05.04.1937
Neðri deild: 31. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

4. mál, tolllög

*Frsm. (Sigfús Jónsson):

Þetta frv. felur ekki í sér breyt. á aðflutningsgjöldum, sem nú eru í l., að öðru leyti en því, að til sætindaflokka skuli talinn lakkrís og lakkrísvörur, sem ekki var gert áður, og eitthvað fleira af sælgæti, sem úrskurðað hefir verið, að greiða eigi toll af.

Aðaltilgangur frv. er sá, að safna saman í eina heild tolllagaákvæðum, sem nú eru á víð og dreif í l. Fjhn. hefir fallizt á, að heppilegra sé, að öll slík ákvæði séu til í einni heild, og leggur því til, að frv. verði samþ., en hefir þó borið fram brtt. við það á þskj. 179. — 1. brtt. a–b er í raun og veru aðeins lagfæring á prentun. Í 2. brtt. er lagt til, að falli úr gildi ýms eldri ákvæði. Það eru sumpart ákvæði, sem eru orðin úrelt, og sumpart ákvæði, sem standa í vörutollslögunum og ætlazt er til, að gildi fyrir tolllögin líka, þó þau séu ekki endurtekin þar, heldur aðeins vísað til þeirra. T. d. svarar 3. gr. tolllaganna til 5. gr. vörutollslaganna, 4. gr. tolllaganna til 6. gr. vörutollslaganna, o. s. frv. Í 15. gr. tolllaganna var ákvæði um, að láta skuli þýða lögin bæði á ensku og dönsku og útbýta þeim til skipstjóra. Þetta er gert ráð fyrir, að falli niður, af því það er talið óþarft. Svo er loks í brtt. n. ákvæði um, að gefa skuli út heildarreglugerð, þar sem safnað er saman öllum ákvæðum um innflutningstolla, framkvæmd tollheimtu og tollgæzlu. Er það til þess að hægt sé að ganga að þessum fyrirmælum í einu lagi, en þurfi ekki að leita þau uppi í mörgum lögum og reglugerðum, eins og nú er.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en vænti, að hv. d. samþ. frv. með þeim breyt., sem n. leggur til, að gerðar verði á því.