23.03.1937
Neðri deild: 25. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

86. mál, alþýðutryggingar

Garðar Þorsteinsson:

Ég vil fara fram á, að þessu máli verði frestað, úr því búið er að leyfa að taka það hér til 2. umr.

Ég álít það ekki í samræmi við þá venju, sem gildir um afgreiðslu þeirra mála, sem vísað er til n., að ekki skuli hafa verið haldinn formlegur fundur um þetta mál. Og þó að því væri sleppt, þá má ekki minna vera en það kæmi fram nál. um það frá meiri og minni hl. n.

Ég vil upplýsa hæstv. forseta um það, að ég hefi afhent nál. um þetta mál til prentunar. Vildi ég því óska þess, að þetta mál yrði ekki rætt fyrr en lokið er við að prenta það nál. og því hefir verið útbýtt.

Ég tel það fjarri allri venju, að þvinga málið áfram án þess að sá meiri hl., sem hv. 1. landsk. telur sig formann fyrir — sem ég verð að draga í efa, að sé rétt, þ. e. a. s. að meiri hl. allshn. sé þessu samþykkur — hefir a. m. k. skilað einhverju nál.

Vil ég leyfa mér að æskja þess við hæstv. forseta, að hann lofi þessum tveimur nál. meiri og minni hl. að koma fram fyrir hv. þdm. áður en málið verður rætt.