09.04.1937
Efri deild: 35. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (423)

18. mál, leiga á mjólkurvinnslustöð

*Þorsteinn Briem:

Ég vil spyrja hæstv. forseta, hvort ég megi fá þessa ræðu sem aths. fyrirfram og ég megi halda ræðu á eftir. (Forseti (SÁÓ): Það fer eftir því, hvað svarið verður langt). Ég skal ekki vera lengi. Hæstv. forseti steig niður úr sínu hásæti til þess að beina nokkrum spurningum til mín, og af því að þær eru svo einfaldar, get ég svarað þeim strax.

Út af fyrstu spurningunni, um það, fyrir hvaða menn mjólkursamlag Eyfirðinga hefði neitað að gerilsneyða og hvort það nokkurntíma taki mjólk af utanfélagsmönnum til gerilsneyðingar, skal ég taka það fram, að ég hygg, að ég hafi sagt „vinna mjólk fyrir utanfélagsmenn“. En viðvíkjandi því, hvort mjólkursamlag Eyfirðinga væri fúst til þess að taka mjólk til vinnslu fyrir utanfélagsmenn, vil ég taka það fram, að það fer ekki fleiri á milli en það, að bóndi hér í nágrenni við Reykjavík, sem ég talaði við á dögunum, sagði eftir Jónasi Kristjánssyni, sem er stöðvarstjóri mjólkurstöðvarinnar á Akureyri og landskunnur maður, að mjólkursamlagi Eyfirðinga dytti ekki í hug að taka mjólk af utanfélagsmönnum. Ég á erfitt með að trúa því, að þetta hafi ruglazt mjög, þar sem ekki er um lengri veg að sækja heimildir. Hvort mjólkurlögin gilda að öllu leyti á Akureyri, þurfti hæstv. forseti ekki að spyrja um, því að það er kunnugt, að þó að mjólkursamlag Eyfirðinga hafi haft heimild til þess að fá mjólkurlögin tekin í gildi á Akureyri, þá hefir það ekki notað á heimild ennþá sem komið er. (EÁrna: Það hefir ekki fengið þá heimild). Hefir það beðið um hana? (EÁrna: Já). Þetta eru þá nýjar upplýsingar, en það skiptir ekki miklu máli; ég vissi, að til skamms tíma voru mjólkurlögin ekki þar í gildi.

Út af því, sem hv. 2. þm. Eyf. var að spyrja um, við hvað ég hefði miðað mjólkurverðið, þá skildi ég satt að segja ekki, hversvegna hann þurfti að spyrja um slíkt, því að ég tók það greinilega fram í skýrslunni, sem ég gaf, að fitumagn mjólkurinnar hjá þessum bónda, sem ég miðaði við, hefði verið í bezta lagi bæði árin, um 3,7%, og þar sem fitumagnið var það sama bæði árin, kom það ekki til greina við verðsamanburðinn. Um það, hvort mjólkin hafi verið óhrein, hefi ég að vísu ekki skýrslur, en sá bóndi, sem þar á hlut að máli, er svo kunnur að vöndun vöru sinnar, að ég hygg, að þar hafi ekki út af borið hvorugt árið, svo að hreinleiki mjólkurinnar komi ekki heldur til greina við verðsamanburðinn.

Ég verð því að segja um það, sem hv. þm. lauk máli sínu á, að það væri ekkert að marka þennan verðsamanburð, af því að skýrslur vantaði um fitumagn og hreinleika mjólkurinnar, að það hafi verið nokkuð ofmælt. — Þar sem þetta átti aðeins að vera aths., hefi ég ekki ástæðu til þess að segja meira.