20.04.1937
Neðri deild: 44. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

18. mál, leiga á mjólkurvinnslustöð

*Pétur Ottesen:

Ég veit ekki, hvernig átti að skilja ummæli hæstv. ráðh. viðvíkjandi Sláturfélagi Suðulands. Átti að skilja það svo, að þar væri í einhverju svo áfátt, að líka ráðstöfun þyrfti að gera þar? Það er víst ekki nóg, að hæstv. ráðh. fari í ránsferð á hendur félagsskap þeirra manna, sem stóðu að þessari stöð, þó hann ekki fari með samskonar rangindi og aðdróttanir gagnvart Sláturfélagi Suðurlands. (Forsrh.: Hvernig var með kjötverðið þar?). Hver ræður kjötverðinu í landinu? Er það ekki hæstv. ráðh. gegnum þá nefnd, sem hann hefir skipað? Það er ráðh. sem ber ábyrgðina á því, eða a. m. k. á þeim manni, sem mestu ræður um það í nefndinni, hvernig kjötverðið er ákveðið. Það er bezt fyrir hæstv. ráðh. að snúa sér til hans viðvíkjandi kjötverðinu. En ef hæstv. ráðh. ætlar að fara í svipaða herferð gegn Sláturfélagi Suðurlands og hann hefir farið gegn félagsskap þeirra manna, sem stóðu að mjólkurstöðinni, þá eru þar menn til að taka á móti slíku, þó hann þykist mikill fyrir sér og hafi gengið í skóla hjá sósíalistum í þinginu.