20.04.1937
Efri deild: 48. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

9. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Magnús Jónsson:

Það er getið um það í grg. frv., að það hafi komið fyrir, að nokkrir togarar hafi flutt út meira magn af ísfiski en þeir hefðu haft leyfi til. Þess vegna sé hér verið að skerpa ákvæðin um þetta. En það hefir líka þótt bera nokkuð á því, að fiskimálanefnd hafi ekki verið réttlát í sínum úthlutunum á kvótanum, sérstaklega að því er Þýzkalandsmarkaðinn snertir, því að þó að hér sé almennt talað um ísfiskmarkað, þá er vitanlegt, að deilan hefir aðeins verið um kvótann á Þýzkalandsmarkaðinum. Reynslan hefir verið sú, að eftirsókn eftir Þýzkalandsmarkaðinum hefir verið mikil, að það stafar af því, að sá markaður er talinn það miklu betri, að ég hefi heyrt, án þess að ég sé þessu eins kunnugur eins og flm. brtt., að Þýzkalandstúrarnir hafi gefið um 1900 £ að meðaltali, en Englandstúrarnir jafnvel fyrir neðan 1000 £. Þess vegna er eðlilegt, að hjá aðþrengdum togarafélögum sé nokkuð mikið kapphlaup um þennan markað. Togaraeigendur höfðu fundið, hve mikil nauðsyn var á því að koma hér á einhverjum reglum. Þess vegna höfðu þeir, í gegnum sinn félagsskap, komið sér upp einskonar stofnun til þess að úthluta þessum fiskkvóta á milli meðlima sinna, og það bar ekki á neinni óánægju. Þessi stofnun úthlutaði kvótanum að einhverju leyti eftir stærð, en þó aðallega eftir tölu skipanna.

Aftur á móti hefir verið mikil óánægja með úthlutun fiskimálanefndar. Ég hefi hér fyrir mér plagg um það, hvað hverju félagi hefði borið eftir höfðatölu árið 1936, og hvað hverju félagi var úthlutað, og það er ekki hægt að neita því, að þessar tölur sýnast benda á, að úthlutunin hafi ekki verið sanngjörn. Ég sé hér t. d., að hlutafélaginu Kveldúlfi hefði borið hlutfallslega eftir skipatölu 800 tonn, en fékk 530 tonn. Alliance 553 tonn, en fékk 300 tonn. Einari Þorgilssyni 228 tonn, en fékk 100 tonn. Aftur á móti eru önnur skip, þar sem þetta er alveg öfugt, t. d. Júpíter bar 114 tonn, en fékk 210 tonn, Belgaum bar 114 tonn, en fékk 220. Mjölni bar 114 tonn, en fékk 240 tonn. Bæjarútgerðinni í Hafnarf. 228 tonn, en fékk 385 tonn. Mér finnst eðlilegt, að félög, sem finnst þau stórum afskipt — því að hér er um verulegar fjárhæðir að ræða —, beri sig upp við þann aðilja, sem hér á hlut að máli, og óski eftir því, að eitthvað verði sett inn í þetta frv., sem tryggi það betur í framtíðinni, að gætt sé réttlætis. Ég efast nú ekki um, að það sé sitt af hverju annað en skipafjöldi og skipastærð, sem hér kemur til greina, en þessar tölur virðast benda á, að ekki hafi verið gætt þeirrar sanngirni, sem hefði þurft að gæta.

Ég hafði því hugsað mér að bera fram brtt. um það, að þessum kvóta yrði úthlutað sem næst eftir tölu og stærð skipanna, en af því að ég vissi, að einn af nm. ætlaði að bera fram till., sem fór fram á svipað, bar ég ekki slíka till. fram; en úr því að verið er að skerpa ákvæðin um það, ef togarar hlýðnast ekki fyrirskipunum fiskimálanefndar, þá vil ég mæla með því, að sett verði ákvæði, sem tryggi að eins og hægt er, að n. gæti sanngirni í sínum störfum.

Ég get ekki fallizt á það, sem hæstv. ráðh. sagði, að eftir till. á þskj. 385 væri valdið til að úthluta leyfunum raunverulega tekið af fiskimálanefnd og sett í hendur stj. félags ísl. botnvörpuskipaeigenda. Mér finnst, að hér ætti ekki að geta verið um árekstur að ræða á milli þessara tveggja aðilja, aðeins upplýsingar, sem fiskimálanefnd sækti til þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli. Það hlýtur að vera bara gott fyrir fiskimálanefnd að geta haft þennan aðilja til ráðleggingar, og það liggur í augum uppi, að n. kemur af sér nokkrum vanda með því að fara sem mest eftir því, sem þetta félag leggur til málanna.