09.04.1937
Efri deild: 35. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

18. mál, leiga á mjólkurvinnslustöð

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Hv. 2. þm. Rang. hefir talað alllangt mál um þau bráðabirgðalög, sem fyrir liggja um eignarnám mjólkurvinnslustöðvarinnar í Reykjavík. Ég var nú ekkert sérstaklega undrandi yfir því, að hv. þm. færi að ýmsu leyti mjög rangt með, eins og ég mun sýna fram á, vegna þess að ég þykist þekkja nokkurnveginn heimildir hans. Vitanlega er hann sjálfur ekki kunnugur þessu máli og talar því hér fyrir annara munn. Ég ætla samt, áður en ég vík að þessu, að koma inn á annað atriði, sem ég er meira undrandi yfir, að hv. þm. skyldi láta sér um munn fara. Hann sagðist sem sé vera viss um, að eignarnám þessarar stöðvar væri einsdæmi í íslenzkri löggjöf. En ég get upplýst hv. þm. um það, úr því hann virðist vera því ókunnugur, að þessi l. eiga einmitt mjög nákvæma hliðstæðu í íslenzkri löggjöf, og hana alveg tiltölulega nýja. Og það vill svo einkennilega til, að þessi l. eru á sömu opnunni og mjólkurlögin, sem mest hefir verið deilt um. Þetta eru bráðabirgðalög, sem fyrrv. dómsmrh., Magnús Guðmundsson, gaf út og heita „bráðabirgðalög um heimild fyrir ríkisstj. til þess að taka síldarbræðslustöð á leigu“. Það þarf ekki lengi að lesa þau l. til þess að fullvissa sig um, að það stóð að því leyti öðruvísi á viðvíkjandi þessu fyrirtæki, að það hafði ekki brotið fyrirmæli þau, sem ráðh. hafði sett því, eins og ég mun síðar sýna fram á, að mjólkurstöðin í Reykjavík hafði gert einmitt gagnvart landbúnaðarráðuneytinu, heldur var stöðin einungis tekin á leigu vegna þess, að hún mundi ekki verða starfrækt á þessu ári. Það stendur svo hér í þessum l., með leyfi hæstv. forseta.: „Á síðasta þingi var ríkisstj. heimilað að kaupa verksmiðju þessa, en nauðsynlegur undirbúningur undir það hafði ekki farið fram, sökum þess, að búizt var við, að verksmiðjan yrði leigð í sumar. Þar sem síldveiðitíminn er þegar byrjaður og nauðsyn er á vegna atvinnu og framleiðslu landsmanna, að verksmiðjan taki sem allra fyrst til starfa, þá er ekki annar kostur fyrir hendi en að heimila ríkisstj. að taka hana leigunámi um síldveiðitímann í sumar með bráðabirgðalögum samkv. 23. gr. stjórnarskrárinnar, og verður þá síðar, er undirbúningur hefir farið fram, ákveðið, hvort ríkið kaupi verksmiðjuna eða ekki.“ — Ef l., sem hér liggja fyrir um eignarnám á mjólkurstöðinni, eru brot á stjórnarskránni, hvað er þá um þessi l. að segja? Ég er alveg hissa á hv. þm. að láta þetta út úr sér, að vísu á kurteisan og rólegan hátt, að hann undrist yfir því, að ég skuli hafa brotið eið þann, sem ég hafi unnið að stjórnarskránni, og að ekki séu til hliðstæður í íslenzkri löggjöf. Ef hv. þm. trúir því, sem hann er að segja, hversvegna lætur hann þá ekki dómstólana skera úr málinu? Hvers vegna tekur hann það ekki að sér sem málfærslumaður að flytja slíkt mál? Vegna þess, að hann trúir ekki á málstað sinn og veit, að eignarnámið var eðlilegt á allan hátt.

