20.04.1937
Efri deild: 48. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

9. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Jón Auðunn Jónsson:

Ég get ómögulega séð, þrátt fyrir það, sem hæstv. ráðh. hefir sagt, að þessi till. eigi ekki fullan rétt á sér. Það er engan veginn sagt í till., að n. eigi í öllum tilfellum að fara eftir till. stj. félags ísl. botnvörpuskipaeigenda, heldur eigi hún „sem mest“ að fara eftir till. félagsstj. Ég veit það af viðtali við nokkra skipaeigendur nú undanfarið, að þeir vildu mjög gjarnan, að þetta fyrirkomulag yrði haft, því að þeir telja meiri vissu fyrir því, að úthlutunin yrði sanngjörn, ef stj. félagsskapar þeirra fengi a. m. k. tillögurétt um það, hvernig þessum málum yrði hagað.

En það er eitt, sem er mjög æskilegt, eins og ég drap á áðan, og það er, að ákveðið sé í upphafi vertíðar, hve marga túra hvert skip fái að fara, og fyrir þá, sem eiga mörg skip, er þetta beinlínis nauðsynlegt. Hitt getur náttúrlega verið, að ýmislegt annað komi til greina en skipafjöldi og smálestatala innan félaganna, en ég sé það af þessum lista, sem hér liggur fyrir, að jafnvel þó að tekið sé tillit til þess, að sum skipin hafi verið á síldveiðum og önnur ekki, þá er samt mikið ósamræmi í úthlutun þessara leyfa.

Ég vil benda á það, að fiskimálanefnd segist hafa tekið tillit til þess, hvort skipin hafi farið á karfaveiðar eða ekki. Nú sýndi það sig síðastl. haust, að talsvert tap varð á þessum veiðum, og þá held ég, að ekki sé ástæða til að hegna þeim, sem leggja út í þessa óvissu karfaveiði, með því að láta þá fá minni ísfiskkvóta en þeir annars hefðu fengið.

Ég get ómögulega skilið, að það verði annað en til hins betra, að þessi till. verði samþ., því að n. er ekki bundin við till. félagsstj., heldur á hún aðeins að fara eftir þeim eftir því, sem við verður komið.