20.04.1937
Efri deild: 48. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

9. mál, fiskimálanefnd o. fl.

Jón Auðunn Jónsson:

Það, sem farið er fram á með þessari till., er það, að leyfum til ísfiskútflutnings togara verði úthlutað í samráði við togaraeigendur og félagsskap þeirra. Mín meining er sú, að það ætti að ákveða fyrirfram fyrir hverja vertíð, hvaða skip skuli fá leyfi og fyrir hvað marga túra og hvað marga aflatúra á hvorn stað, Þýzkaland og England. Ég tel, að þetta sé alveg nauðsynlegt til þess að fá fullt samræmi. Hinsvegar verður fiskimálanefnd auðvitað að segja til um, hvenær hver togari á að sigla á hvern stað, en þar sem það hefir borið á óánægju um úthlutun þessara leyfa, þá sé ég ekki annað en að það sé rétt, að stjórn þessa félagsskapar fái að ráða nokkru um, hvernig þetta er ákveðið í upphafi. Og það væri ákaflega gott fyrir togaraeigendur að fá að vita það í byrjun ísfiskvertíðar, hve mikið þeir megi láta skip sín veiða til sölu á hverjum stað, því að ef slíkar ráðstafanir væru gerðar, þá væri miklu hægara fyrir þá að disponera; og ég þykist þess fullviss, að fiskimálanefnd hafi á engan hátt á móti þessu, því að það léttir hennar starf við úthlutun leyfanna.

Ég sé ekki, að till. geti á nokkurn hátt komið í veg fyrir yfirráð fiskimálanefndar í þessum málum, heldur myndi hún þvert á móti létta hennar störf; og ég er sannfærður um, að það getur ekki komið fyrir, að málið dagi uppi, þótt þessi breyt. verði samþ., því að málið fer vitanlega út úr d. eftir nokkrar mínútur.