Þá skal ég koma með örfáum orðum að þeim atriðum öðrum, sem hv. þm. minntist á. Það var rétt sögð saga málsins hjá hv. þm. framan af. Hann skýrði rétt frá því, hvað hefði verið tekið fyrir gerilsneyðingu mjólkurinnar til byrjunar ársins 1936, eftir því, sem ég bezt veit. En eftir að frásögnin hófst um viðskiptin á árinu 1936, fór að halla frá réttu máli. Það var samið við þessa stöð fyrir árið 1935 samkv. upplýsingum, sem forstjórinn hafði gefið um kostnaðinn við að gerilsneyða mjólkina, og var honum trúað sem heiðarlegum manni til að gefa einungis upp það, sem hann vissi sannast og réttast. En það sýndi sig, eins og hv. 2. þm. Rang. tók fram, að á því ári græddi stöðin verulega á því að gerilsneyða mjólk fyrir bændur, og á þann hátt var af þeim, sem að þessari stöð stóðu og Mjólkurfélagi Reykjavíkur, raunverulega lagður skattur á alla aðra mjólkurframleiðendur, sem stóðu utan við þennan félagsskap og þurftu að láta gerilsneyða mjólk í þessari stöð. Undan þessu var eðlilega kvartað af þeim, sem utan við samtökin stóðu, og þess krafizt af mér, að ég notaði þá heimild, sem mér er gefin í niðurlagi 5. gr. hinna svonefndu mjólkurlaga. Hv. 2. þm. Rang. las upp þessi ákvæði að mestu, en sleppti niðurlaginu, af hvaða ástæðum sem hann hefir gert það. En þarna stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Heimilt er landbúnaðarráðherra, er sérstaklega stendur á, svo sem ef mjólkurbú rekur aðra óskylda starfsemi, að gera það skilyrði fyrir viðurkenningu eða starfsemi löggiltra mjólkurbúa, að þau taki til gerilsneyðingar mjólk fyrir utanfélagsmenn gegn sanngjörnu gjaldi eftir samningi eða hámarksverði, er ráðh. ákveður“. Þarna stendur ekki, að ráðh. eigi að ákveða hámarksverðið eftir á, láta stöðina fyrst gerilsneyða mjólk í eitt ár, skoða svo reikningana og ákveða hámarkið. Þegar ráðuneytið hafði tekið við umkvörtunum frá þeim utanfélagsmönnum, sem orðið höfðu fyrir því, að stöðin græddi á þeim undanfarið ár, var sérfræðingur ríkisstj., Jónas Kristjánsson, fenginn til þess að athuga málið. Hann rannsakaði síðan starfskrafta stöðvarinnar og rekstrarkostnað, og eftir að hann hafði gert sínar áætlanir var Mjólkurfélagi Reykjavíkur gefinn 2 mánaða frestur til þess að lesa yfir þessa grg. og koma með sínar aths., ef nokkur ástæða væri fyrir því, að rekstrarkostnaðurinn væri meiri en Jónas Kristjánsson áleit. En þeir, sem tilnefndir voru frá mjólkurfélaginu, gátu aldrei komið fram með nein frambærileg rök fyrir því, að þessi kostnaður væri meiri en 2,02 aurar, og vitanlega hafði ég þá fulla heimild til þess samkv. þessari lagagr., sem hv. 2. þm. Rang. aldrei las til fulls, að ákveða hámark gerilsneyðingargjaldsins, enda er vitanlega ætlazt til þess, að ef ekki verður samkomulag um þetta atriði, þá sé hámarkið sett eins og hér var gert.

