16.02.1937
Efri deild: 2. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

Kosning fastanefnda

*Jónas Jónsson:

Þetta er nú farið að verða nokkuð guðfræðilegt spursmál um uppruna hins svokallaða Bændaflokks. Ég ætla ekki að fara að ræða um meyjarfæðingarspursmálið við þennan sprenglærða guðfræðing, enda þótt hægt væri, í sambandi við flokkslegan uppruna þessa hv. þm. Ég álít, að það sé ekki hægt að rekja þá sögu lengra en til síðustu kosninga. Um það, hvernig hv. 10. landsk. komst á þing í þetta skipti, liggur fyrir ómótmæltur vitnisburður hv. þm. G.-K., þar sem hann lýsir á sínar herðar ábyrgðinni á því að hafa gefið þessum flokki tilverurétt. Hv. þm. G.-K. hefir þess vegna beinlínis gengizt við króanum. (MG: En móðernið, er það ekki Framsókn?) Nei, það var fullkomlega eingetið. En af framkomnum upprunaskírteinum sé ég ekki annað en að það sé ómögulegt að verða við þessari ósk hv. 10. landsk. Það getur hinsvegar komið til mála að bæta mönnum við vegna sérstakra verðleika, en ég efast um, að hv. þm. geti nokkuð frekar flotið á því.