20.04.1937
Efri deild: 48. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

9. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Magnús Jónsson:

Hv. frsm. og eins hæstv. ráðh. eru hér báðir inni á sinni planökonomi; ef togara gengur illa á einu svæði, á að hygla honum á öðru. Ég ætla nú ekki að fara að ræða almennt um planökonomi, en ef n., sem ræður yfir einum góðum markaði, ætlar að nota þetta vald sitt til að meta það, hvort það félag, sem í hlut á, hafi nú almennt komið sómasamlega fram í fiskveiðum, þá hlýtur það alltaf að lenda í hreinu handahófi.

Ég skil ekki, hvers vegna hv. frsm. telur ekki stj. ísl. botnvörpuskipaeigenda dómbæran aðilja í þessum efnum. Það má vel vera, að til séu togaraeigendur, sem af einhverjum ástæðum standi utan við þennan félagsskap, en það er fjarri því, að þar fyrir geti stj. þessa félags ekki verið fullgildur aðilji í þessum efnum.

Ég veit ekki betur en að Alþýðuflokksmenn hér á þingi líti á stj. Alþýðusambands Íslands sem sjálfsagðan fulltrúa verklýðsfélaganna í landinu. Nú getur verið fjöldi verklýðsfélaga, sem hefði það á stefnuskrá sinni að ganga ekki í Alþýðusambandið, en ég hygg, að hv. frsm. myndi ekki ganga inn á, að þar fyrir eigi stj. Alþýðusambandsins að vera óhæfur aðili til þess að segja álit sitt um þarfir og óskir verkalýðsins. Það, sem hér bætist við, er það, að einmitt stj. ísl. botnvörpuskipaeigenda hafði þessi mál áður með höndum, og þá gerði enginn óánægja vart við sig; en þegar fiskimálanefnd fær þetta í sínar hendur og fer að úthluta leyfunum, þá fyrst fer að bera á óánægju. Ef það er satt og rétt, sem ég þori ekki að segja um, að fiskimálanefnd hafi jafnan samband við togaraeigendur, þegar um úthlutun leyfa í væri að ræða, hvers vegna er þá óánægjan? Er hún ekki skýrasti votturinn um það, að hér sé um eitthvert óréttlæti að ræða? Sá veit bezt, hvar skórinn kreppir að, sem hefir hann á fætinum. Hér er um óánægju að ræða, og þau dæmi, sem ég nefndi hér áðan, sýna, að félögunum hefir verið stórkostlega mismunað, af hvaða ástæðum sem það hefir verið gert, og þær ástæður hafa ekki verið fram færðar. Hvers vegna var það fellt í Nd., að n. skyldi gæta réttlætis um úthlutun leyfanna?

Ég er hræddur um, að þessi mótstaða stafi einmitt af þeim sömu ástæðum, en ekki af þeim ástæðum, sem hér er gefið upp um það, að þeir telji ekki þennan aðilja fullbæran til þess að gefa heilbrigðar og réttar till. í þessu máli. Ég get ómögulega verið sammála hæstv. ráðh. um það, að Alþingi sé ekki bært um að setja reglur um þetta. Það er satt, að Alþingi er ekki bært um að segja t. d., að Kveldúlfur skuli fá svo og svo marga túra á Þýzkaland og bæjarútgerðin í Hafnarfirði svo og svo marga, en ég veit ekki, hvað Alþingi er að starfa hér, ef það er ekki bært um að setja heilbrigðar reglur um þetta. Á hverju þingi eru sett fjölmörg lög, þar sem verið er að deila út sól og regni meðal margra aðila, en hér er ekki farið fram á annað en að fá reglur til þess að leysa þessa menn undan fullkominni handahófsútdeilingu, og ég teldi illa farið, ef hv. þd. vill ekki fallast á að samþ. þessa till., sem fer í raun og veru skemmra en till. í hv. Nd., till., sem mér sýnist gæta mikillar sannsýni á alla bóga, sem sé að það skuli leitað umsagnar stjórnar félags ísl. botnvörpuskipaeigenda og farið sem mest eftir till. hennar. Ég sé ekki, að hægt sé að setja mýkri fjötur á fiskimálanefnd en þetta.