14.04.1937
Neðri deild: 38. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

9. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Héðinn Valdimarsson:

Hv. þm. G.-K. mun vilja fá meira „réttlæti“ í þessu efni, til þess að hans félag geti haldið áfram uppteknum hætti um að fara fram úr þeim veiðum, sem leyfðar eru á Þýzkalandsmarkaðinn. Það er þess að geta um þetta félag hans, að það er ekki aðeins þetta ár, sem það hefir tekið óleyfilega frá hinum skipunum útflutning til Þýzkalands, heldur var það gert miklu meira í fyrra, og þó hv. þm. vildi gera lítið úr þessu með því að jafna því niður á öll skip félagsins, þá dregur það ekkert úr því; það sést vel, að í þau skipti, sem þetta hefir átt sér stað, þá hefir það verið gert með ráðnum hug. Það er mjög fjarri því, að ég sé með því, að þessi till. verði samþ., og ég hygg, að ég hafi skýrt frá ástæðunum fyrir því, að ekki er hægt að úthluta leyfum eingöngu eftir tölu skipa; þar verður að taka tillit til atvinnu landsmanna að öllu leyti. Ég mæli sem sagt eindregið með því, að þessi till. verði felld en ég tel hinsvegar mjög æskilegt, að fiskimálanefnd leiti álits togaraeigenda um þessi mál. En viðvíkjandi því, sem hv. þm. Vestm. sagði um þetta mál — en hann var nú fremur stuttorður —, þá man ég ekki betur en þessi hv. þm. sjálfur hafi farið fram á að fá 3 ferðir fyrir eitt skip, sem ekki fékkst; ég veit ekki, hvort það er það, sem hann álítur, að hafi vantað upp á réttlætið.