13.04.1937
Efri deild: 38. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

18. mál, leiga á mjólkurvinnslustöð

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er nú orðinn stuttur tími til andsvara, enda get ég farið fljótt yfir sögu, þar sem þessi deila snýst einvörðungu um örfá atriði. Viðvíkjandi maðkaða skyrinu og myglaða ostinum tek ég það fram, að ég hefi ekki sagt, að fyrir lægu vottorð um þetta. Hv. þm. spurði mig einmitt að þessu, og ég sagði það ekki vera. Því hefir verið haldið fram, að svona hafi farið undir okkar stjórn, en það hefir verið afsannað. Eftir að stjórn stöðvarinnar komst í aðrar hendur, hefir þrifnaður verið stórum bættur, og hefir allt verið óaðfinnanlegt í þessu efni síðan. Ég vil taka það fram, að gerlafræðingurinn átti ekki að líta eftir þessu, og að héraðslæknir og heilbrigðisfulltrúi hafa ekki gert skyldu sína, er þeirra sök, en ekki mín. Málið liggur því ljóst fyrir.

Þá röksemd, að langur gangur sé á milli kjallarans og mjólkurgeymslunnar, svo að maðkar og ýlda geti ekki komizt í mjólkina, munu fáir neytendur taka gilda. Það er staðreynd, að þessi sóðaskapur átti sér stað, eins og frá er sagt í skýrslu Ingimars Jónssonar í Nýja dagblaðinu í dag, og geta menn þá ímyndað sér, hvernig umgengni hefir verið að öðru leyti.

Það er rétt, eins og tekið hefir verið fram, að skilyrði fyrir því, að eignir megi taka eignarnámi, eru tvennskonar. [Hér munu hafa fallið niður nokkur orð við skrifaraskipti.] Í fyrsta lagi er það, að þeir neituðu að gerisneyða fyrir það gjald, sem ég ákvað, 2,2 aura, en buðust til þess að taka það, sem þeir kölluðu kostnaðarverð. — Um þetta atriðið er það að segja, að því hefir verið haldið fram, að ég hafi ekki farið eftir till. Jónasar Kristjánssonar og þetta gjald hafi verið byggt á misskilningi. Það gjald, sem ég hafði ákveðið 2,2 aura, hafi átt að vera 3,2 aurar, og að það loforð, sem framkvæmdarstjórinn gaf mér, hafi hann byggt á því, að hann hafi farið eftir till. Jónasar Kristjánssonar. Þess vegna beri það á milli, að hann hafi átt við 3,2 en ég við 2,2 aura. Það liggur hér fyrir álitsgerð Jónasar Kristjánssonar um það, hvað myndi kosta að gerilsneiða í stöðinni, bréf sem hann skrifaði ráðuneytinu og ég hefi látið taka afrit af, jafnframt liggur fyrir yfirlit yfir 8 mánaða rekstur stöðvarinnar, og hver einasti liður er þar talinn, húsaleiga miðuð við mat á rúml. 20 þús. kr., kaupgjald skv. reikningi M. R., olía og rafmagn, hreinsivörur, viðhald o. fl. þegar miðað er við 2,2 aura, þá er miðað við 8 mánaða rekstur stöðvarinnar, og það voru þeir reikningar, sem andstæðingar mínir í þessu máli gátu ekki hrakið á nokkurn hátt, þess vegna var ekki hægt annað en að leggja þá til grundvallar, og það stendur í þessum till. Jónasar Kristjánssonar, að flöskugjaldið gangi til samsölunnar, en að hún greiði Mjólkurfélagi Reykjavíkur flöskur og efni í flöskuhettur eins og það raunverulega kosti, svo að það er ekkert um að villast að þetta er gert upp af Jónasi Kristjánssyni á þann hátt, að það þurfti ekki að gefa neitt loforð um að reka stöðina, ef miðað væri við 3,2 aura, því að þá var vitanlega um verulegan gróða að ræða, og ef hægt er að sanna nokkurn hlut, þá liggur það fyrir, að þetta loforð var gefið. — Afrit af þessu bréfi getur hv. 2. þm. Rang. fengið að sjá, og vænti ég þá, að því sé fullsvarað, að ég hafi ekki raunverulega miðað við það, sem Jónas Kristjánsson áleit rétt í þessu máli. — Það var eytt 4 mánuðum í það að leyfa Mjólkurfélagi Reykjavíkur að svara þessum aths. og sýna fram á, að það hlyti að skaðast á því að gerilsneyða fyrir þetta gjald, og þess vegna var það sama og að neita að gerilsneyða, að segja eftir að þetta hámarksgjald hefði verið sett, að þeir skyldu gerilsneiða fyrir gjald, sem þeir vildu ákveða sjálfir. Það skiptir mörgum þúsundum, sem talið var, að stöðin hefði grætt — og er það viðurkennt af Eyjólfi Jóhannssyni — á því að gerilsneiða fyrir gjald, sem hann gaf upp fyrirfram, að myndi vera kostnaðarverð. Þá var það skylda mín að ákveða kostnaðarverðið, og ég staðhæfi, að það hafi verið ákveðið svo nákvæmt og samvizkusamlega sem tök voru á, og þetta var hægt, af því að reikningar lágu fyrir um það hvað gerilsneyðingin kostaði.

