25.02.1937
Neðri deild: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

11. mál, alþýðutryggingar

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Með þessu frv. er leitað staðfestingar á bráðabirgðalögum, sem gefin voru út á síðastl. ári og fólu í sér breyt. á l. um alþýðutryggingar.

Í þessari d. kom fram á síðasta þingi brtt. í þá átt, að aldurstakmark þeirra, sem komið gætu til greina við úthlutun ellilauna, lækkaði niður í 60 ár. Þessi till. var felld og það fært fram gegn henni, að mikill meiri hluti þeirra, sem gera mætti ráð fyrir, að komið gætu til greina við úthlutun ellilauna á þessu aldursstigi, mundu koma undir ákvæði l. um örorku. Við úthlutun ellilauna á síðasta hausti kom þó í ljós, að nokkur hluti þeirra, sem áður höfðu notið ellistyrks, mundi ekki koma undir ákvæðin um örorkubætur. En þar sem tilgangur l. var að skerða í engu rétt þessara manna, þótti rétt að bæta úr þessu með bráðabirgðalögum, sem skildu svo á, að þeir, sem áður höfðu notið ellistyrks, skuli koma til greina, þó að þeir séu yngri en 67 ára.

Ég skal geta þess um leið, að það er búið að láta úthluta fyrir síðasta ár 912 þús. kr. Af því er tæplega 75% framlag lífeyrissjóðs, hitt er framlag sveitar- og bæjarsjóða. Tala þeirra, sem hafa fengið ellilaun, er yfir 5000, þar með taldir öryrkjar, sem hafa fengið örorkulífeyri. Af þessum mönnum eru um 900, sem eru yngri en 67 ára, en höfðu áður ellistyrk samkv. l. um ellistyrk, og af þeim mun vera á annað hundrað, sem hafa komizt undir ákvæði um örorku.

Ég legg svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.