13.04.1937
Efri deild: 38. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (436)

18. mál, leiga á mjólkurvinnslustöð

*Þorsteinn Briem:

Hæstv. ráðh. kvartaði yfir því, að hann hefði týnt þeim niðurteikningum, sem hann gerði hér undir ræðu minni síðast, og gæti hann því ekki svarað henni. Það má segja, að það hafi e. t. v. verið heppilegt fyrir hann, að hann var svo týninn þá, en ég verð að telja, að hann hafi orðið fyrir öðru óheppilegra í sambandi við týnslu. Það var fremur leiðinleg óheppni, þegar hann varð fyrir því að tapa 50 dögum úr árinu. Þegar talað var um kælivélina, sem bilaði í mjólkurstöðinni, svo að stjórn stöðvarinnar bað um leyfi til að mega flytja inn aðra í staðinn, þá gaf hæstv. ráðh. þau svör, að það hefði alls ekki átt sér stað neinn dráttur á því, að það leyfi fengist, því það hefði verið veitt daginn eftir að um það var beðið. Nú er það upplýst, að um innflutningsleyfi fyrir vélina var beðið með bréfi þann 18. apríl, en að svarið kemur fyrst 12. júní. Þarna á milli eru 50 dagar, eins og milli páska og hvítasunnu, og þykir muna allmikið um það, ef svo langur tími tapast úr árinu. En þessi og þvílík málfærsla sýnir, hvað málstaðurinn er veikur, þar sem grípa þarf til slíkra ráða sem að stytta árið um 50 daga, til þess að bera eitthvað í bætifláka fyrir sér.

Í fyrri ræðu minni fór ég ekki inn á þau atriði, sem hv. 2. þm. Rang. talaði aðallega um, og ég ætla ekki heldur að gera það að þessu sinni, með því að þess gerist ekki þörf. Ég bar aðallega fram tvær kvartanir, sem komið hafa frá bændum á sölusvæðinu um það, hversu illa hefir tekizt um yfirstjórn mjólkurstöðvarinnar og þar að lútandi framkvæmdir eftir að hæstv. forsrh. hafði tekið stöðina leigunámi. Ég færði að því rök, að í stað þess, að vinnslukostnaðurinn hafði árið 1925 verið um 1/2 eyrir á lítra, þá komst hann eftir leigunámið ásamt nýjum kostnaðarliðum, sem settir voru á reikning bændanna, svo hátt, að einn mánuðinn nam þessi kostnaður 3 aurum á lítra. Þetta reyndi hæstv. ráðh. ekki að hrekja, enda hafði ég í höndum gögn fyrir því, þar sem voru reikningar frá mjólkurstöðinni sjálfri. Þar sest, að einn bóndi hefir afhent 2579 potta af mjólk frá 12. júlí til júlíloka. Af andvirði þeirra er fyrst tekið í júlímánuði kr. 25,80 í vinnsluafföll, og síðan nýr kostnaðarliður á ágústreikningi, vantalinn kostnaður í júlí, 2 aurar á lítra, eða kr. 51,59. Þetta verður samtals 77,39 kr. kostnaður á 2579 lítra mjólkur, og er þá mjólkurverðið, þegar þessi óvenjulegi frádráttur er tekinn til greina, komið niður í 23,8 aura á lítra, þó útborgunarverðið sé talið 26,8 aurar, í staðinn fyrir að meðalverðið yfir allt árið 1935 var 25,6 aurar. Þrátt fyrir það, þótt vinnslukostnaðurinn væri sama sem enginn haustmánuðina, þegar flytja þurfti mjólk að í bæinn, þá verður meðalverðið frá 12. júlí til ársloka samt einum eyri lægra heldur en árið á undan, vegna þessa nýja kostnaðar, sem dreginn er frá því.

Það er að sumu leyti skiljanlegt eftir á, að þessir nýju kostnaðarliðir hafa orðið svona háir, þegar vitað er, að bætt hefir verið dýrum starfsmönnum við mjólkurstöðina, og auk þess ýms mistök orðið á stjórn fyrirtækisins.