Ég skal svo ekki fara lengra út í þessi atriði, þó að hér sé um æðimikið umræðuefni að ræða, en ætla þá að snúa mér, en þó aðeins með örfáum orðum, að hinu atriðinu, nefnilega hver reksturinn á stöðinni hafi raunverulega verið lélegur.

Ég ætla ekki að tefja tímann með því að lesa upp aftur vottorð um það, hvernig mjólkursalan minnkaði í júní og júlí vegna þess óorðs, sem varan hafði fengið. Ýmsir voru jafnvel hættir að kaupa mjólk. Því hefir verið slegið fram, að þetta kynni að hafa verið fóðrinu að kenna, en ég vil benda á, að þetta var í júní og júlí, þegar fóðurblöndunin, sem kýrnar fá, á að vera í bezta lagi. Ef ætti að bæta einhverju við til að viðbótar til þess að sýna fram á, hver vörugæðin hafi verið óverjandi, þá væri það vottorð Sigurðar Péturssonar. Þegar byrjað var að skoða mjólkina, kom það í ljós, að mikið af þeirri mjólk, sem stöðin tók á mót, var þriðja og fjórða flokks. Mjólkin var ekki skoðuð þegar hún kom í stöðina, og þó að hún væri stórskemmd, var hún sett í gerilsneyðingu og úr gerilsneyðingunni kom hún þannig, að ekki var hægt að nota hana. Ég hefi ekki tíma til þess að lesa þetta vottorð, en ég vil aðeins taka upp úr því þessa setningu: „Af ofanrituðu er sýnilegt, að í mjólkurstöð M. K. er tekið á móti mjög miklu af mjólk, sem er ónothæf sem neyzlumjólk.“ Þetta er nóg skýring til þess að sýna, hvernig stóð á því, að mjólkurmarkaðurinn var að falla saman og að bæjarbúar fengu þá tegund af mjólk, sem hér hefir verið lýst. Ég get bætt því við, að ég hefi spurt samsöluna um það, hvernig hafi gengið með sölu á þessu tímabili, og ég hefi fengið þetta svar: Sem svar við fyrirspurn yðar, herra forsætisráðherra, leyfum vér oss hér með að tilkynna yður, að í júnímánuði 1936 var ásigkomulag mjólkurinnar hér hjá mjólkurstöðinni svo bágborið að til stórvandræða horfði. Kvörtunum, sérstaklega yfir hvað mjólkin væri súr, rigndi yfir oss frá morgni til kvölds, enda reyndist geymsluþol mjólkurinnar þá um skeið að vera svo lítið, að svo að segja daglega kom það fyrir, að mjólk sem flutt hafði verið frá stöðinni til útsölustaða, varð samstundis að aka þaðan aftur til stövarinnar sem ósöluhæfri. Umkvartanir vorar til þáverandi mjólkurbústjóra um þetta vandræðaástand báru engan árangur. Það var fyrst eftir að núverandi mjólkurbústjóri kom að stöðinni, í fyrri hluta júlímánaðar 1936, að breyting varð á þessu til batnaðar.“ (PM: Hver hefir gefið þetta vottorð?). Forstjóri mjólkursamsölunnar. Það er þetta vottorð ásamt vottorði Sigurðar Péturssonar, sem sýnir nægilega hvernig ásigkomulagið var. — Það eina, sem má segja um þetta, er það, að ekki sé lögð sérstök áhersla á þetta í grg. fyrir l., en það er af því, að það var ekki hægt að segja fólkinu í bænum, hvernig rekstur stöðvarinnar var. — En þessar ástæður eru ekki allar hér með taldar, okkur grunaði það þegar í okt. 1935, að ólag væri á rekstri stöðvarinnar, og stöðugar kvartanir komu til samsölunnar. Það var stundum svo þessa mánuðina, að starfsfólkið hafði ekki nokkurn frið, því að náttúrulega var samsölunni og mjólkurskipulaginu kennt um allt saman! Þegar byrjað var að skoða þetta í okt. 1935, var eftir kröfu frá landlækni, sem hafði grun um, að framleiðslan frá stöðinni væri slæm, fenginn gerlafræðingur, Sigurður Pétursson, og hann segir í vottorði, sem hann hefir gefið: „Þegar mjólkurrannsóknirnar hófust í byrjun október 1935, fullnægði engin af þeim prufum, sem teknar voru af mjólkinni, þeim vægustu kröfum, sem gerðar eru til gerilsneyddrar mjólkur.“ M. ö. o., mjólkin var 100% ófullnægjandi, gerlamagnið var svo mikið; og ef taugaveiki hefði komið upp í nágrenni Reykjavíkur og frá einu heimili hefði verið sýkt mjólk, gat veikin verið komin um allan bæinn á svipstundu. Svo hroðalegt var ástandið, og þetta stafaði af því, að ekki var eins og venja er hafður lærður gerlafræðingur, sem rannsakaði, hvernig ástandið væri. — Og það var samsalan, sem kom því til vegar, að þessu eftirliti var komið á og hefir verið síðan, og þessi maður hefir sett upp rannsóknarstofu hér rétt hjá til þess að fylgjast með þessum málum. (PM: Mig langaði til að spyrja hæstv. forsrh., hvernig stæði á því, að hann hafi látið allt þetta viðgangast á meðan hann var lögreglustjóri?). Það er vegna þess, að ein tegund löggæzlunnar, heilbrigðiseftirlitið, heyrir ekki undir lögreglustjóra, heldur heilbrigðisfulltrúa. Hann er yfirmaður þeirra mála. Og svo held ég áfram: „Helzt þetta þar til 18. nóvember sama ár, að plötupasteur stöðvarinnar var tekinn úr notkun, en þá breyttist þetta mjög til batnaðar“. Hér liggur fyrir línurit yfir gerlamagn mjólkurinnar. „Orsakirnar voru: slæm mjólk frá framleiðendum, ónóg kæling á mjólkinni eftir gerilsneyðinguna og léleg hirðing á þeim tækjum, sem mjólkin var meðhöndluð í ... Um miðjan júlí 1936 var meðal annars kælingin aukin nokkuð, og batnaði þá mjólkin mikið.“

