24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

86. mál, alþýðutryggingar

*Frsm. minni hl. (Garðar Þorsteinsson):

Á þskj. 133 er nál. minni hl. allshn. um þetta mál, og er þar lagt til, að frv. verði fellt. Það fékkst ekki við 2. umr., að frv. væri fellt, og þess vegna höfum við hv. þm. Snæf. og ég borið fram brtt. á þskj. 136, þar sem farið er fram á, að ef frv. verður samþ., þá nái sú frestun, sem frv. ætlast til, að gerð verði á framkvæmd 2. og 3. mgr. 62. gr. l. um alþýðutryggingar, ekki til starfsfólks pósts og síma. Ég hefi áður við umr. um þetta mál sýnt fram á það með sterkum rökum, að það er engin sanngirni í því að banna með l. starfsfólki símans sérstaklega að endurheimta sínar greiðslur úr lífeyrissjóði embættismanna. Ég hefi sýnt fram á, að 62. gr. alþýðutryggingal. hafi verið þannig sett af Alþ. 1935, að svo hafi verið til ætlazt, að þeir menn, sem yngri væru en 40 ára og hefðu greitt iðggöld sín til lífeyrissjóðs barnakennara eða embættismanna, gætu endurheimt þetta fé. Ég sýndi fram á, að það fé, sem þar er um að ræða, er eign þessara manna sjálfra; þeir hafa lagt það allt fram, og að það, sem þeir tapa við það, væru vextirnir, sem sjóðurinn mundi auðgast á því að hafa haft framlag þessara manna undir höndum. Ég sýndi líka fram, að eftir að alþýðutryggingal. gengu í gildi, hefðu flestir af starfsmönnum póstsins og nokkrir af starfsmönnum stjórnarráðsins notað þessa heimild og fengið sitt fé endurgreitt, og að það væri ákaflega einkennilegt og ósanngjarnt að breyta löggjöfinni þannig, að ekki gengi jafnt yfir alla í þessu efni. Ég sýndi líka fram á það, að þessir starfsmenn símans verði að greiða þessi iðgjöld, um 26 þús. kr. á ári, vegna þess að þeir verða að greiða þau í lífeyrissjóð embættismanna í staðinn fyrir að greiða þau í lífeyrissjóð Íslands, en ef þeir hefðu greitt í lífeyrissjóð Íslands, hefðu iðgjöldin verið samtals 5000 til 6000 kr. á ári. Loks sýndi ég fram á, að þessar greiðslur koma ákaflega misjafnt niður, vegna þess að til grundvallar við útreikning lífeyrissjóðsgjaldsins koma föst laun, og föstu launin þá ýmist miðuð við, hvað menn taka í grunnlaun samkv. launal. eða við það, hvað menn taka í laun samkv. samningum við símastjórnina, þannig að menn, sem hafa raunverulega sömu tekjur, greiða sumir 300 kr. í iðgjöld á ári, en aðrir 150 kr. Til viðbótar við þetta vil ég benda á eitt atriði enn, sem mér virðist, að eigi að verða til þess að sannfæra hv. þdm. um, að ekki sé sanngjarnt annað en að veita starfsfólki símans heimild til að velja í þessu efni. Það er það, að starfsmenn bæjarsímans, sem eru um 40 innan við fertugt og koma þess vegna hér undir, þeir hafa laun samkv. samningum við stjórn bæjarsímans. Þeir eru ekki tryggingarskyldir og höfðu þess vegna ekki greitt nein iðgjöld. Á árinu 1934 eru hinsvegar sett l. um sameining pósts og síma, og þau lög gengu í gildi 9. jan. 1935. En starfsfólk bæjarsímans fékk undanþágu frá því að koma undir ákvæði tryggingarl. og greiddi ekki nein iðgjöld fyrir 1935, en byrjaði að greiða iðgjöld 1936, og þá til lífeyrissjóðs embættismanna. Alþýðutryggingal. gengu hinsvegar í gildi 1. apríl næst á eftir. Þessir starfsmenn bæjarsímans höfðu þannig greitt í lífeyrissjóð embættismanna í 3 mánuði. Og þetta fé var í vörzlum símastjórnar og hefir alls ekki komið til tryggingastofnunar ríkisins. Þessir starfsmenn fóru því fram á, að þeir fengju undanþágu, þannig, að þeir fengju endurgreiddar þær iðgjaldaupphæðir, sem þeir greiddu frá 1. jan. til 31. marz 1936, en yrðu framvegis tryggðir í lífeyrissjóði Íslands samkv. alþýðutryggingal. En þetta fékkst nú ekki.