Þá hafa komið fram ýmsar kvartanir frá bændum yfir því, að yfir sumarið, þegar kýrnar ganga á grasi, hafi orðið áberandi munur á fitumagni mjólkurinnar. Eru þau dæmi mörg, að fitumagn mjólkurinnar hefir hoppað upp og niður að ólíkindum, og skal ég tilgreina eitt dæmi, þar sem í hlut á maður, sem taka verður trúanlegan, því hann er einskonar opinber starfsmaður, eftirlitsmaður Nautgriparæktarfélags Reykjavíkur. Hann lét kýr sínar ganga á túni yfir júlímánuð og það sem eftir var sumars, og var mjög undrandi yfir því, þegar hann fékk mjólkurreikning sinn yfir júlímánuð, að fitumagnið var þar ekki talið nema 2,9%, en það fitumagn, sem þarf að vera í mjólkinni til þess að hún sé fyrsta flokks, er 3,3%. Með því að þessi maður er, kunnáttumaður í fitumælingum, mældi hann sjálfur mjólkina heima hjá sér eftir að hann fékk reikninginn, og reyndist þá fitan 3,8%. Fór hann síðan með mjólk sjálfur á mjólkurstöðina og heimtaði hana mælda að sér ásjáandi, og mældist fitan nákvæmlega eins og þegar hann sjálfur mældi hana heima, 3,8%. En þegar hann fær reikning næst, kemur í ljós, að á honum er fitumagnið 3%. Slík mistök eru tíð að dómi bændanna sjálfra. Ég skal taka það fram, að samkv. vottorði frá eftirlitsmanninum, sem ég hefi í höndum, gengu kýr hans allan tímann á ræktuðu túni, og engin þeirra hafði borið frá því í febrúar, né átti að bera fyrr en í nóvember, svo allar ytri ástæður, sem áhrif geta haft á fitumagn mjólkur, virtust þarna útilokaðar.

Þá hafa orðið greinileg mistök á gerlarannsókn mjólkurinnar, sem raunar hefir komið fram opinberlega af bréfi stöðvarstjórans sjálfs, þar sem hann jafnvel skopast að því, að menn skuli ætlast til, að sýnishornaglösin séu sett í ísvatn þangað til sýrumagn mjólkurinnar er prófað. Það er greinilegt af skrifum stöðvarstjórans, að hann hefir haft þann hátt, sem furðulegur er, þar sem það er vitanlegt hverri húsmóður, í sveit a. m. k., að svo má ekki fara að. Hann hefir sem sé hellt saman morgunmjólkinni og kvöldmjólkinni, tekið síðan á prufuglösin og látið þau standa ókæld þangað til tök hafa verið á að rannsaka sýrumagn þessara sýnishorna. Slík aðferð er villandi og gefur ekki rétta hugmynd um gerlagróður mjólkurinnar, þegar hún kemur til búsins. Hafa líka ýmsir bændur kvartað yfir því, að þeir hafi orðið fyrir skaða af því, að gerlagróður mjólkurinnar hafi ekki verið rétt mældur í mjólkurstöðinni, og þeir því fengið mjólk sína í annan gæðaflokk heldur en orðið hefði, ef rétt aðferð hefði verið viðhöfð við gerlarannsóknina.

Það lítur því svo út, að bændur a. m. k. líti svo á, að óreglan og hirðuleysið hafi fyrst byrjað eftir að ráðh. tók mjólkurstöðina leigunámi. Hæstv. ráðh. er nú flúinn úr öllum sínum fyrri vígjum; eftir er aðeins eitt, sem má heita vígi rógburðarins um Mjólkursamlag Kjalarnesþings, þar sem hann útmálar þann sóðaskap, sem átt hafi sér stað undir þess stjórn. En hæstv. ráðh. gætir þess ekki, að um leið og hann fjölyrðir um hinar ótrúlegustu sögur, sem fáir munu trúa, um sóðaskap í mjólkurstöðinni, þá setur hann snöruna að sínum eigin hálsi. því hefði slíkur sóðaskapur átt sér stað í mjólkurstöðinni sem hæstv. ráðh. vill vera láta, þá væri þar um stórvítavert eftirlitsleysi af hans hálfu að ræða. Ríkisstj. hefir fengið lög um matvælaeftirlit, og hún hefir sína skörpu heilbrigðislöggjöf. Hún hefir embættismenn í sinni þjónustu til að líta eftir slíkum hlutum; hún hefir sinn héraðslækni, sinn landlækni, og af bæjarins hálfu heilbrigðisfulltrúa. Vill hæstv. ráðh. bera á þessa embættismenn og starfsmenn hins opinbera, að þeir séu sekir um svo vítaverða vanrækslu sem þeir hljóta að vera, ef þær ásakanir eru réttar, sem hann ber blákalt fram í þessari hv. d., þegar hann talar um sóðaskapinn í mjólkurstöðinni.

Það hefir verið sýnt fram á það hér af hv. 2. þm. Rang., að þessi orð hæstv. ráðh. eru staðlausir stafir, sem vænta mátti, en jafnvel þó hæstv. ráðh. hefði haft í þessu efni rétt fyrir sér, þá voru þær ásakanir, sem hann vildi beina að ráðamönnum mjólkurstöðvarinnar og Mjólkursamlags Kjalarnesþings, fyrst og fremst ásakanir á hann sjálfan og ríkisstj., sem yfirstjórn heilbrigðismálanna og sem yfirstjórn landbúnaðarmálanna. Það er þannig sama, þó hæstv. ráðh. flýi úr einu víginu í annað, og þó hann sé hrakinn þaðan og aftur úr næsta stað, þá getur hann hvergi numið staðar. Jafnvel við síðasta hálmstráið, sem hann reynir að hanga á, er honum ekki vært, því einnig þar berast böndin að honum sjálfum; þar hefir hann snúið snöruna að sínum eigin hálsi.