Ég held, að eftir að þessi mál eru komin í það lag, sem þau eru nú komin í, þá höfum við ekki bætt okkur á því að vera að rifja upp þessa sorgarsögu. Við treystum þessari stöð til að vinna þetta verk vel, en það reyndist nú svona. Og ef þarna hefði ekki verið tekið í taumana, þá hefði ég tvímælalaust ekki gert skyldu mína, hvorki gagnvart bændunum, sem verið var að skemma markaðinn fyrir annaðhvort af trassaskap eða ásetningi, eða neytendunum í þessum bæ, sem voru í meiri og minni hættu. Þetta tæki, sem stöðin átti í pöntun, er atriði, sem mikið hefir verið deilt um, og aðalandstæðingur minn, hv. 2. þm. Rang., lagði áherzlu á það, að ég hefði sagt ósatt, að leyfi fyrir þessu kælitæki hefði fengizt daginn eftir að beðið hefði verið um það. Það má segja, að báðir hafi nokkuð til síns máls, því að hið raunverulega sanna í þessu máli er það, að beðið var um þetta leyfi. Það kom bréf til gjaldeyrisnefndarinnar 24. apríl 1936, en eins og tekið er fram í bréfi, sem forstjóri gjaldeyrisnefndarinnar hefir skrifað, segist hann hafa meðtekið þetta bréf, en „engin sérstök skýring fylgdi með umsókninni ...“ En daginn eftir að form. mjólkursölunefndar skýrði frá því, að þetta tæki væri nauðsynlegt, fékkst leyfið.

Ég vil benda á það, að þó að leyfið hefði fengizt strax, þá er það vitað mál, að vélarnar gátu ekki verið komnar hingað fyrr en eftir tvo mánuði, því að eftir því, sem forstjóri M. R. hefir upplýst, tekur verksmiðjan, sem framleiðir þessar vélar, 6 vikna afhendingarfrest; m. ö. o., það hefði verið komið langt fram í hitatímann, þegar vélarnar hefðu verið komnar og búið hefði verið að setja þær niður. Svona var umhyggjan. Í öðru lagi voru til gamlar vélar, sem núv. forstjóri tók þegar í stað í notkun, og það tókst að gera mjólkina þannig úr garði, að hún var mjög sæmileg úr þessum kæli, sem ekki hafði verið notaður. Hann var að vísu ekki góður, en það var hægt að notast við hann.

Ég mun svo ekki sjá ástæðu til að taka aftur til máls í þessu máli. Þetta mál er þannig, að ég staðhæfi, að ég hefði vanrækt skyldu mína, ekki aðeins gagnvart neytendunum, heldur og bændunum, ef ég hefði ekki tekið stöðina leigunámi eftir að hún hafði ekki látið sér segjast að bæta ráð sitt. Ég mun þess vegna rólegur mæta fyrir landsdómi í þessu máli, eins og form. Sjálfstfl. hefir verið að gefa í skyn, að væri eðlilegt, að ég gerði fyrir framkomu mína í málinu.