20.04.1937
Efri deild: 48. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

9. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Þetta mál er komið frá hv. Nd., og sjútvn. hefir gefizt kostur á að athuga frv. Innan n. var í raun og veru enginn ágreiningur um málið í heild. Hv. þm. N.-Ísf. hafði að vísu sérstöðu, en það kom ekki glöggt fram í n., hverskonar sérstaða það var, en hana má sjá á þskj. 385. N. hefir ekki haft aðstöðu til að kynna sér þessa brtt., svo að ég mæli ekki fyrir hönd meiri hl., en ég get sagt það fyrir mig, að ég tel þessa till. óþarfa, því að hún gengur ekki út á annað en það, að það skuli vera skylt að leita álits ákveðins félagsskapar, þegar leyfi eru veitt til ísfiskútflutnings, en eftir því, sem ég bezt veit, hefir yfirleitt alltaf verið ráðgazt um við togaraeigendur, þegar slík skipting veiðileyfa hefir farið fram, svo að ég tel, að það gæti ef til vill orðið til þess, að málið dagaði uppi á þinginu, ef þessi breyt. yrði gerð á því; en ég álít, að það væri miður farið, ef svo yrði gert. Um frv. sjálft er lítið að segja. Það felur í sér nauðsynleg ákvæði, sem þurfti að bæta aftan við þessi l., sektarákvæðin, og eins ákvæði um þær reglur, sem gilt hafa um þann fisk, sem fluttur hefir verið út umfram það, sem tilkynnt er og bundið við leyfi í hvert sinn. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að fara frekar út í þetta mál fyrir hönd nefndarinnar.