23.03.1937
Neðri deild: 25. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

86. mál, alþýðutryggingar

*Sigurður Kristjánsson:

Það var ég, sem bað um frest í þessu máli, eða réttara sagt, ég bað um, að því yrði vísað til allshn., af því ég sá, að þetta var mál, sem snerti hagsmuni margra manna, sem ekkert tækifæri höfðu fengið til að láta vilja sinn í ljós um málið.

Hæstv. atvmrh. hefir talað hér af miklum þótta um málið, og get ég ekki tekið mikið mark á ræðu hans eða þess manns, sem talað hefir fyrir n. Sá maður, hv. 1. landsk., sagði, að þetta væri ofur einfalt mál, en það var þá ekki einfaldara en það, að hann gat ekki komið með neina ástæðu fyrir þeirri staðhæfingu, að ekki þyrfti að athuga málið í n. Hinsvegar gaf hv. þm. í skyn, að hann hefði þrjá af hv. nm. í vasa sínum, en ég hefi enga sönnun fyrir því, að þessir hv. þm. séu vasagull hans, og leyfi mér að draga það stórlega í efa, að svo sé. Hæstv. ráðh. var að tala um málþóf, en það er hin mesta fjarstæða, því ekki getur heitið, að talað sé um málið fyrr en við þessa umr., og í hv. Ed. var málið knúið fram með afbrigðum, þannig að 2. og 3. umr. var lokið á sama degi. Það er því fullkomin frekja hjá hæstv. ráðh. og situr illa á honum að vera með vonzku yfir því, að þdm. vilja ræða málið, ekki sízt þegar n. sú, er átti að athuga frv., hefir algerlega brugðizt skyldu sinni. En sérstaklega á það illa við af manni, sem hefir gert, því miður með árangri, mjög harðvítugar tilraunir til þess að sjá um, að málið sætti ekki venjulegri meðferð. Það var knúið fram í Ed. með þeim hraða, að það varð að fá afbrigði frá þingsköpum, og 2. og 3. umr. var lokið á sama degi. Þess vegna er það, að ef um venjulega meðferð er að ræða á þessu máli, er hún algerlega og eingöngu frá hendi hæstv. atvmrh. og þeirra, sem eru í hans þjónustu í málinu.

Ég hlýt að ræða þetta mál alveg eins og efni standa til, án tillits til, hvort þeir, sem hlut eiga þar að máli, hæstv. atvmrh. og hv. frsm. allshn., eru við eða ekki. Það skal vera á þeirra ábyrgð, þó að þeir bæti gráu ofan á svart með því að sýna málefninu þá fyrirlitningu, sem birtist í fjarveru þeirra. Það sýnir ekki annað en það, að þeir eru komnir á það stig með málið, að þeim þykir ekki nema eðlilegt að bæta ókurteisi við frekjuna, sem á undan er gengin með að reka á eftir málinu. Ég mun samt ræða málið, en þó biðja einhvern, sem hér er viðstaddur, að skila því, sem ég kann að segja eða kann að verða árásarkennt til hæstv. atvmrh. og hv. frsm. meiri hl. allshn., sem svo kallar sig, en ég hefi enga sönnun fyrir, að sé frsm. neins meiri hl.

Ég vil þá fyrst koma að því, að bæði hæstv. atvmrh. og frsm. voru að hælast um yfir því, að þetta mál hefði gengið fram ágreiningslaust í fyrra. En til þess er því að svara í fyrsta lagi, að þá var ekki búið að ganga frá alþýðutryggingunum, og það virðist svo, og ég held, að óhætt sé að lýsa því yfir, að þeir, sem um málið hugsuðu, og ég vænti, að allir hv. þm. hafi litið svo á, að þetta frv. um frestun á 62. gr. alþýðutryggingalaganna væri borið fram vegna þess, að sjóðsstjórnin þyrfti að fá hæfilegan frest til þess að geta sinnt þeim útborgunum, sem hún, þyrfti e. t. v. að inna af hendi, ef einhverjir af þeim starfsmönnum, sem þar greinir, öðluðust rétt til þess að skipta um tryggingar og heimta gjald sitt úr lífeyrissjóði embættismanna. Það var ekki nema sanngjarnt, að sjóðsstjórnin fengi einhvern frest, þrátt fyrir að sjóðurinn mun ekki vera mjög lítill, líklega um 2 millj. kr., og ólíklegt, að hann sé svo fastnegldur annarsstaðar, að ekki sé hægt að svara útborgunum, sem svöruðu 5% úr sjóðnum. Nú horfir þetta öðruvísi við, þannig, að það er verið að reyna að loka þessum sjóði fyrir þeim, sem eiga hann, og eiga nú samkv. gildandi lögum rétt til þess að skipta um tryggingar og taka þá inneignir sínar úr sjóðnum í sínar vörzlur. Það er verið að gera tilraun til þess að loka sjóðnum fyrir þessu fólki þangað til ný lög koma í gildi, er skylda þetta fólk til þess að kaupa tryggingar í þessum sjóði áfram og útiloka það frá því að geta keypt tryggingar, sem meira eru við hæfi launakjara þess. Ég held, að bezt sé, að hv. þm. geri sér það ljóst og láti ekki blekkjast af því, að þessi frestur er til þess að geta komið hnappeldunni á þá menn, sem fá myndu rétt samkv. 62. gr. alþýðutryggingalaganna. Þess vegna er, ef menn líta svo á, að sanngjarnt sé að leyfa þessu fólki að velja um tryggingar, og ef menn líta svo á, sem ég fullyrði að sé, að þessar tryggingar séu of dýrar fyrir margt af þessu fólki, sem er skyldað til að kaupa þær, þá er ekkert annað en að drepa þetta frv.

