því, að þetta geti orðið niðurstaða þingsins, ef það lýkur störfum á eðlilegan og venjulegan hátt. Annars er mikið talað um, að svo kunni að fara, að þingstörf verði allendaslepp að þessu sinni. Ef svo fer, sem ég veit ekki um, kemur til þess, ef búið yrði að samþ. bráðabirgðal., að setja þyrfti nýja löggjöf, áður en bráðabirgðal. falla úr gildi 31. des. þessa árs. Yrði það ekki gert, mundi þetta mikla ríkisfyrirtæki verða stjórnlaust. Hvernig sú nýja löggjöf verður, ef þetta þing gengur ekki frá henni, er mikið undir því komið, hvernig hún er undirbúin. Alþýðuflokksmenn hafa haldið því fram, meðal annara hæstv. atvmrh., við umr. um frv. okkar, að fyrirkomulag það, sem bráðabirgðal. ákveða, sé það heppilegasta. Ég get því búizt við, ef hæstv. ráðh. ætti að undirbúa nýja löggjöf um þetta, að sá undirbúningur yrði sá einn að leggja til, að bráðabirgðal. yrðu framlengd til frambúðar, jafnvel þótt hann kunni að sætta sig við, að frv. sé nú samþ. óbreytt. En við viljum ekki sleppa málinu á þann hátt í hendur hæstv. ráðh., og því viljum við ekki veita frv. þessu fylgi nema tryggt sé, að á þessu þingi verði ákveðin frambúðarskipun þessara mála, sem við getum unað við, eða ef tími vinnst ekki til þess, að undirbúningur verði þá gerður með ráði allra höfuðflokka þingsins. Hæstv. ráðh. hefir auðvitað á valdi sínu að bera fram sem stjfrv. það eitt, sem hann getur fallizt á, en ef aðrir flokkar eru hafðir með í ráðum, eru þó líkur til, að allar till., sem gerðar verða, komi fyrir augu þingsins.

Hvort við getum greitt frv. atkv. okkar til 2. umr. og svo áfram, fer eftir því, hvert svar hæstv. ráðh. verður um það, hvernig haga skuli nýrri löggjöf um framtíðarskipulag á stj. verksmiðjanna, — hvort hann ætlar að taka til greina till. mína um að hafðir séu til ráðuneytis fulltrúar frá aðalþingflokkunum. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. sé það ljóst, hvað ég á við, svo að fyrirspurn mín geti ekki valdið misskilningi. Vænti ég svars hans, áður en nokkur atkvgr. fer fram í deildinni.