16.04.1937
Efri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Bernharð Stefánsson:

Hv. 1. þm. Skagf. heldur áfram að gera mér upp orð, sem ég á að hafa sagt undir umr. um mitt frv., en ég skora á hann að finna þessi orð í handritum skrifaranna. Ég sagði einungis það, að vegna þess, hvernig verksmiðjustjórnin væri skipuð, léki grunur á, að hlutdrægni væri beitt, en hitt er rétt, að hv. 4. þm. gerði mér þessi orð upp, og það er líklega það, sem hv. 1. þm. Skagf. man eftir. (MG: Þá hefir hv 4. þm. Reykv. skilið þm. á sömu leið og ég). Ég efa það. Og ég skal minna á það, að þessum orðum, sem höfð voru eftir mér þá, mótmælti ég þá þegar. Ég viðhafði aldrei slík ummæli, og mér þykir það ekki sæma hv. 1. þm. Skagf. að vera hvað eftir annað að staglast á þessum ósannindum. (MG: Ég fullvissa hv. þm. um það, að ég heyrði ekki betur og veit ekki betur en að hann viðhefði þau orð, sem ég hefi haldið fram). Ætli hv. þm. hafi þá ekki heyrt, þegar mér var svarað?

Hv. 1. þm. Skagf. eyddi nokkrum tíma í það að tala á móti því fyrirkomulagi, sem stungið er upp á í frv. okkar þm. Eyf., sérstaklega því, hvað margir ættu að vera riðnir við stjórn síldarverksmiðjanna, en þó greiddi hann atkv. með þessu sjálfur. Og ég verð að segja það, að þó að ég kynni að hafa eitthvað heykzt í þessu máli — sem þó ekki er — þá væri mér það vorkunn, eftir að það er orðið 1jóst, hverskonar liðsmenn ég átti.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að ég hefði haft skrifaða ræðu, og vildi með því sýna, að þetta hefði verið sjónleikur og útbúið fyrirfram. Ég hafði nú hjá mér nokkra punkta, eins og hv. þm. sjálfur hefir oft og tíðum og er ákaflega venjulegt meðal þm., og getur hann fengið að sjá þá, ef hann vill.

Þá sagði hv. 1. þm. Skagf., að ég gerði mig ánægðan með það, að ráðh. ætlaði að hafa samráð við flokkana um tilbúning nýrrar löggjafar, og léti mér það nægja, ef ráðh. tæki bara einhvern og einhvern mann úr flokknum. Ég tók það skýrt fram í minni fyrstu ræðu, að ég setti það m. a. sem skilyrði fyrir því, að ég greiddi frv. atkv. áfram til 2. umr., að ráðh. hefði annaðhvort samráð við flokkana sjálfa eða fulltrúa, sem þeir tilnefndu sjálfir. Þetta er því rangt eins og fleira hjá hv. þm.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að ég væri orðinn lítilþægur í þessu máli. Það eru ómerk orð, því að ég hefi ekki á neinn hátt horfið frá því, sem ég hefi haldið fram um þetta mál. Ég veit, að það á að reyna að láta líta þannig út, og sjálfsagt verða skrifaðar um þetta stórar greinar í Morgunblaðinu. En það er ekki rétt, og ég vil biðja þennan hv. þm. og aðra að sýna fram á, í hverju það sé fólgið.

Viðvíkjandi stefnu Framsfl. í þessu máli, þá var það yfirlýst á flokksþinginu í vetur, að hann aðhylltist þá stefnu um stjórn síldarverksmiðjanna, að allir flokkar hefðu þar jafnan rétt. Hv. 1. þm. Skagf. spáði því, að flokkurinn mundi heykjast á þeirri stefnu, en hann hefir enga ástæðu til þess. Að vísu er ekki ástæða til að deila um framtíðina, en það mun bara sýna sig, þegar að því kemur, að flokkurinn mun halda þá stefnu. (MG: Hann gerir það líka fallega núna!) Já, það er einmitt það, sem hann gerir, því að annars hefði hann samþ. bráðabirgðalögin eins og þau lágu fyrir, en ekki borið fram brtt. um það, að þau giltu aðeins til ákveðins stutts tíma.