Þegar minnzt er á þessi væntanlegu lög, er leiðinlegt að vita ekkert, hver þau eru. Það er leiðinlegt fyrir okkur, sem vitum, að þar vofir eitthvað yfir. En það er líka leiðinlegt fyrir þá, sem hafa þau á prjónunum, að þeir skuli ekki treysta sér tal að segja, hvað í vændum sé. Hvers vegna skýrði ekki hv. frsm., sem svo kallaði sig, frá því, hvaða dýrð það er, sem eftir er beðið. Ég verð að líta svo á, að þeir geri það, ekki annaðhvort af þeirri ástæðu, að þeim sé það ekki kunnugt, eða af því, að þeir telji það ekki meðmæli með sínum málstað. Ég vil í þessu sambandi hiklaust segja frá því, þó að það sé þungt til ámælis hæstv. atvmrh., að hann hafi sagt svo frá, að þetta frestunarframvarp í fyrra sé í fullu samræmi við óskir þess fólks, sem það snertir mest, en það er fólk, sem vinnur við landssímann. Hann fór að skýra mér frá þessu. En nú er skorið úr þeirri deilu, því að nú er komin yfirlýsing og áskorun frá hverjum manni við landssímann, sem getur notið þessa réttar, um að krefjast þess, eða a. m. k. óska þess eindregið, að þetta frv. verði fellt. Ég ætla, að það sé komin áskorun frá 100 manns, og þó vissi fólkið ekki um, að þetta var á prjónunum, fyrr en fyrir einum sólarhring. Þegar það er svona fljótt að athuga og ákvarða, þá má ganga út frá því sem vísu, að það telur ekki þetta frv. sér til hagsbóta. Ég held, að þessi áskorun sé svo að segja frá hverjum manni, sem réttindi hefir samkv. 62. gr. alþýðutryggingalaganna. Ég veit það raunar ekki með vissu; ég veit bara, að við símann starfa tæplega 200 manns, en réttindi hafa þeir einir, sem eru innan 40 ára aldurs. Geri ég ráð fyrir, að um helmingur símafólksins sé á því aldursskeiði.

Hv. 8. landsk. fór nokkuð nákvæmlega út í að skýra frá, hvert misrétti þetta frestunarfrv. fer fram á gagnvart því fólki, sem venjulega er kallað sýslunarmenn, til aðgreiningar frá föstum embættismönnum. Hann sýndi fram á, að langfjölmennasta starfsmannastéttin — símafólkið — tæki laun sín á mismunandi hátt. Á þetta er aldrei of mikil áherzla lögð, því að þegar ríkisvaldið leyfir sér að leggja þær kvaðir á menn, að kaupa sér tryggingar, þá má ekki minna vera en að ríkisvaldið athugi í fyrsta lagi, að þessar kvaðir séu ekki þyngri en mönnum er fært að inna af hendi. En hér eru menn skyldaðir til þess að kaupa dýrari tryggingar heldur en margt af þessu fólki rís undir, því að launakjör þess eru svo hörmuleg, að það gæti ekki komið til mála að bjóða nokkrum mönnum upp á slíkt, ef ekki væri hægt að benda á, að ástæður ríkisins eru hörmulegar. Í annan stað á ríkisvaldið, þegar það leggur slíkar kvaðir á, að gæta þess, að þær komi nokkurnveginn jafnt niður. En af því, sem hv. 8. landsk. skýrði frá, er það ljóst, að sumt af því fólki, sem tekur sömu launafúlgu alls yfir árið, greiðir 100% hærri tryggingagjöld heldur en annað af þessu fólki. Þetta er svo mikið misrétti, að það er alveg óviðunandi. Þetta misrétti stafar svo aftur af því, að ríkisvaldið, sem ákveður fjöldann af þessum sýslunarmönnum og starfsfólki við þessar ríkisstofnanir, skapar því svo hörmuleg launakjör, að til þess að svelta það ekki í hel, veitir það ýmsum launauppbætur. Það greiðir aðeins af því, sem talin eru föst laun, en aðrir koma inn með samningum, og allar þess árstekjur eru kallaðar föst laun, og af því verður fólkið að greiða 7% í þennan lífeyrissjóð.

Ég skal játa það, að það er dálítið einkennilegt í þessu máli frá hendi okkar, sem hreyft höfum andmælum gegn frv., að okkur verður langtíðræddast um það fólk, sem er í þjónustu símans. En það stafar fyrst og fremst af því, að sú starfsmannastétt er langfjölmennust af þeim starfsmannastéttum, sem lögin snerta. Í öðru lagi er þetta næstum eina fólkið, sem hefir aðstöðu til þess svo skyndilega að láta sinn vilja í ljós um þetta frv. Það hefir áður verið bent á, að nokkur hluti af öðru starfsfólki en er við símann hafði fengið tækifæri til þess að breyta um tryggingar þá fáu daga, sem urðu milli gildistöku frestunarlaganna og gildistöku alþýðutryggingalaganna. Þetta atriði út af fyrir sig, að nokkrir menn fengu vitneskju um þetta og gátu notað tækifærið, það skapar nýtt misrétti.

Ég hefi hér mörg atriði á að benda í þessu máli, sem ég tel miklu máli skipta, en mér þykir óviðkunnanlegt að tala fyrir tómu húsi og vil því fara fram á við hæstv. forseta, fyrst máli þessu er sýnd svo mikil lítilsvirðing af þeim mönnum, sem vilja berja það fram, að þeir ganga flestir burt úr d. og loka sig inni, að hann fresti þessari umr. og taki málið út af dagskrá. Mun ég þá ekki lengja mál mitt að sinni.