23.03.1937
Neðri deild: 25. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

86. mál, alþýðutryggingar

*Forseti (JörB):

Ég vil nú biðja menn að gera ekki eldhúsdag út af þessu; það er óþarft. Ef andstæðingar málsins eru það liðsterkir, að þeir geti fellt það, þá gefst tækifæri til þess við atkvgr. Viðvíkjandi þeim efasemdum, sem hafa komið fram hjá sumum hv. þm. um, að hv. 1. landsk. hefði umboð til að tala f. h. þeirrar n., sem hér um ræðir, vil ég taka það fram, að ég tek það trúanlegt, að hann tali f. h. nefndarinnar, þar sem meiri hl. hv. allshn. var viðstaddur og hreyfði ekki andmælum, enda er það ekki óvenjulegt, að slík yfirlýsing sé flutt fram af hálfu n., þótt ekki hafi verið prentað nál.

Ég sé ekki fært, sakir óska hv. meiri hl. n. og hæstv. atvmrh., að taka málið af dagskrá. og vil mælast til þess, að menn lofi málinu að ganga áfram án frekari umr. til 3. umr. Þá geta menn leitt saman hesta sína eftir eigin geðþótta.