13.04.1937
Neðri deild: 37. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

9. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Ólafur Thors:

Ég varð að fara af fundi, þegar þetta mál var hér til umr. síðast, og gat þess vegna ekki heyrt, hvað hv. þm. Ísaf. sagði um þetta mál. Ég geri nú líka ráð fyrir, að það hafi ekki verið sérlega merkilegt, svoleiðis að það sé nú enginn þjóðarbrestur, þó að niður falli að svara því.

Ég get sætt mig við það, sem hv. þm. Vestm. talaði um, að það dragist þangað til við 3. umr. að bera fram þær brtt. við þetta frv., sem hann hefir í hyggju að bera fram og sem ég, síðast er málið var hér til umr., sýndi fram á, að mjög nauðsynlegt væri að bera fram og fá lögfestar.

Ég er ekki sammála því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það sé einhverjum sérstökum örðugleikum bundið að lögfesta reglur, sem tryggi svona sæmilega réttláta úthlutun söluleyfa til handa togurum á þýzkum og enskum markaði. Ég mun við 3. umr. málsins benda á það, að mjög fjarri hefir því farið, að réttlátlega hafi verið úthlutað þessum leyfum til Þýzkalandsferða togaranna. Ef samskonar óréttlæti ríkir í skiptingu fríðinda á milli aðilja í þessu þjóðfélagi eins og ríkt hefir í úthlutun fiskimálan. á þessum leyfum, þá held ég, að fiskimálan. sé af öllu misjöfnu eitt hið lakasta, sem sett hefir verið á stofn í þessu þjóðfélagi til þess að úthluta þegnum landsins af almannafé þeim gæðum, sem allir eiga nokkurn veginn jafna kröfu til.

Ég heyrði, að hv. 2. þm. Reykv. drap á það, að eitt af því, sem ætti að ráða því, hvaða menn fengju þessi fríðindi, væri það, hvort skip þeirra hefðu stundað síldveiðar eða karfaveiðar. En ég verð að segja, að það kemur úr hörðustu átt, að hv. 2. þm. Reykv. talar svona, sem vill láta líta á sig sem málsvara verkalýðsins í landinu, eins og það eigi að hegna þessum mönnum, sem stunda síld- og karfaveiðar, sem taldar eru þær langarðvænlegustu veiðar, sem um er að ræða fyrir ísl. útgerð, með því að láta þá fara á mis við þessi fríðindi.

Að öðru leyti get ég geymt mér frekari rétt til að færa orðum mínum stað með skýrslum til 3. umr., ef orð mín verða véfengd.