En sagan er ekki öll sögð með þessu. Eftir að leitað hafði verið umsagnar þeirra manna, sem Mjólkurfélag Reykjavíkur tilnefndi til þess að færa fram ástæður fyrir því, að gjaldið væri of lágt sett, fór fram milli mín og forstjóra mjólkurfélagsins og fleiri manna frá þeim félagsskap nákvæmt samtal um það, hvernig þessu ætti að koma fyrir. Og þeir gátu vitanlega ekki mótmælt því, þar sem fyrir lágu upplýsingar um það frá sérfróðum mönnum, að ekki mundi þurfa að kosta meira en 2,02 aura að gerilsneyða mjólkina, að ekki varð hjá því komizt fyrir mig að setja þetta hámark, og þá var hann fáanlegur til, ef ég hefði gengið að því, að skrifa undir samning um 2,2 aura. Hann er hér áheyrandi, og menn geta trúað öðru, ef þeir vilja. Aftur á móti tók hann það fram, að þar sem hann væri ekki viss um, að þetta stæðist, þá vildi hann heldur, að ég kvæði upp úrskurð um þetta, sem ég og gerði. Jafnframt ákvað ég, til þess að gera félaginu ekki rangt til, að láta það fá 80 þús. kr. styrk úr ríkissjóði til þess að standast rekstrarkostnaðinn. Því er að vísu haldið fram, að félagið hafi átt kröfu á þessu fé, en það er ekki allskostar rétt. Það er rétt, að mjólkurbú eiga kröfu á að fá greiddan úr ríkissjóði ¼ hluta af byggingarkostnaði, en í þessu tilfelli lék mikill vafi á því, að stöðin væri svo praktiskt byggð, að rétt væri að leggja reikningslegt kostnaðarverð hennar til grundvallar fyrir þessum styrk. Hún varð mjög dýr, svo dýr, að hún kostaði langtum meira en slíkar stöðvar kosta nú, eða miðað við það, sem styrkur er greiddur út á þær. En hann er reiknaður út eftir teningsmáli þeirra, og við höfum fastan skala fyrir því, hvað hver teningsmetri eigi að kosta normalt.

Þá vil ég upplýsa það í þessu sambandi, að upphaflega var svo frá þessu gengið, að samkv. samtali, sem við Eyjólfur Jóhannsson áttum um þetta, ætlaði hann að reka stöðina svona í eitt ár og sjá, hvernig gengi, en jafnframt tók hann það fram, að hann vænti þess, að ég sýndi sér þá sanngirni að bæta sér eitthvað upp, ef hann gæti á eftir, við endurskoðun, sannað það, að hann hefði orðið fyrir tapi vegna þess, að gjaldið væri of lágt. Þessu svaraði ég á þá leið, að færi svo, að hann gæti sannað það við endurskoðun tveggja manna, er ég tilnefndi, að hann hefði rekið stöðina vel, sannað það að hafa ekki haft of margt eða óþarft starfsfólk, og að 2,2 aurar hefðu samt reynzt of lágt gjald, þá myndi ég tæplega sjá mér annað fært en greiða einhverja uppbót, Þetta var allt og sumt, sem ég lofaði. Litlu síðar en þetta samtal okkar átti sér stað, byrjar svo þessi skollaleikur. Stöðin er seld og sett á annara manna nöfn. Mönnum er neitað um að fá mjólk sína gerilsneydda, nema því aðeins, að þeir gangi í Mjólkursamlag Kjalarnesþings, en það var sama og segja við þá, annaðhvort hellið þið mjólkinni niður, eða gangið í þetta nýja samlag, þar sem ekki má selja hér í Reykjavík ógerilsneydda mjólk. Þetta gera umráðamenn stöðvarinnar, þrátt fyrir það, þó að það hafi þegar í upphafi verið sett sem skilyrði fyrir löggildingu stöðvarinnar, að hún hreinsaði mjólk utanfélagsmanna fyrir ákveðið hámarksverð. Hér er því ekki aðeins, að hámarksverðið sé brotið, heldur er líka svikið gefið loforð um starfrækslu stöðvarinnar, og skilyrðið fyrir löggildingu stöðvarinnar að engu haft. Þegar hér var komið, kallaði ég stjórn mjólkurfélagsins upp í stjórnarráð og ræddi við hana um málið, og sagði þeim, að ef þeir hefðu verið í mínum sporum og þannig leiknir sem ég, myndu þeir ekki hafa hikað við að taka stöðina leigunámi.

Ástæðan fyrir því, að ekki varð meiri hvellur, þegar ég svo tók stöðina leigunámi, var sú, að stjórn mjólkurfélagsins fann, að hún hafði gert moralskt rangt. Fann, að hún hafði komið óheiðarlega fram gagnvart mér. Ég þori nú að fullyrða, að engum ráðherra með óbrjálaða réttlætistilfinningu hefði látið sér detta í hug að láta þessa menn komast áfram með þetta.