Það virðist alveg ljóst, að þetta fólk eigi fulla siðferðislega kröfu á að fá að koma undir þá tryggingu, sem það sjálft kýs, sem er þessu fólki ódýrara. Og það gerir sér þá sjálft ljóst, hvaða kostir og gallar fylgja því, sem það kýs sér í því efni. En það á ekki að vera hlutverk Alþingis eða stjórnarvaldanna að taka fram fyrir hendur á þessu fólki um val í þessu efni.

Við hv. þm. Snæf. höfum komið fram með brtt. um það, að þessi ákvæði um frestun nái ekki til starfsfólks pósts og síma. Það er í raun og veru meira formsatriði, að við tökum starfsfólk pósts með í brtt., vegna þess að það fólk hefir þegar fengið öll sín iðgjöld endurgreidd. Nú veit ég, að ýmsir hv. þm. hafa borið því við, viðvíkjandi því að vera á móti þessari till., að ef heimild verði veitt þessu fólki til að hafa frjálst val í þessu efni, þá muni bætast við mjög stór hópur manna, sem sé barnakennarastéttin, sem mundi krefjast endurgreiðslu iðgjalda sinna í lífeyrissjóði barnakennara. En þá er því til að svara, að barnakennarar hafa á fundi hjá sér og með bréfi til hins háa Alþingis einmitt óskað eftir því að fá að halda tryggingunum samkv. 62. gr. alþýðutryggingal., þannig að þeir mættu áfram greiða í lífeyrissjóð barnakennara og fengju að hafa þann sjóð út af fyrir sig. Þeir mundu því ekki, þótt þeim væri opin heimild til þess að velja um, breyta til. Það er þess vegna vitað fyrirfram með þessari yfirlýsingu, að þeir mundu halda áfram að greiða til sama sjóðs, þó að þeir mættu velja um, en ekki hirða um að heimta sín iðgjöld endurgreidd. Og þetta kemur mikið til af því, að þessum lífeyrissjóði barnakennara er haldið alveg sérstökum, en hann fellur ekki saman við aðra sjóði. Sá háttur hefir og verið á síðan Ásgeir Ásgeirsson var ráðh., að barnakennarar hafa fengið að hafa íhlutun um stjórn sjóðsins. Þeir hafa því einnig frá því sjónarmiði séð ennþá minni ástæðu til að óska eftir breyt. í þessu efni. Það hefir einnig verið samþ., að þessi sjóður hefir verið notaður sem byggingarsjóður fyrir barnakennarana. Og ég veit ekki betur en að barnakennarar sjálfir, og þeir einir, noti þennan sjóð til þess að koma upp húsum fyrir sig. Þeir hafa þess vegna haft sömu not af sjóðnum eins og starfsfólk símans mundi vilja hafa af sínu fé. Og ég get óhikað lýst því yfir, af því að mér er kunnugt um það frá þeim mönnum, sem starfa við símann, að ef starfsfólk símans hefði sömu íhlutun um stjórn lífeyrissjóðs embættismanna, að svo miklu leyti sem þetta fólk greiðir fé í sjóðinn, eins og barnakennarar hafa um stjórn lífeyrissjóðs barnakennara, sem sé að þeir hafa umráð yfir sínum lífeyrissjóði til bygginga fyrir sig, þá mundi starfsfólk símans ekki hafa á móti því, að iðgjaldagreiðslur frá því rynnu í lífeyrissjóð embættismanna. Þetta starfsfólk hefir myndað með sér félagsskap. Það hefir óskað eftir að koma upp byggingarfélagi fyrir sig. En því veitist, eins og öðrum, ákaflega örðugt að fá fé til bygginga. Og það hefir hugsað sér, ef frv. verður fellt, að nota heimild 62. gr. tryggingal. og þannig nota þetta fé sem lánsfé til bygginga. Það er það sama og barnakennarar hafa fengið með undanþágu og sérstakri löggjöf fyrir atbeina Ásgeirs Ásgeirssonar, þegar hann var ráðh.

Þetta mál horfði öðruvísi við, ef hæstv. atvmrh. vildi lýsa yfir, að þessum sjóði yrði haldið sér, sem tilheyrir starfsfólki símans, og að það mundi fá að hafa hans sömu not og kennarar hafa af sínum sjóði.

Af þessu, sem ég hefi sagt, er það bert, að þau mótmæli falla um sjálf sig, sem vissir menn innan þessarar d. hafa komið fram með gegn þeirri till. frá minni hl. allshn. að fella þetta frv., svo að starfsfólk símans geti fengið þá ósk sína uppfyllta að fá að hafa sömu not af fé sínu í lífeyrissjóði embættismanna eins og barnakennarar hafa af sínu fé í lífeyrissjóði barnakennara. Vænti ég þess vegna, að hv. þdm. sjái sér fært að samþ. þá brtt., sem við hv. þm. Snæf. berum fram á þskj. 136.