Því hefir verið haldið fram, að ég beiti misjöfnum rétti, þar sem ég hafi ekki viljað skylda mjólkurstöðina í Borgarnesi til þess að taka mjólk utanfélagsmanna til hreinsunar fyrir ákveðið gjald. Ég er hissa, að menn skuli blanda þessu tvennu saman. Mjólkursamlag Borgfirðinga hafði nýlega selt kaupfélaginu stöðina og ekki sett neitt skilyrði fyrir því, að menn þyrftu að ganga í kaupfélagið til þess að geta fengið mjólk sína hreinsaða. Það hafði því ekkert brotið af sér, hvorki gagnvart ráðuneytinu né almenningi. Ekkert af því, sem mjólkurfélagið hér hafði gert, lá því fyrir í Borgarnesi. Hefði um það sama verið að ræða þar og hér, að mjólkursamlagið þar hefði brotið gerða samninga og svikið gefin loforð, myndi ég án efa hafa farið sömu leið þar og ég fór hér.

Þó að þær ástæður, sem ég hefi nefnt hér, nægi til þess að sanna það, að ég hafði fulla ástæðu til þess að gera það, sem ég gerði í þessu máli, koma aðrar ástæður líka til greina, sem jafnvel eru ennþá alvarlegri. Það er vitað, að það ríkti mikil óánægja með mjólkursöluna fram eftir árinu 1936. Það voru sífellt að berast kvartanir yfir vondri og lélegri mjólk. Mjólkurstrækur höfðu verið gerðar, þó að þær bæru lítinn árangur. En annað hafði gerzt, sem hafði sín áhrif, og það var það, að mjólkurhreinsunin var svo léleg hjá mjólkurhreinsunarstöðinni, að neytendur voru allmjög farnir að takmarka mjólkurneyzlu sína, og það svo, að mjólkurmarkaðurinn var alveg að hrynja saman. Um þetta getur hv. 2. þm. Rang. sannfærzt, vilji hann aðeins gera sér það ómak að fara upp í mjólkursamsölu og líta í bækur hennar. Það var hvað eftir annað búið að krefjast þess, að nýjar kælivélar væru settar í stöðina, en ekkert dugði. Hv. 2. þm. Rang. og Morgunblaðið hafa haldið því fram, að það hafi ekki fengizt innflutningsleyfi fyrir þessar vélar, en þetta er ekki rétt. Innflutningsleyfið var veitt daginn eftir, að um það var beðið. Þetta getur hv. þm. fengið betur sannað, ef hann vildi hringa til innflutnings- og gjaldeyrisnefndar. Nei, það var bara trassað að fá vélarnar upp, og trassaskapurinn verður þeim mun vitaverðari, þar sem þetta var á heitasta tíma árs, þegar hvað mest ríður á að kæla mjólkina vel, ef hún á ekki að skemmast. Þetta hafði líka þau áhrif, að sum heimili voru jafnvel alveg hætt að kaupa nokkra mjólk. Til upplýsingar um það, hversu mjög mjólkurmarkaðurinn hrundi saman, vil ég geta þess, að í bréfi, sem ég er með frá samsölunni, er sagt, að mjólkurneyzlan sé 13 þús. lítr. minni í júní 1936 en hún var í sama mán. 1935. Þrátt fyrir fólksfjölgunina í bænum munar svona gífurlega miklu á einu ári. Þetta var svo alvarlegt áhyggjuefni, að forstjóri samsölunnar kom til mín dag eftir dag og vakti athygli mína á þessu, hversu mjólkurmarkaðurinn væri stöðugt að hrynja saman, og að hann hefði ekki við að anza umkvörtunum og aðfinnslum. Mikið af mjólkinni væri 4. fl. mjólk, sem væri gerilsneydd og seld út sem neyzlumjólk. Ég vil nú spyrja, hvaða landbúnaðarráðh. hefði leyft sér að láta þetta ástand halda áfram. Ég geri ekki ráð fyrir, að nokkur hefði orðið til þess. Mjólkurmarkaður bændanna var í veði, og því varð að taka í taumana, og það áður en það varð of seint. Það eru engar getsakir, þó að ég segi það, að hér var verið að framkvæma hið svívirðilegasta mjólkurverkfall í gegnum mjólkurhreinsunarstöðina. Það má vera, að það hafi verið af trassaskap, en ekki yfirlögðu ráði. En það gilti hið sama. Markaðurinn hefði fallið saman innan stutts tíma, ef ekki hefði verið tekið í taumana. Það er ekkert launungarmál, að Sigurður Pétursson gerlafræðingur, sem rannsakaði stöðina, kærði óþrifnaðinn þar fyrir landlækni. Þessu var að vísu haldið leyndu fyrst vegna neytendanna, með því líka, að því, sem ábótavant var, var kippt fljótt í lag. Sem dæmi upp á það, hvernig ástandið var, má t. d. geta þess, að vél, sem átti að stassanisera mjólkina, gerði það alls ekki. Mjólkin kom úr vélinni alveg í sama ástandi og hún var, þegar henni var hellt í hana. Þessu ásamt öðru var strax kippt í lag eftir að stöðin var tekin. Þá var og fenginn sérfróður maður, sem hafði lært í Þýzkalandi, til þess að mæla bakteríumagn mjólkurinnar og hafa eftirlit með stöðinni. Mjólkin var svo flokkuð í 4 flokka eftir gæðum og verðið þvingað niður á lélegri mjólkinni, til þess að kenna mönnum að koma einungis með góða vöru. Síðan var gert við kælivélarnar, og var þá hægt að notast við þær, og því voru hinar nýju ekki settar niður strax. Með þessu móti var hægt að framleiða sæmilega vöru, enda hefir mjólkurmarkaðurinn haldizt jafn síðan, þótt hann væri að hrynja saman áður.

Ég hygg nú, að þær upplýsingar, sem ég hefi gefið, nægi til þess að sannfæra menn um, að þetta umrædda eignarnám var ekki gert að ástæðulausu, og ég álít sjálfur, að hefði ég ekki gert það, þá hefði ég framið stórfelld svik gagnvart bændastéttinni, sem ég var umboðsmaður fyrir, þar sem allt skipulag mjólkursölunnar var annars í voða, og markaðurinn sömuleiðis.

Ég ætla ekki að fara að ræða um vottorð það, sem hv. 2. þm. Rang. las upp og gefið mun vera eftir upplýsingum frá forstjóra mjólkurfélagsins, því að maðurinn, sem vottorðið gefur, mun aldrei hafa verið hér, en það skyldi gleðja mig, ef hægt væri að gera úr þessari stöð góða og vel nothæfa stöð, en ég hefi spurt 3 sérfróða menn um þetta, þar á meðal Jónas Kristjánsson mjólkurfræðing, og þeir telja allir, að það verði að byggja hér nýja mjólkurhreinsunarstöð fyrir neyzlumjólkina. Þessa gömlu stöð megi aðeins nota fyrir vinnslumjólk. Annars get ég ekki rætt mikið sjálfur um þetta atriði, til þess vantar mig eðlilega sérþekkingu. Annars skal ég ennfremur geta þess, að eftir að Jónas Kristjánsson kom úr ferðalagi sínu erlendis, frá því að athuga mjólkurhreinsunar- og mjólkurvinnslustöðvar, þá var hann ennþá sannfærðari, þegar hann kom en þegar hann fór, um það, að stöðin hér væri ónothæf, og hann hafði það eftir sérfróðum manni í Danmörku, sem hann hafði rætt það mál við, að það myndi hyggilegra að byggja hér nýja stöð en vera að lappa upp á þessa gömlu.

Ég hefði alls ekki farið að rifja upp hér það, sem á undan er gengið í viðskiptum mínum við þessa margnefndu mjólkurvinnslustöð mjólkurfélagsins, ef hv. 2. þm. Rang. hefði ekki farið svona á stað í umr., staðhæft margt, sem hann hafði rangar upplýsingar um.

Hvað snertir sóðaskapinn, sem var í stöðinni þegar hún var tekin, þá vil ég ráðleggja hv. þm. að leita sér upplýsinga um hann hjá héraðslækninum hér í Reykjavík og heilbrigðisfulltrúanum. Þar ætti hann að geta fengið skjalfest, hvernig þrifnaðurinn var. Ég vil ekki fara út í það nema sérstakt tilefni gefist til.